Hvalskurður Starfsmenn Hvals hf. að störfum í sumar. Þeim var gefið að sök að hafa tekið dróna Svisslendinga traustataki en rannsókn var hætt.
Hvalskurður Starfsmenn Hvals hf. að störfum í sumar. Þeim var gefið að sök að hafa tekið dróna Svisslendinga traustataki en rannsókn var hætt. — Morgunblaðið/Eggert
Rannsókn rannsóknardeildar lögreglunnar á Vesturlandi í máli svissnesku fjölmiðlamannanna og Hvals ehf. er hætt. Þetta staðfestir lögreglan á Vesturlandi í skriflegu svari við fyrirspurn Morgunblaðsins um málið

Rannsókn rannsóknardeildar lögreglunnar á Vesturlandi í máli svissnesku fjölmiðlamannanna og Hvals ehf. er hætt. Þetta staðfestir lögreglan á Vesturlandi í skriflegu svari við fyrirspurn Morgunblaðsins um málið.

Málavextir voru þeir að í ágúst tóku starfsmenn Hvals dróna svissneskra fjölmiðlamanna traustataki, en að sögn Hvals höfðu fjölmiðlamennirnir flogið honum í um 20 metra hæð á athafnasvæði fyrirtækisins.

Starfsmenn Hvals lögðu því hald á drónann og neituðu að skila honum til áðurnefndra fjölmiðlamanna. Það var ekki fyrr en lögreglan hótaði húsleit sem Hvalur lét undan og afhenti drónann til baka.

Í skriflegu svari lögreglunnar segir að tvennt hafi verið til rannsóknar í nefndu máli. Annars vegar gripdeild en rannsókn var hætt eftir að drónanum var skilað. Hins vegar var til skoðunar mögulegt brot á loftferðalögum en ekki var sannað að loftferðalög hefðu verið brotin þannig að rannsókn var einnig hætt hvað það varðar.