<strong>Ríkissjóður keypti í fyrra 93,2% hlut Landsvirkjunar, Rarik og Orkubús Vestfjarða á 63 milljarða.</strong>
Ríkissjóður keypti í fyrra 93,2% hlut Landsvirkjunar, Rarik og Orkubús Vestfjarða á 63 milljarða. — Ljósmynd/Landsnet
Enn standa yfir þreifingar á milli kröfuhafa ÍL-sjóðs og fulltrúa fjármálaráðherra um mögulegar útfærslur á því hvernig gera megi sjóðinn upp og draga um leið úr því tjóni sem blasir við skattgreiðendum vegna hans

Enn standa yfir þreifingar á milli kröfuhafa ÍL-sjóðs og fulltrúa fjármálaráðherra um mögulegar útfærslur á því hvernig gera megi sjóðinn upp og draga um leið úr því tjóni sem blasir við skattgreiðendum vegna hans. Bjarni Benediktsson, fjármála- og efnahagsráðherra, kynnti í lok október síðastliðins þrjár sviðsmyndir um það hvernig greiða mætti úr málum sjóðsins, sem eru eftirhreytur af gamla Íbúðalánasjóði. Metur ráðuneytið stöðuna þannig að tap af uppgjöri hans, sem standa mun til 2044 að óbreyttu, muni kosta ríkissjóð 1,5 milljarða króna á mánuði út líftíma hans. Miða aðgerðir ráðuneytisins að því að draga úr þessu tjóni og hefur ráðherra viðrað þá hugmynd að keyra sjóðinn í þrot til þess að draga úr því.

Raunar gekk hann svo langt þegar málið var kynnt opinberlega undir lok síðasta árs að hóta slitum sjóðsins nema ef kröfuhafar hans kæmu að samningaborðinu og féllust á að gera upp skuldir sjóðsins og forða ríkissjóði undan greiðslu verðbóta og vaxta næstu áratugina fram í tímann.

Á annan tug lífeyrissjóða, sem eru langstærstu eigendur skuldabréfa ÍL-sjóðs, hafa átt í viðræðum um með hvaða hætti þeir geti nálgast stjórnvöld við úrlausn málsins en mikill ágreiningur er í hópnum um það hvaða leið skuli farin. Heimildir ViðskiptaMoggans herma að sumir sjóðanna vilji láta reyna á samningaleiðina meðan aðrir telja að betur sé heima setið en af stað haldið. Sjóðirnir hafi í raun ekki heimild til þess að gefa eftir ýtrustu kröfur sem feli í sér fullar efndir ÍL-sjóðs á greiðslu bréfanna og eftir atvikum aðkomu ríkissjóðs sem ábyrgðaraðila skuldbindinganna.

Heimildir ViðskiptaMoggans herma að þeir sem vilji fara samningaleiðina telji vænlegt að ríkissjóður afhendi kröfuhöfum eignir í skiptum fyrir skuldabréfin sem þeir eiga á ÍL-sjóð. Málið vandist hins vegar þegar kemur að verðlagningu við þau skipti enda þurfi að taka tillit til ólíkrar áhættu að baki eignunum. Viðraðar hafa verið hugmyndir um að ríkissjóður geti afhent kröfuhöfunum hluti í viðskiptabönkunum tveimur sem ríkissjóður á verulega hluti í en þá hafa einnig verið nefndar hugmyndir um hlutabréf í Landsvirkjun og Landsneti. Heimildarmenn blaðsins segja ósennilegt að forsvarsmenn ríkisstjórnarinnar treystist til þess að tala fyrir afhendingu hlutabréfa í Landsvirkjun en að öðru máli kunni að gegna um Landsnet, innviðafyrirtæki á markaði á sviði raforkuflutnings. Ríkissjóður keypti fyrirtækið að fullu af orkufyrirtækjum á síðasta ári fyrir tugi milljarða en hugmyndir um aðkomu lífeyrissjóða að Landsneti eru ekki nýjar af nálinni. Þannig lýsti Steingrímur J. Sigfússon, þáverandi atvinnuvegaráðherra, þeirri skoðun í janúar 2012 að til greina kæmi að selja lífeyrissjóðum hluti í fyrirtækinu.