Ólafur Stefánsson skrifar á Boðnarmjöð: „Það er enginn öfundsverður af að vera túristi á landinu þessa dagana, í foráttuveðri og fordæmalausum verkföllum og eiga ekki nótt sér vísa“: Nú til kemur Siggu og Teits

Ólafur Stefánsson skrifar á Boðnarmjöð: „Það er enginn öfundsverður af að vera túristi á landinu þessa dagana, í foráttuveðri og fordæmalausum verkföllum og eiga ekki nótt sér vísa“:

Nú til kemur Siggu og Teits.

Að túristum gróflega' er veist.

Þeir húslausir hanga

með hélu um vanga

og fá ekki rönd við reist.

Guðmundur Arnfinnsson yrkir „Uppgjafahermaður“:

Einn dag hætti Víglundur djarfi

að djöflast í Þorfinni Skarfi

og Þórólfi Galta

og Þjóðólfi halta,

en það var af kulnun í starfi.

Davíð Hjálmar Haraldsson um tíðindi dagsins:

Ekki þau vilja eiga láta hjá sér.

Vargar þau eru og verða alveg frá sér.

Bítast þau ær svo báðum þeirra á sér.

Halldór og Sólveig hænur ættu að fá
sér.

Hvorki menn né hesta sakaði þegar bíll Bergþóru Þorkelsdóttur forstjóra Vegagerðarinnar fór út af veginum. Jón Atli Játvarðarson kvað:

Gróf er leið til Gómorra,

grimm við þessa vetrarsnerru.

Brunar út af Bergþóra

á bensínlausri hestakerru.

Í bókinni Bragarblómi eftir Ragnar Inga Aðalsteinsson er ljóðið Mikið um að vera á skerinu. – Útdráttur úr skýrslu:

Þótt íslenskir striti og úðri

og ómældu sói hér púðri

með áform svo merk

um sín vönduðu verk þá

endar það oftast í klúðri.

Jóhann frá Flögu segir frá því í Vísnasafni sínu, að eitt sinn hafi Sveinn lögmaður Sölvason verið staddur á Hólum í Hjaltadal og ræddi við Ingibjörgu Sigurðardóttur, konu Gísla biskups Magnússonar. „Bar svo til að hrafn sat á stofustöng og gall.“ Þá kvað Sveinn:

Hrafn situr á hárri stöng;

höldar mark á taki.

Ei þess verður ævin löng

sem undir býr því þaki.

Frú Ingibjörg svaraði:

Engin hrakspá er það mér

þó undan gangi eg nauðum

en ef hann kvakar yfir þér

ekki seinna dauðum.