Álframleiðsla með kolum losar tífalt meira en ef notuð er endurnýjanleg orka.

Umhverfismál

Pétur Blöndal

framkvæmdastjóri Samáls

Umræðunni um orkuskipti er snúið á haus þegar talað er um að ráðast í orkuskipti með því að hafna orkusæknum iðnaði hér á landi. Eins og alþjóð veit er loftslagsvandinn hnattrænn en ekki staðbundinn. Við blasir að til þess að takast á við loftslagsvandann á heimsvísu er höfuðatriði að orkusækinn iðnaður, sem selur afurðir sínar á heimsmarkaði, staðsetji sig nálægt endurnýjanlegum orkuauðulindum. Það væri stórt skref aftur á bak að ráðast í orkuskipti með því að slíta þá keðju.

Raunar höfum við dæmið fyrir framan nefið á okkur, því orkukrísan í Evrópu hefur orðið til þess að álframleiðsla á meginlandinu hefur dregist saman um yfir 40%. Það varð til þess að innflutningur áls til Evrópu frá Indlandi þrefaldaðist, en þar er orkan að uppistöðu til fengin úr kolum, og mikil aukning varð á álinnflutningi frá Mið-Austurlöndum, þar sem orkan er að mestu sótt í gas. Álframleiðsla með kolum losar tífalt meira en ef notuð er endurnýjanleg orka og losunin er sexfalt meiri ef gas er notað til framleiðslunnar. Kolefnissporið stækkar við það.

Jafnvel þó að ekki sé horft til uppruna orkunnar, heldur einungis litið til losunar frá álframleiðslunni sjálfri, þá losar álframleiðsla hvergi minna á heimsvísu en á Íslandi. Til að ná þeim árangri hefur miklu verið kostað til, en með endurnýtingu flúors og agaðri kerrekstri hefur tekist að draga úr losun álframleiðslu hér á landi um 75% á hvert framleitt tonn frá árinu 1990. Þar hafa íslensk álver raunar verið í fararbroddi á heimsvísu. Álframleiðsla losar hvergi minna en á Íslandi og keppum við þar við ekki minni spámenn en Noreg og Kanada, sem einnig nýta endurnýjanlega orku til álframleiðslu.

Umræðan er einnig öfugsnúin þegar kemur að afkomu orkufyrirtækjanna. En stundum er gefið í skyn að lítið sem ekkert fáist fyrir raforku til stóriðju. Á sama tíma berast þær ánægjulegu fréttir af þjóðarfyrirtækinu Landsvirkjun, að aldrei í 58 ára sögu fyrirtækisins hafi það skilað betri afkomu. Fram kemur í máli Harðar Arnarsonar forstjóra Landsvirkjunar að raforkuverð til stóriðju sé sambærilegt við það sem gengur og gerist í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við. Einnig að meðalverð til stórnotenda án flutnings hafi aldrei verið hærra eða tæpir 43 bandaríkjadalir á megavattstund. Hagnaður fyrir óinnleysta fjármagnsliði, sem er sá mælikvarði sem miðað er við þegar afkoma fyrirtækisins er skoðuð, var 44,9 milljarðar kóna og var lögð fram tillaga um 20 milljarða arðgreiðslu.

Ekkert er sjálfgefið við þennan rekstrarárangur. Rifja má upp að Landsvirkjun skilaði tapi þegar ekki fannst stór kaupandi að orkunni úr Blönduvirkjun á tíunda áratugnum og komst ekki jafnvægi á reksturinn fyrr en með stækkun álversins í Straumsvík. Það hefur skipt sköpum fyrir uppbyggingu íslenskra orkufyrirtækja að eiga öflug alþjóðleg fyrirtæki að viðskiptavinum. Svo vitnað sé til orða forstjóra Landsvirkjunar, þá er óhætt að segja að velgengni stórnotenda og Landsvirkjunar „haldist að miklu leyti í hendur“.

Raunar er eftirtektarvert að jafnvel þegar öll álverin skiluðu rauðum tölum fyrir fáeinum árum út af lágu heimsmarkaðsverði á áli, þá skilaði Landsvirkjun góðri afkomu. Saman hafa orkufyrirtækin og orkusækinn iðnaður staðið af sér hverja kreppuna af annarri. Á þessari öld höfum við upplifað netbóluna springa, bankakerfið hrynja og ferðamannaiðnaðinn nánast þurrkast út – og þá hefur orkugeirinn og orkusækinn iðnaður skapað grunn til að byggja á. Stoðum fjölgar í efnahagslífinu og það dregur úr hagsveiflum.

Í þeim öfluga klasa sem myndast hefur í kringum álverin eru raunar ekki bara orkufyrirtæki, heldur hundruð innlendra fyrirtækja. Sá klasi á enn eftir að vaxa og dafna, enda er áliðnaður ungur að árum hér á landi. Í fyrra réðst Norðurál í fjárfestingu upp á 17 milljarða í nýjum steypuskála og fyrir tíu árum lauk Isal við 70 milljarða fjárfestingu í álverinu í Straumsvík. Öll hafa álverin fjárfest í áframvinnslu með virðismeiri afurðum. Það blasir við, að með þessum fjárfestingum er horft til langs tíma. Og það eru góð tíðindi í glímunni við loftslagsvandann.