Eiríkur Þorsteinsson
Eiríkur Þorsteinsson
Afurð, eins og kolefnislosun með skógrækt í arðsemisskyni, er ekki gott mál sé horft til þess hvernig skóg við erum að rækta frá sjónarmiði nytja.

Eiríkur Þorsteinsson

Við erum búin að fá sönnun þess að hægt er að rækta skóga á Íslandi. Nú þurfum við að fara að huga að því hvernig við ætlum að nota þá og í hvað timbrið á að nýtast. Afurð, eins og kolefnislosun með skógrækt í arðsemisskyni, er ekki gott mál sé horft til þess hvernig skóg við erum að rækta frá sjónarmiði nytja. Hvers vegna ekki að framleiða tré fyrir aflausnarbréf? Mín vegna er þessi nýja aðferð til að afla peninga fyrir skógrækt ekkert verri en hver önnur. Réttast er þó að horfa til framtíðar og velja trjátegundir sem við getum nýtt og haft stjórn á í ræktuninni því það er ekki sama hverju er plantað né hvar. Skógarbændur og timburframleiðendur þurfa að rækta og framleiða timbur úr þeim trjám sem henta t.d. til húsbygginga eða annars iðnaðar eins og fyrir járnblendisverksmiðjur eða kísil- og pappírsframleiðslu. Dæmi má taka um timburvinnslufyrirtæki á Norðurlöndum sem vilja fá rauðgreni og skógarfuru í sína framleiðslu. Ástæðan er sú að timburgæðin úr þessum trjám við rétta ræktun verða einsleit. Skógarbændur á Norðurlöndum sem rækta barrtré til timburvinnslu hafa lagt sig í líma við þessa ræktun og náð þessum árangri. En hver er árangurinn séð frá náttúrusjónarmiðum? Það hafa orðið til nytjaskógar þar sem dýr hafa flæmst í burtu, þetta eru ekki náttúruskógar þar sem tré fá að rotna og fuglarnir og önnur dýr fá að njóta góðs af villtri náttúru.

Einnig má taka dæmi um þróun á efnisvali við límtrésframleiðslu. Á sínum tíma, þegar límtrésframleiðsla hófst, þótti hagkvæmt að framleiða úr lélegu og ódýru timbri, timbri úr náttúruskógum. Kvistirnir voru sagaðir úr og búnar til lamellur sem voru sem kvistaminnstar og úr þeim varð límtré. Í dag er eingöngu notað timbur úr rauðgreni til að sem minnstur efnis- og vinnslukostnaður verði og að límtréð verði einsleitt. Við kynntumst þessu þegar göngubrúin yfir Þjórsá var gerð árið 2020. Með sannfæringarmætti fengum við Norsk treteknik, sem er vottunaraðili fyrir Límtré á Flúðum, til að samþykkja íslenskt greni í límtré fyrir brúna. Þegar framleiðendur á timbri úr barrtrjám á Norðurlöndum komu sér saman um bók árið 2020 til að útlitsflokka timbur eftir var hún eingöngu skrifuð fyrir rauðgreni og skógarfuru. Þegar við þýddum bókina fyrir íslenskan barrvið þá voru ekki bara skógarfuran og rauðgrenið tekin með heldur tókum við líka með sitkagreni, stafafuru og þær lerkitegundir sem vaxa hér. Sem sagt allur barrviður sem við getum tekið til viðarvinnslu því við vorum að hugsa um náttúruskógana.

Þær blaðagreinar um skógrækt sem hafa komið fram að undanförnu hafa aðallega fjallað um áhrif skógræktar á umhverfi okkar og margar um stefnuleysi í þeim málum.

Stefnuleysið í skógrækt

Stefnuleysið í skógrækt snýr ekki eingöngu að útsýninu sem við missum vegna trjáa eða hve miklu við viljum breyta af okkar landi fyrir skógrækt. Stefnuleysið snýr einnig að því hvernig á að nota skóginn í framtíðinni. Erum við að tala um skóga til timburvinnslu, og þá val á trjátegundum svo sem rauðgreni og skógarfuru, eða er þetta skógur til brennslu í iðnaði og/eða til upphitunar og val á trjátegundum yrði þá t.d. birki, stafafura og sitkagreni? Sem sagt stefnuleysið snýr að vali á trjátegundum og hvort það eigi að vera náttúruskógar t.d. eins og Heiðmörk eða nytjaskógar.

Stefnuleysið birtist líka í ræktun bændaskóga, það getur ekki bara verið nóg að rækta skóg. Samfélagið gerir kröfu um gæði og tilgang.

Tækifæri til framtíðar

Ísland er skóglítið land og því eru möguleikar til skógræktar miklir. Um hundrað ára saga íslenskrar skógræktar hefur sýnt að hægt er að rækta trjátegundir til timburiðnaðar með góðum árangri. Vísindamenn telja að hlýnun jarðar næstu áratugi sé óumflýjanleg. Það muni hafa í för með sér mikla gróðureyðingu á heitum svæðum og bráðnun jökla, sem raskar jafnvægi hafstrauma. Vestrænar þjóðir reiða sig á skóga og timbrið sem úr þeim kemur. Ísland er þar engin undantekning. Mikill innflutningur er á timbri til landsins með tilheyrandi kolefnislosun. Skógarbændur á um 500 skógræktarjörðum eru með aðild að Landssamtökum skógareigenda. Allt bendir til þess að þessi tala muni hækka ef miðað er við ásókn landeigenda vítt og breitt um landið sem vilja hefja skógrækt. Langflestir skógarbændur eru að rækta skóg til timburframleiðslu og má því segja að aukið skjól, hefting jarðfoks, ríkulegri beitarmöguleikar, aukin uppskera, jafnari vatnsbúskapur og kolefnisbinding séu dæmi um aukaafurðir skógarins. Með skógrækt má byggja upp atvinnu á landsbyggðinni, allt frá plöntuframleiðslu, gróðursetningu og umhirðu jafnt og þétt fram að lokahöggi. Úr íslenskum skógum má vinna gæðavið af ýmsu tagi. Íslenskt timbur er ekki síðra að gæðum en það innflutta sé rétt að verki staðið í framtíðinni við ræktunina. Samhliða vel hirtum og stækkandi skógum fer skógarmenning á Íslandi einnig vaxandi og er það tilhlökkunarefni að vita til þess að Ísland geti orðið sjálfu sér nægt um íslenskt timbur í ekki svo fjarlægri framtíð. Framtíð í skógrækt er ekki bara 100 ár, hún er miklu lengri.

Höfundur er ráðgjafi hjá Trétækniráðgjöf slf.

Höf.: Eiríkur Þorsteinsson