Félagsdómur Halldór Kristján Þorsteinsson, lögmaður Ólafar Helgu.
Félagsdómur Halldór Kristján Þorsteinsson, lögmaður Ólafar Helgu. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
Sex daga frestur var gefinn í Félagsdómi í gær til skila á greinargerðum vegna málshöfðunar Ólafar Helgu Adolfsdóttur, ritara Eflingar, á hendur Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands og íslenska ríkinu

Ólafur Pálsson

oap@mbl.is

Sex daga frestur var gefinn í Félagsdómi í gær til skila á greinargerðum vegna málshöfðunar Ólafar Helgu Adolfsdóttur, ritara Eflingar, á hendur Samtökum atvinnulífsins, Alþýðusambandi Íslands og íslenska ríkinu.

Ólöf krefst þess að félagsmenn Eflingar fái að kjósa um miðlunartillögu Aðalsteins Leifssonar, skipaðs ríkissáttasemjara, en Halldór Kristján Þorsteinsson, lögmaður Ólafar Helgu, segir að með því að neita henni um þennan rétt sé gengið gegn hennar réttindum sem séu varin bæði í stjórnarskrá og mannréttindasáttmála Evrópu.

Gildi miðlunartillögu óljóst

Halldór segir óljóst hvaða gildi miðlunartillagan hefur fyrst atkvæðagreiðslan var ekki framkvæmd fyrir 31. janúar eins og ríkissáttasemjari hafði lagt til. „Og þar af leiðandi óvíst hvort hún er þá bara fallin niður eða hafi ef til vill tekið gildi sem ígildi kjarasamnings eða þá flögri einhvers staðar um loftið sem einhvers konar miðlunartillaga. Það er bara óljóst og ef til vill Félagsdóms þá í þessu máli að skýra myndina. Ég held að ég þurfi ekki að fara yfir það í löngu máli hvaða aðstæður eru uppi í samfélaginu sem kalla á það að þessu máli sé flýtt og að Félagsdómur fái að tjá sig sem fyrst,“ segir Halldór Kristján og bætir því við að langur frestur sé fyrst og fremst veittur að kröfu Alþýðusambandsins.

Hæfilegur frestur

Magnús M. Norðdahl, lögmaður Alþýðusambands Íslands, segir að sá frestur sem ASÍ óskaði eftir sé í samræmi við ákvæði einkamálalaga sem mæli fyrir um réttinn á hæfilegum fresti. „Við lögðum það í mat dómsforseta hver sá hæfilegi frestur er og hann metur það að sá frestur sé nokkrir dagar og við fengum þann frest.“

Magnús telur ekki að ferli miðlunartillögu skipaðs ríkissáttasemjara bendi til brotalama í vinnulöggjöfinni, eins og meðal annars stjórnmálamenn hafa tjáð sig um. „Ég held að þeir séu í því efni svolítið úti í mýri eins og embætti ríkissáttasemjara. Vinnulöggjöfin hefur þjónað okkur afskaplega vel um áratuga skeið. Hún er afrakstur af mjög langri og erfiðri deilu og deilum á Íslandi sem endaði með sátt um vinnulöggjöfina sem tekin var upp árið 1996.“

Magnúsi sýnist að stundum sé verið að blása út þá stöðu að vinnulöggjöfin sé ómöguleg og þá sé vísað til dóms Landsréttar í því efni. „Landsréttur var einungis að fjalla um að ákvæði vanti inn í aðfararlögin til að styðja vinnulöggjöfina. Ég held að það sé verið að búa til einhverjar aðstæður fyrir þessa umræðu eða til að réttlæta inngrip ríkisins í þessa deilu með einhvers konar lagasetningu en þau skilyrði eru ekki til staðar. Alþingi hefur engar heimildir til að grípa inn í löglegar vinnustöðvanir nema almenningi sé búin einhver hætta af verkföllum,“ segir Magnús.

Höf.: Ólafur Pálsson