Leður-línan frá Memo ætti að höfða til þeirra sem vilja kröftuga og karlmannlega ilmi.
Leður-línan frá Memo ætti að höfða til þeirra sem vilja kröftuga og karlmannlega ilmi. — Morgunblaðið/Ásgeir Ingvarsson
Sagan segir að hjónin John og Clara Molloy hafi kynnst þegar örlögin höguðu því þannig að þau deildu skíðalyftu á leið upp eitthvert fallegt fjallið. Þau ákváðu að bruna niður brekkur lífsins í sameiningu og hafa notað árin til að ferðast um…

Hið ljúfa líf

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Sagan segir að hjónin John og Clara Molloy hafi kynnst þegar örlögin höguðu því þannig að þau deildu skíðalyftu á leið upp eitthvert fallegt fjallið. Þau ákváðu að bruna niður brekkur lífsins í sameiningu og hafa notað árin til að ferðast um heiminn, lenda í ævintýrum og setja á laggirnar eitt af betri ilmhúsum Parísar.

Memo Paris var stofnað árið 2007 og státar í dag af breiðu úrvali ilma í hæsta gæðaflokki. Endurspegla ilmirnir hve miklir heimshornaflakkarar John og Clara eru og sækja þau innblástur til hrífandi áfangastaða nær og fjær, í samvinnu við öflugt teymi ilmhönnuða.

Þannig má finna í hillum Memo ilmi tileinkaða Granda, Argentínu, Luxor, Corfú og Kotor svo nokkur dæmi séu nefnd. Nýjasta viðbótin er kennd við Skírisskóg og ætti að hitta í mark hjá þeim sem hrífast af grænum og frískandi viðartónum.

Ilmsérfræðingi ViðskiptaMoggans
þykir hins vegar leðurlínan frá Memo bera af, en þar eru á ferð ilmir sem eru hnausþykkir, ólgandi og sterkir en þó hver með greinilegan persónuleika. Eiga leðurríku ilmirnir að vísa til farangurs ferðalanga fyrr á tímum, áður en plast- og áltöskurnar tóku við, og til ólíkra heimshluta. Má finna leðurilmi tileinkaða t.d. Rússlandi, Afríku, Sikiley, Marokkó og sjálfu hafinu, en óhætt er að mæla alveg sérstaklega með ilminum sem kenndur er við Íberíuskagann, Iberian Leather.

Í fanginu á Bardem

Í fyrstu koma fram sterkir tónar af leðri, tóbaksreyk og jafnvel vottur af lakkrís en ilmurinn róast tiltölulega fljótt og byrjar að hleypa í gegn vægum lilju-, rósar- og jasmíntónum, olíugrasi (þ.e. vetiver), eik, kryddum, vanillu og saffrani í bland við ótal aðrar jurtir. Útkoman er afskaplega karlmannleg og seiðandi og upplifunin er eins og að fá innilegt faðmlag hjá Javier Bardem. Að því sögðu gæti Iberian Leather alveg átt heima í ilmsafni kvenna sem eru harðir rokkarar inn við beinið og eftir fyrsta hálftímann eða svo hefur mesti grófleikinn vikið fyrir blíðari angan.

Ilmina frá Memo má finna víða um heim, s.s. í verslunum Harvey Nichols í Lundúnum og hjá Neiman Marcus hér og þar um Bandaríkin. Þá rekur Memo litla og snotra búð í Rue Cambon, rétt hjá Place Vendome í miðborg Parísar, og upplagt að líta þar inn í næstu menningar- og verslunarferð.

Iberian Leather fæst aðeins í 75 ml stærð og kostar flaskan 230 evrur í vefverslun Memo.