Kolfinna Gunnarsdóttir fæddist í Syðri-Vík á Vopnafirði 9. október 1939. Hún lést á Landspítalanum 3. febrúar 2023.

Foreldrar hennar voru Jörgen Gunnar Steindórsson bóndi og síðar tollvörður, f. 1915, d. 1988, og Gunnlaug Jónsdóttir hárgreiðslukona, f. 1915, d. 1993.

Systkini Kolfinnu eru: Guðrún, f. 1938, d. 2014, Þórlaug Steingerður, f. 1941, Steindór, f. 1945, Valgerður Salvör, f. 1947, d. 1947, og Valgerður Salvör, f. 1951.

Kolfinna giftist Ásgeiri Bergi Friðjónssyni héraðsdómara 9. október 1964. Börn Kolfinnu og Ásgeirs eru: 1) Gunnar Már, f. 9. janúar 1965, giftur Sigrúnu Snorradóttur, f. 16. maí 1961. Börn þeirra eru Ásgerður Júlía, f. 2003, og Rakel Tinna, f. 2003, fyrir átti Sigrún soninn Snorra Frey, f. 1982. 2) Friðjón, f. 3. maí 1974, í sambúð með Birnu Hrönn Bjarnadóttur, f. 29. apríl 1975. Börn þeirra eru Emilía Ósk, f. 2002, Þórey Anna, f. 2005, og Ásgeir Orri, f. 2011. 3) Kolfinna Mjöll, f. 26. september 1979, gift Bjarka Þór Eliasen, f. 4. maí 1976. Börn þeirra eru Salka Eik, f. 2003, Funi Hrafn, f. 2006, og Grímur, f. 2010.

Kolfinna ólst upp í Syðri-Vík til átta ára aldurs en þá flutti fjölskyldan til Ólafsfjarðar. Fimm árum síðar fluttist fjölskyldan til Reykjavíkur þar sem Kolfinna átti eftir að búa alla sína tíð.

Kolfinna lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1960 og dvaldi sem au-pair í París árið 1961. Hún vann ýmis störf fyrri hluta ævi sinnar, meðal annars sem flugfreyja en lengst af starfaði hún sem deildarfulltrúi hjá Barnavernd Reykjavíkur eða frá árinu 1965 til eftirlaunaaldurs árið 2009.

Útför Kolfinnu fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 20. febrúar 2023, klukkan 13.

Elsku mamma mín var sterk, blátt áfram, fyndin, sjálfstæð og óendanlega hjálpsöm.

Hressandi og frábær týpa sem gustaði af hvert sem hún fór.

Hún gekk hratt, synti á hverjum virkum morgni, las mikið, eldaði ljúffengan mat og bakaði ómótstæðilegar kökur og bakkelsi. Hún átti það til að segja hlutina umbúðalaust enda með einstaklega svartan húmor. Hún lét t.d. oft kalla mig upp þegar ég fór með henni í Hagkaup í Skeifunni sem unglingur. Þá stóð ég kannski og gluggaði í glansblöðin þegar nafnið mitt ómaði í hátalarakerfinu. Mamma stóð svo skælbrosandi við upplýsingaborðið og þóttist alls ekki hafa vitað hvar ég var þegar ég arkaði skömmustuleg fram hjá henni.

Hún var forvitin um fólk en hélt sínu oftast fyrir sig. Ég var ekkert alltaf sátt þegar hún talaði á sinn filterslausa hátt en ég trúi því að allt við mömmu hafi mótað mig og styrkt sem manneskju. Krafturinn í henni átti engan sinn líka. Hún var vinnusöm með eindæmum og gerði ekkert nema gera það almennilega og helst gott betur en það.

Sunnudagsmaturinn hennar mömmu var órjúfanleg hefð innan fjölskyldunnar í mörg ár enda mamma listakokkur. Hún eldaði læri með öllu tilheyrandi og lagaði líka alltaf langbesta grjónagrautinn. Kanilsnúða, eplakökur, pönnukökur, skinkuhorn og súkkulaðikökur hristi hún fram úr erminni og ósjaldan kom hún klyfjuð kræsingum í afmæli barnabarnanna. Það var líka ógleymanlegt þegar hún kom með franska súkkulaðiköku í ferðatöskunni til að gleðja okkur í heimsókn til Barcelona.

Við fjölskyldan vorum svo heppin að fá að búa hjá mömmu í tvö ár og áttum þar notalegar og gefandi stundir. Það var ómetanlegt fyrir börnin að búa hjá ömmu sinni sem var alltaf til staðar. Hún gerðist meira að segja dagamma fyrir Grím okkar þar til hann komst inn á leikskóla.

Þá var ósjaldan bökunarilmur í loftinu og öll barnabörnin fundu ævintýri á hverju strái í spennandi húsi og hlutum ömmu sinnar.

Síðustu ár voru dálítið flókin eftir að mamma veiktist og varð ekki sjálfri sér lík. Hlutverkin breyttust og sterka, blátt áfram og sjálfstæða mamma dró sig inn í skelina. Það var okkur öllum þungbært. Síðustu mánuði var mamma þó orðin líkari sjálfri sér og við sáum glitta aftur í sterka persónuleikann sem við þekktum. Það var mjög dýrmætt.

Megi sólin sem þú elskaðir skína á þig alla daga, þú lesa allt sem þig lystir, baka ef þig langar, tala eins og þér sýnist, ganga rösklega og synda frjáls, glöð og áhyggjulaus.

Takk fyrir allt elsku mamma. Minningarnar munu lifa og ylja okkur um ókomna tíð.

Þín dóttir,

Kolfinna (Kolla).