Göngin Bregðast þarf skjótt við ef þar koma upp alvarleg tilfelli.
Göngin Bregðast þarf skjótt við ef þar koma upp alvarleg tilfelli. — Morgunblaðið/Eggert
Vegagerðin hefur ákveðið að hafna þeim tveimur tilboðum sem bárust í rekstur og þjónustu í Hvalfjarðargöngum árin 2023-2025. Tilboðin reyndust langt yfir kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar. Fyrirtækið sem þjónustar göngin í dag er Meitill – GT tækni á Akranesi

Vegagerðin hefur ákveðið að hafna þeim tveimur tilboðum sem bárust í rekstur og þjónustu í Hvalfjarðargöngum árin 2023-2025. Tilboðin reyndust langt yfir kostnaðaráætlun Vegagerðarinnar.

Fyrirtækið sem þjónustar göngin í dag er Meitill – GT tækni á Akranesi. Samningurinn er í gildi fram á mitt sumar og því verða göngin þjónustuð eins og áður fram að þeim tíma.

„Nú verður unnið að því að skerpa útboðsgögnin. Stefnt er að því að bjóða verkefnið út aftur í lok mars,“ segir í skriflegu svari frá Sólveigu Gísladóttur upplýsingafulltrúa hjá Vegagerðinni.

Tilboð voru opnuð hjá Vegagerðinni 17. janúar síðastliðinn. Rafal ehf. í Hafnarfirði bauð krónur 453.260.749 og Meitill – GT tækni ehf. á Akranesi krónur 459.391.342. Áætlaður verktakakostnaður var krónur 247.770.200 eða 205,4 milljónum króna lægri en lægra tilboðið.

Í aðalatriðum felst verkið í útkallsþjónustu, þ.e. að bregðast við útköllum vegna bilana eða atvika sem verða í göngunum og bregðast þarf strax við. Svo og umferðarstjórnun þegar göngunum er lokað eða umferð takmörkuð í gegnum þau, t.d. vegna úttekta og/eða viðhalds. Einnig að sinna reglubundnu eftirliti og ástandsgreiningum og sjá um viðhaldsvinnu á búnaði. Vegagerðin tók við rekstri ganganna árið 2018. sisi@mbl.is