Hörður Ægisson, ritstjóri Innherja, og Hermann Guðmundsson, framkvæmdastjóri Kemi og Paulsen, eru mættir í Dagmálasettið.
Hörður Ægisson, ritstjóri Innherja, og Hermann Guðmundsson, framkvæmdastjóri Kemi og Paulsen, eru mættir í Dagmálasettið.
„Ég held að þetta sé mjög dýrt og í litla fyrirtækinu mínu þá eru þetta hækkanir upp á 40 milljónir á ári og við þurfum að finna tekjur til að mæta því [...] sérstaklega ef þú ert að horfa á fyrirtæki með 500 milljónir í veltu og minna að…

„Ég held að þetta sé mjög dýrt og í litla fyrirtækinu mínu þá eru þetta hækkanir upp á 40 milljónir á ári og við þurfum að finna tekjur til að mæta því [...] sérstaklega ef þú ert að horfa á fyrirtæki með 500 milljónir í veltu og minna að þetta verður gríðarlega þungur baggi og það mun tapast fullt af störfum út af þessum hækkunum.“

Þessum orðum fer Hermann Guðmundsson, framkvæmdastjóri Kemi og Paulsen, um áhrif nýgerðra kjarasamninga á almennum vinnumarkaði á lítil og meðalstór fyrirtæki í landinu. Hjá fyrirtæki hans starfa um 50 manns. Hermann er gestur Dagmála ásamt Herði Ægissyni, ritstjóra Innherja, en í viðtalinu ræða þeir þá grafalvarlegu stöðu sem komin er upp á almennum vinnumarkaði í kjölfar verkfallsboðana Eflingar og atkvæðagreiðslu á vettvangi SA um allsherjarverkbann á félagsmenn Eflingar.

Hermann segir augljóst að nú kreppi hressilega að í hagkerfinu og að þá leggi veikustu fyrirtækin upp laupana og þau sem eftir standa finni leiðir til hagræðingar, m.a. með aukinni sjálfvirknivæðingu. Hörður segir allt stefna í að mjög muni harðna á dalnum á komandi vikum og mánuðum. Fátt bendi til þess að verðbólgan sé á niðurleið þótt margir vilji tala þannig. „Það sem við erum búin að vera að horfa upp á er bara gamaldags íslensk ofþensla,“ og útskýrir að nú hafi verðbólguhorfur versnað til muna. Það sjáist ekki síst á skuldabréfamarkaði þar sem á síðustu tveimur vikum hafi krafan á ríkisskuldabréfum hafi hækkað mikið á óverðtryggðum bréfum og lækkað á verðtryggðum.

„Þetta er mælikvarðinn sem Seðlabankinn mun horfa til við næstu vaxtaákvörðun í marsmánuði og þetta er lykilmælikvarði á kjölfestu verðbólguvæntinga. Maður saknar þess í umræðunni núna að það sé ekki horft á þetta í breiðu samhengi, ekki bara hvort laun fólks séu hækkuð um 10%, 12% eða 15% heldur hvaða áhrif það hefur í framhaldinu á þessa hluti sem skipta fólk ekki síður máli.“

Hermann segir einsýnt að ríkisvaldið verði að grípa inn í deilu Eflingar og SA. Þannig þurfi yfirvöld að hlusta á viðsemjendurna og leita leiða til þess að koma á friði á vinnumarkaði. Þar þurfi allt að vera uppi á borðum, m.a. róttækar tillögur að breytingum á skattkerfinu. „Ef þú leikur þér með þá hugmynd að fólk undir einhverjum viðmiðunarmörkum sé hreinlega skattfrjálst, að við breytum reglunum um persónuafslátt þannig að þeir sem eru kannski með meira en 1,5 milljónir á mánuði missi sinn persónuafslátt að fullu og hann gangi til þeirra sem lægri laun hafa. Einhverjar svona skapandi tillögur og lausnir er mikilvægt að fá fram [...] það verður að finna botn í vandann sem er sá að við erum með stóra hópa af fólki illa launaða sem þurfa að bæta sína stöðu í sífellt versnandi kjörum og hærri verðbólgu og hærri vöxtum,“ segir Hermann.