Eldur Húsnæði áfangaheimilisins skemmdist mikið í bruna á föstudag.
Eldur Húsnæði áfangaheimilisins skemmdist mikið í bruna á föstudag. — Morgunblaðið/Eggert
Eldvarnir voru með öllu ófullnægjandi í húsnæði áfangaheimilsins Betra líf við Vatnagarða í Reykjavík þar sem eldur kom upp á föstudag í síðustu viku, 17. febrúar. Þetta er mat Slökkviliðs höfuðborgarsvæðsins en á þess vegum var gerð úttekt á húsnæðinu fáum dögum áður en eldurinn þar kom upp

Eldvarnir voru með öllu ófullnægjandi í húsnæði áfangaheimilsins Betra líf við Vatnagarða í Reykjavík þar sem eldur kom upp á föstudag í síðustu viku, 17. febrúar. Þetta er mat Slökkviliðs höfuðborgarsvæðsins en á þess vegum var gerð úttekt á húsnæðinu fáum dögum áður en eldurinn þar kom upp. Notkun húsnæðisins sem heimilis fyrir fólk í fíknivanda, á flótta og í öðrum slæmum aðstæðum var að sögn slökkviliðs „sérlega hættuleg.“

Margvíslegt ónæði og vandi þótti stafa af starfsemi í húsnæðinu við Vatnagarða þar sem alls 27 manns bjuggu. Kvartað hafði verið yfir ástandi mála og oft var lögregla kölluð til vegna þjófnaða og spellvirkja sem leigjendur í húsnæði Betra lífs unnu. Eigendur hússins hafa nú fengið áminningu vegna þeirra vanhalda sem að framan er lýst og eru þær sagðar vera alvarlegt brot, til að mynda á lögum um brunavarnir og á gildandi byggingarreglugerð.

Aldís Rún Lárusdóttir, sem stýrir forvarnasviði Slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við mbl.is að umsjónarfólk húsnæðisins hafi ekki samkvæmt sinni vitneskju haft samband við slökkviliðið til þess að ræða enduropnun þess og áfangaheimilisins. Þá hefur komið fram að samþykki byggingarfulltrúa þarf að liggja fyrir áður en húsnæðið verður aftur tekið í notkun, þá eftir endurbætur á því sem skemmdist í eldsvoðanum.