Djúpivogur Eldislaxi dælt úr skipi og inn í sláturhús Búlandstinds.
Djúpivogur Eldislaxi dælt úr skipi og inn í sláturhús Búlandstinds. — Morgunblaðið/Helgi Bjarnason
Höfnum verður veitt heimild til að innheimta sérstakt gjald af eldisfiski úr sjókvíum og seiðum sem umskipað er, lestað eða losað í höfnum, ef frumvarp innviðaráðherra verður að lögum. Eldisgjaldið skal standa undir kostnaði við byggingu og rekstur hafnarmannvirkja og almennum stjórnunarkostnaði

Höfnum verður veitt heimild til að innheimta sérstakt gjald af eldisfiski úr sjókvíum og seiðum sem umskipað er, lestað eða losað í höfnum, ef frumvarp innviðaráðherra verður að lögum. Eldisgjaldið skal standa undir kostnaði við byggingu og rekstur hafnarmannvirkja og almennum stjórnunarkostnaði.

Ákvæði um eldisgjaldið eru óbreytt frá fyrri frumvörpum um breytingar á hafnalögum. Það hefur verið liður í viðameiri breytingum á lögunum. Í nýju frumvarpi, sem birt hefur verið til kynningar í samráðsgátt stjórnvalda, er hins vegar formi frumvarpsins breytt. Ákvæði um eldisgjald og fleiri breytingar er haft í sérfrumvarpi en breytingar vegna EES-samningsins eru í öðru frumvarpi sem þegar hefur verið mælt fyrir á Alþingi.

Ágreiningur um aflagjald

Fiskeldisfyrirtæki eiga í viðskiptum við hafnir víða á landinu og nota ýmiss konar skip við starfsemi sína. Hluti umsvifanna fellur undir gjaldskrár sem settar hafa verið fyrir viðkomandi hafnir en umdeilt hefur verið hvort annar hluti þeirra fellur þar undir. Það á sérstaklega við um flutning eldisfisks um hafnir, svo sem þegar eldislax er fluttur til slátrunar og seiði flutt um höfn út í kvíar. Sumar hafnir hafa byggt gjaldtöku á ákvæði um aflagjald og hefur komið upp ágreiningur um þá innheimtu vegna þess að eldisfiskur er ekki afli eins og það orð hefur verið notað. Að mati innviðaráðuneytisins þarf að leysa úr þessari réttaróvissu.

Í umsögnum um fyrri frumvarpsdrög hafa komið fram tillögur frá sveitarfélögum um að kveðið verði á um viðmiðanir um gjaldtöku. Það er ekki gert í frumvarpsdrögunum, aðeins tekið fram undir hvaða þjónustu gjaldið eigi að standa og samkvæmt því ber sveitarfélögum að ákvarða gjaldskrár fyrir hafnir sínar. Segir í skýringum við frumvarpið að eðlilegt sé að miða við magn þess fisks sem fer um höfn, það er að segja krónur á hvert kílógramm eða tonn. helgi@mbl.is