Ágúst Sigurðsson fæddist 12. júní 1926 á Ljótsstöðum í Vopnafirði. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Hlíð 11. febrúar 2023.

Ágúst var sonur hjónanna Sigurðar Gunnarssonar og Jóhönnu Sigurborgar Sigurjónsdóttur. Systkini hans eru Gunnar, f. 1924, d. 2015, Sigurjón, f. 1925, d. 2008, Sigurður, f. 1928, d. 2010, Jörgen, f. 1930, d. 2000, Jón, f. 1932, d. 2019, Valgerður, f. 1933, Anna, f. 1935, Katrín, f. 1936, Jóhann, f. 1940, d. 1997, og Árni, f. 1943, d. 2020.

Í marsmánuði árið 1954 gekk hann að eiga Sigurlaugu Pálsdóttur, f. 22. maí 1930, d. 2018, og bjuggu þau lengst af í Þingvallastræti 35 á Akureyri.

Útför Ágústs fór fram frá Höfðakapellu 20. febrúar 2023 í kyrrþey að ósk hins látna.

Einstakur öðlingur, Ágúst Sigurðsson, Gústi í Sjöfn, hefur kvatt okkur og horfið á vit feðranna. Gústi var mikill fjölskylduvinur okkar í Birkilundi 14 á Akureyri. Hann kom til Akureyrar á sjöunda áratugnum frá Vopnafirði þar sem hann hafði verið bóndi á Þorbrandsstöðum og hóf að vinna í Efnaverksmiðjunni Sjöfn þar sem hann var allt til starfsloka. Gústi og pabbi, sem var forstjórinn í fyrirtækinu, urðu strax miklir mátar og héldu góðum vinskap alla tíð. Hann kom ótal sinnum í heimsókn og drakk kaffi og ræddi málin. Stundum var eitthvað sterkara drukkið en Gústi var hófsamur og aldrei sást vín á honum. Hann var sérlega barngóður og við systkinin munum vel eftir því hvernig hann leyfði okkur krökkunum að toga af öllum kröftum í hár sitt en hann virtist algerlega laus við það að vera hársár. Mér eru minnisstæðar veiðiferðir sem hann tók mig með í, m.a. þegar við veiddum silung í Svarfaðardalsá og hann leyfði mér strákguttanum að keyra svarta Volvoinn sinn á túnum og fáförnum troðningum. Á einni akstursleiðinni stýrði ég fína bílnum hans Gústa hálfa leið ofan í skurð og varð heldur sneyptur. Gústi tók þessari afvegaleiðingu af mikilli mildi og skilningi og kenndi sjálfum sér um að hafa ekki leiðbeint mér nógu við aksturinn. Og eftir smá stjak við bílinn tókst okkur að koma honum upp á veg. Það var líka fyrir tengsl við Gústa að ég fór í sveit sem krakki til bróður hans Gunnars í Vopnafirði. Sú reynsla er mér ómetanleg þar sem ég, sem ekkert þekkti til sveitastarfa, fékk heldur betur að taka til hendinni og kynnast öðrum heimi en ég var vanur.

Gústi var handlaginn í meira lagi. Hann var viðgerðarmaður og „altmuligman“ í Sjöfn þar sem hann gerði við allar vélar og hélt hlutunum gangandi með verksvitið á réttum stað. Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að vinna og læra af honum um tíma í Sjöfn og fékk ófáar leiðbeiningar frá honum áður en ég fór að munda verkfæri í alls konar brasi. Alltaf var líka gott að fá ráð hjá Gústa þegar fólk fór í framkvæmdir því reynslubanki hans var stór.

Gústi minn, takk fyrir gefandi og góða samveru á undanförnum áratugum, það var mikið lukka að þekkja þig. Veröldin yrði betri með fleiri Gústum.

Hvíldu í friði.

Ívar Aðalsteinsson.