Hættur Guðmundur Þ. Guðmundsson stígur af stóra sviðinu.
Hættur Guðmundur Þ. Guðmundsson stígur af stóra sviðinu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sögulegum kafla í íslenskum handknattleik er lokið. Guðmundur Þ. Guðmundsson, sem hefur þjálfað karlalandsliðið á 14 af síðustu 22 árum og náð besta árangrinum í sögu þess, er hættur störfum. Guðmundur stýrði íslenska liðinu á 16 stórmótum, þar af…

Handbolti

Víðir Sigurðsson

vs@mbl.is

Sögulegum kafla í íslenskum handknattleik er lokið. Guðmundur Þ. Guðmundsson, sem hefur þjálfað karlalandsliðið á 14 af síðustu 22 árum og náð besta árangrinum í sögu þess, er hættur störfum.

Guðmundur stýrði íslenska liðinu á 16 stórmótum, þar af þrisvar á Ólympíuleikum, og er sá eini sem hefur unnið til verðlauna með því á stórmótum.

Hann var með liðið á þremur skeiðum, frá 2001 til 2004, frá 2008 til 2012 og frá 2018 til 2023.

Undir hans stjórn fékk liðið silfurverðlaun á Ólympíuleikunum 2008 og bronsverðlaun á Evrópumótinu 2010, endaði í fjórða sæti á EM 2002, fimmta sæti á EM 2014, sjötta sæti á EM 2022, 6. sæti á HM 2011 og 7. sæti á HM 2003.

Auk þess varð Guðmundur ólympíumeistari sem þjálfari danska landsliðsins árið 2016 og er eini þjálfari heims sem hefur farið með landslið tveggja þjóða í úrslitaleik á Ólympíuleikum.

Hann getur nú einbeitt sér að sínu félagsliði en Guðmundur þjálfar danska liðið Fredericia.

Ágúst og Gunnar stjórna

HSÍ skýrði frá brotthvarfi Guðmundar í gær og sagði í tilkynningu að komist hefði verið að samkomulagi um starfslok Guðmundar. Það hefði verið í sátt beggja aðila sem myndu ekki tjá sig frekar um innihald þess.

Guðmundur B. Ólafsson formaður HSÍ sagði við mbl.is í gær að aðstoðarþjálfararnir Ágúst Þór Jóhannsson og Gunnar Magnússon myndu stýra liðinu í leikjunum fjórum sem eftir eru í undankeppni EM í mars og apríl og sambandið hefði tíma til haustsins til að ráða nýjan þjálfara.

Hver tekur við?

Þar gætu áhugaverðir þjálfarar komið til greina, eins og Dagur Sigurðsson, sem á eitt ár eftir af samningi sínum með landslið Japans, Snorri Steinn Guðjónsson sem hefur náð frábærum árangri með lið Vals síðustu ár og Erlingur Richardsson sem þjálfaði landslið Hollands með góðum árangri og hættir með karlalið ÍBV að þessu keppnistímabili loknu.