Gaskerfi Metangasið verður flutt til Sviss og sett þar inn á orkukerfið.
Gaskerfi Metangasið verður flutt til Sviss og sett þar inn á orkukerfið. — AFP/Yves Herman
Svissneska fyrirtækið sem undirbýr byggingu verksmiðju á Reykjanesi til að framleiða metangas til notkunar í orkukerfinu í Sviss þarf að gera grein fyrir þeim hættum sem stafað geta af starfseminni, einkum vegna framleiðslu á eldfimum gastegundum

Helgi Bjarnason

helgi@mbl.is

Svissneska fyrirtækið sem undirbýr byggingu verksmiðju á Reykjanesi til að framleiða metangas til notkunar í orkukerfinu í Sviss þarf að gera grein fyrir þeim hættum sem stafað geta af starfseminni, einkum vegna framleiðslu á eldfimum gastegundum. Gera þarf grein fyrir eldvörnum, ráðstöfunum vegna stórslysa og flutnings á afurðum. Í umhverfismatsskýrslu þarf einnig að gera grein fyrir næmni starfseminnar fyrir hættu á náttúruhamförum vegna staðsetningar hennar.

Gasið flutt til Sviss

Kemur þetta fram í áliti Skipulagsstofnunar á matsáætlun Swiss Green Gas International (SGGI) fyrir verksmiðjuna og kröfum um innihald umhverfismatsskýrslu umfram það sem gert var ráð fyrir í matsáætlun fyrirtækisins vegna verkefnisins.

Verksmiðjan á að rísa við Reykjanesvirkjun. Framleitt verður vetni með rafgreiningu og á að nota vetnið ásamt koldíoxíði frá jarðvarmavirkjunum HS Orku í Svartsengi og á Reykjanesi til að framleiða metangas. Leggja þarf leiðslu frá Svartsengi að verksmiðjunni.

Verksmiðjan mun nýta rafmagn, vatn og gas frá HS Orku en áætluð orkuþörf hennar er um 55 MW. Því hefur ekki verið svarað hvaðan sú orka á að koma. Metangasið verður flutt í fljótandi formi með skipum til Rotterdam og þaðan eftir ám til Sviss þar sem það verður notað í orkukerfinu.

Gasleiðslan tekin með

Í áliti sínu gerir Skipulagsstofnun nokkrar athugasemdir við fyrirhugað umhverfismat, auk þess sem segir hér á undan um stórslysahættu. Lagt er fyrir fyrirtækið að gera grein fyrir orkunotkun, aðfengnum hráefnum og hvernig þau verða að afurðum og úrgangi.

Þótt fyrirhuguð gaslögn frá Reykjanesvirkjun verði á vegum HS Orku hvetur Skipulagsstofnun til þess að svissneska fyrirtækið taki hana inn í umhverfismatið. Gera þarf grein fyrir því hvernig magn og efnasamsetning útblásturs breytist með tilkomu starfseminnar, bæði í Svartsengi og við Reykjanesvirkjun.

Losun vegna flutninga metin

Í matsáætlun kemur fram að helsta markmið framkvæmdarinnar sé að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda, helst koldíoxíði, með framleiðslu á metangasi úr vetni sem framleitt verði með grænni raforku í stað jarðefnaeldsneytis.

Skipulagsstofnun telur eðlilegt í þessu ljósi að leggja mat á þann heildarábata sem hlýst af starfseminni, meðal annars við að koma afurðum á leiðarenda, en fyrirtækið hafði ekki ráðgert að meta losun vegna flutninga. En ljóst sé að slíkt verði ekki gert af mikilli nákvæmni þegar um upphaf nýrrar starfsemi er að ræða. Það sé því augljóslega talsverð óvissa um framsetningu slíkra gagna.

Höf.: Helgi Bjarnason