… enn ríkir nokkur óvissa um það hvenær starfsmenn teljist á eðlilegri leið í og úr vinnu

Lögfræði

Arnar Vilhjálmur Arnarsson

lögmaður og eigandi Bótamál.is.

Samkvæmt kjarasamningnum skulu starfsmenn á íslenskum vinnumarkaði slysatryggðir vegna vinnuslysa. Þá bæta slysatryggingar almannatrygginga einnig slys við vinnu. Undir tryggingarnar falla einnig slys sem verða á nauðsynlegum ferðum á eðlilegri leið til og frá vinnu. En hvenær telst starfsmaður á eðlilegri leið til og frá vinnu? Þessari spurningu er ekki auðsvarað sem sannast í því hversu oft álitaefnið hefur komið til kasta dómstóla í ýmsum myndum. Það var síðast fyrir viku þegar Hæstiréttur samþykkti áfrýjunarleyfi í slíku máli.

Áður en það mál verður skoðað nánar er rétt að gera grein fyrir því að almennt er horft svo á að sú ferð í eða úr vinnu þurfi að vera bein, í þeim skilningi að ekki séu farnir langir útúrdúrar eða förin stöðvuð af ástæðum sem eru ekki eðlilegur liður í að ferðast til og frá vinnu. Eitt það mikilvægasta sem horft er til í þessu samhengi er hvort meginmarkið þeirrar leiðar sem starfsmaður leggur fyrir sig sé að komast í vinnu eða heim. Þannig hefur verið horft ansi stranglega á ferðaleiðina sem fyrir valinu er hverju sinni og alla jafna miðað við að valdar séu leiðir sem almennt séu farnar í þessum tilgangi, þótt taka verði auðvitað tillit til hindrana sem starfsmaðurinn hefur enga stjórn á eins og götuframkvæmda sem loka leið. Skoða þarf hverju sinni hvaða aðstæður eru uppi en taka má sem dæmi að það að stoppa á leikskóla á leið í eða úr vinnu til að skila af sér eða sækja barn hefur verið talið falla undir gildissvið reglunnar. Hið sama hefur verið talið gilda um starfsmann sem sótti sér bensín á leið úr vinnu. Á móti hefur verið talið utan eðlilegrar leiðar í og úr vinnu að sækja æfingu í líkamsræktarstöð eða sund svo dæmi séu tekin.

Ef við víkjum þá aftur að umræddu máli sem nú bíður meðferðar fyrir Hæstarétti, þá má ráða af fyrri dómsniðurstöðum í málinu að þar hafi verið tekist á um það hvort starfsmaður Reykjavíkurborgar hafi verið á eðlilegri leið úr vinnu er hann hljóp heim einn dag úr vinnu þegar ekið var á hann. Hlaupaleið starfsmannsins, sem hann mun hafa hlaupið fyrir og eftir vinnu, mun hafa verið um tvöfalt lengri en vegalengdin milli vinnustaðar og heimilis. Þá mun hafa verið lykkja á hlaupaleið starfsmannsins sem virtist dóminum til þess eins fallin að lengja leiðina, enda hafi hún ekki fært starfsmanninn nær heimili sínu heldur fjær. Reykjavíkurborg taldi slysið ekki hafa átt sér stað á eðlilegri leið úr vinnu heldur hafi það fremur í frítíma starfsmannsins. Samþykkti hún því bótaskyldu starfsmannsins úr frítímaslysatryggingu borgarinnar, sem tryggir lakari bótarétt en í tilfelli vinnuslysa. Þeirri niðurstöðu vildi starfsmaðurinn ekki una og úr varð að málið rataði fyrir dómstóla. Þannig laut ágreiningur aðilanna ekki að því hvort sá ferðamáti sem starfsmaðurinn kaus sér, að hlaupa í og úr vinnu, gæti ekki fallið undir gildissvið bótareglnanna, heldur fyrst og fremst um hlaupaleiðina og tilgang hlaupsins. Hvort hlaupið hafi verið á eðlilegri leið í og úr vinnu eða hvort starfsmaðurinn hafi fremur verið að sinna heilsurækt eða áhugamáli í frítíma sínum, utan vinnu. Héraðsdómur féllst á hið síðarnefnda og sýknaði Reykjavíkurborg af kröfum starfsmannsins um skaðabætur úr launþegatryggingu, en Landsréttur komst að gagnstæðri niðurstöðu og tók meðal annars fram að það að hlaupið hefði haft tvíþættan tilgang, sem ferðamáti og líkamsrækt, girti eitt og sér ekki fyrir bótarétt starfsmannsins. Féllst rétturinn á að þegar slysið átti sér stað hefði starfsmaðurinn í það minnsta ennþá verið á eðlilegri leið heim til sín, en þó áður en komið var að umræddri viðbótarlykkju á leiðinni. Nú er ljóst að málið mun hljóta áheyrn Hæstaréttar og því er enn óljóst hvert hið endanlega fordæmi kemur til með að vera þegar upp er staðið.

Hvernig svo sem málið fer að lokum er ljóst að enn ríkir nokkur óvissa um það hvenær starfsmenn teljist á eðlilegri leið í og úr vinnu í þessum skilningi og mikilvægt að skoða stöðu sína vandlega lendi maður í slíkri aðstöðu. Því fjárhagslegu hagsmunirnir sem eru undir geta verið miklir.