Teikningar Da Vinci skrifaði „Equatione di Moti“ eða jafngildi hreyfinga.
Teikningar Da Vinci skrifaði „Equatione di Moti“ eða jafngildi hreyfinga. — Mynd af vefnum caltech.edu
Verkfræðingar frá Caltech-háskóla hafa uppgötvað að ítalski vísinda- og listamaðurinn Leonardo Da Vinci hafi verið nálægt því að skilja þyngdarlögmálið, allnokkru áður en enski eðlisfræðingurinn Isaac Newton setti fram kenningu sína

Verkfræðingar frá Caltech-háskóla hafa uppgötvað að ítalski vísinda- og listamaðurinn Leonardo Da Vinci hafi verið nálægt því að skilja þyngdarlögmálið, allnokkru áður en enski eðlisfræðingurinn Isaac Newton setti fram kenningu sína. Þetta kemur fram í frétt sem birt er á vef skólans, en þar er vísað í fræðigrein sem birt hefur verið í tímaritinu Leonardo.

Í fræðigreininni fjalla vísindamenn skólans um rannsókn sína á einni af minnisbókum Da Vincis þar sem fjölfræðingurinn greinir frá tilraun sem staðfesti að þyngdaraflið væri í eðli sínu hröðun, töluverðu áður en Galileo Galilei og Newton mótuðu kenningar sínar. Da Vinci skorti hins vegar nákvæm mælitæki til að mæla falltíma hluta og það setti honum skorður í rannsóknum sínum. Upphaf fræðigreinarinnar má rekja til þess að árið 2017 rakst Mory Gharib, prófessor við skólann, á teikningar af þríhyrningum í minnisbók Da Vincis þar sem hann gerir grein fyrir tilraun og virðist sér meðvitaður um að sandur og vatn myndu ekki falla á jöfnum hraða til jarðar, heldur yrði hröðun.

Að sögn Gharibs reyndust útreikningar Da Vinci á hröðun rangir, en sú staðreynd að hann hefði fengist við spurninguna um þyngdaraflið snemma á 15. öld „undirstrikar hversu langt á undan sinni samtíð hann var sem hugsuður,“ segir Gharib.