Vafalaust er að þorri rússnesku þjóðarinnar kaupir rök forseta síns

Joe Biden, forseti Bandaríkjanna, er í heimsókn í Póllandi, nú þegar rétt ár er frá upphafi innrásar Rússa í Úkraínu. Biden þótti flytja sterka ræðu þar, en hann hafði áður óvænt sótt Kænugarð heim og talað þaðan við Úkraínuþjóð, sem vafalítið hefur haft mikla þýðingu fyrir þjóð sem búið hefur svo lengi við hörmungar og nístandi óvissu.

Pútín, forseti Rússlands, heldur sig þó við annan veruleika en birtist Vesturlöndum daglega. Þar sé ekki um innrás Rússa að ræða heldur „sérstaka hernaðaraðgerð“ og óhjákvæmileg viðbrögð. Í ræðu sem Pútín flutti með hliðsjón af þessum atburðum gekk hann lengra en áður. Hann útlistaði fyrir fjölmennum fundi og í útsendingu til rússnesku þjóðarinnar að Vesturlönd bæru alla ábyrgð á því hvernig þessi mál hefðu þróast og upphafið hefði einnig verið þeirra og viðbrögð Rússlands hefðu því verið óhjákvæmileg. Þau hefðu ekki staðið við Minsk-samkomulagið frá 5. september 2014 og þau hefðu leynt og ljóst undirbúið að fella Úkraínu inn í hernaðarbandalag sitt Nató, með þeim ögrunum sem öllum má vera ljóst að hefðu falist í þeirri ráðagerð og hættum fyrir öryggi Rússlands.

Hernaðarsérfræðingar beggja vegna Atlantshafs telja víst að Rússar hafi að undanförnu undirbúið víðtækar árásir með öflugu óþreyttu liði, en upp á síðkastið hefur her þeirra látið sér nægja staðbundnar aðgerðir sem miða að því að endurheimta á ný svæði sem Úkraínumenn höfðu náð á sitt vald á ný, og hefur Rússum miðað þar nokkuð. En það segja nefndir sérfræðingar að sé aðeins fyrirboði. En Rússum liggur á, því að undanfarnar vikur hafa nokkur vestræn ríki boðað komu öflugra skriðdreka, sem Selenskí forseti hefur lengi kallað eftir. Flest bendir til að skriðdrekarnir þeir verði eitthvað færri en forsetinn taldi sig hafa náð að knýja fram.