Reykjavíkurhöfn Hálfur annar tugur gáma og bretta með búnaði var hífður um borð í Brúarfoss. Búnaðurinn er nú í bíl á leið til Úkraínu.
Reykjavíkurhöfn Hálfur annar tugur gáma og bretta með búnaði var hífður um borð í Brúarfoss. Búnaðurinn er nú í bíl á leið til Úkraínu. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Helgi Bjarnason helgi@mbl.is Sending af ýmsum búnaði sem nýtast á til að byggja upp og halda við löskuðu raforkukerfi er á leiðinni frá Íslandi til Úkraínu. Íslensk orkufyrirtæki gáfu búnað sem þau telja að geti nýst Úkraínumönnum vegna skemmda sem Rússar vinna stöðugt á raforkukerfi landsins.

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Sending af ýmsum búnaði sem nýtast á til að byggja upp og halda við löskuðu raforkukerfi er á leiðinni frá Íslandi til Úkraínu. Íslensk orkufyrirtæki gáfu búnað sem þau telja að geti nýst Úkraínumönnum vegna skemmda sem Rússar vinna stöðugt á raforkukerfi landsins.

Ósk kom frá Úkraínu um að Íslendingar myndu útvega nauðsynlegan búnað til að bregðast við rafmagnsleysi, að sögn Sveins H. Guðmarssonar, upplýsingafulltrúa utanríkisráðuneytisins. Nú er ár liðið frá innrás Rússa í landið og síðustu vikur hafa árásir þeirra meðal annars og ekki síst miðað að því að eyðileggja raforkuinnviði landsins. Hefur það orsakað rafmagnsleysi og orkuskömmtun þótt reynt hafi verið að gera við og byggja upp að nýju.

Tuga milljóna verðmæti

Utanríkisráðuneytið hafði samband við Landsnet um það hvaða búnaður væri til hér á landi og gæti nýst Úkraínumönnum. Landsnet leitaði til annarra orkufyrirtækja og kom búnaður frá Rarik, Veitum, Norðurorku og HS Veitum, auk Landsnets. Safnað var saman varahlutum sem vöntun er á í Úkraínu, þar má nefna búnað eins og rofa, varnarbúnað, spenna, varaaflsstöðvar og bíla sem hægt er að nota til viðgerða. Steinunn Þorsteinsdóttir, upplýsingafulltrúi Landsnets, segir að allt sé þetta góður búnaður, þ. á m. ónotaður búnaður sem tekinn er af neyðarbirgðum. Steinunn telur að verðmæti búnaðarins í þessari sendingu hlaupi á tugum milljóna.

„Við erum glöð að geta lagt okkar af mörkum og brugðist við óskum og þörfum Úkraínumanna,“ segir Sveinn. Rifja má upp í þessu sambandi að í desember fór flugvélarfarmur af hlýjum vetrarfatnaði til Úkraínu, ullarsokkar og fleira sem íslenskt hannyrðafólk prjónaði en einnig vörur sem utanríkisráðuneytið keypti. Fóru vörurnar með kanadískri herflugvél og komu m.a. í góðar þarfir hjá hermönnum á vígstöðvunum, að því er fram hefur komið. Stjórnvöld hafa einnig styrkt Úkraínumenn með beinum fjárframlögum í gegnum alþjóðastofnanir og sjóði.

Sent með leynd

Rafbúnaðinum var skipað út í Reykjavíkurhöfn síðastliðinn miðvikudag og fór með flutningaskipi til Danmerkur. Farmurinn er nú kominn í bíla sem eru á leiðinni til Úkraínu, samkvæmt upplýsingum Landsnets. Leynd hvíldi yfir sendingunni á meðan skipið var á leiðinni yfir hafið. Segir Steinunn að það hafi verið af öryggisástæðum, þeim sömu og viðhafðar eru við sendingar frá öðrum löndum til Úkraínu.

Höf.: Helgi Bjarnason