Fosshótel Sex hótel munu hafa hætt starfsemi um næstu helgi.
Fosshótel Sex hótel munu hafa hætt starfsemi um næstu helgi. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
„Við leituðum til ferðaskrifstofa í gær um hverjar væru tilbúnar til að liðsinna gestum sem verkfallið hefði áhrif á og væru ekki búnir að fá gistingu. Þá gætu þeir hringt í þetta neyðarnúmer sem er mannað allan sólarhringinn og þarna fá…

„Við leituðum til ferðaskrifstofa í gær um hverjar væru tilbúnar til að liðsinna gestum sem verkfallið hefði áhrif á og væru ekki búnir að fá gistingu. Þá gætu þeir hringt í þetta neyðarnúmer sem er mannað allan sólarhringinn og þarna fá gestir liðsinni við að finna sér gistingu,“ segir Elías Bj. Gíslason, settur ferðamálastjóri, um nýtt neyðarnúmer sem sett hefur verið á vef Ferðamálastofu.

„Fjórum Íslandshótelunum var lokað í gærmorgun vegna verkfallanna, eða Hótel Reykjavík Saga, Hótel Reykjavík Grand, Fosshótel Rauðará og Fosshótel Lind. Síðan er fyrirhugað að loka tveimur Berjaya-hótelum á fimmtudag, Reykjavík Natura Hótel og Hilton Reykjavík Nordica. Næsta laugardag verður síðan Berajya-hótelinu Reykjavík Marina lokað,“ segir Elías.

„Það er takmarkað pláss á höfuðborgarsvæðinu og við höfum verið að kortleggja laus gistipláss á hótelum á Reykjanesi, Vesturlandi og Suðurlandi að Vík í Mýrdal. Stjórnendur þessara hótela hafa náð að liðsinna töluverðum fjölda en því miður þá er ekki hægt að ná í alla sem eiga bókað og því er ljósta að töluverður fjöldi gesta á eftir að koma að lokuðum dyrum, því miður. Ef mál leysast ekki um helgina eða í byrjun næstu viku förum við að lenda í verulega slæmum málum ef að verkfall skellur á hjá öllu starfsfólki Eflingar. Það segir sig sjálft að þeir gestir sem eru að koma til landsins eru búnir að bóka sig í alls kyns afþreyingu og ferðir. Þetta ástand riðlar allri keðjunni og hefur fljótt víðtæk áhrif á ferðaþjónustuna um allt land. Afbókanir, bæði einstaklinga og hópa erum þegar orðnar töluverðar og eiga bara eftir að aukast með miklum skaða fyrir alla.“