Borgarmál Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks.
Borgarmál Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokks. — Morgunblaðið/Eggert
Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks um að endurskoðunarákvæði samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins verði virkjað var felld í borgarstjórn í gær með atkvæðum borgarfulltrúa meirihlutans og Vinstri grænna með hjásetu borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins

Ólafur Pálsson

oap@mbl.is

Tillaga borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokks um að endurskoðunarákvæði samgöngusáttmála höfuðborgarsvæðisins verði virkjað var felld í borgarstjórn í gær með atkvæðum borgarfulltrúa meirihlutans og Vinstri grænna með hjásetu borgarfulltrúa Sósíalistaflokksins.

„Meirihlutinn í borgarstjórn Reykjavíkur er búinn að einangra sig frá öðrum bæjarfélögum með því að fella tillögu okkar, þar sem bæjarstjórar annarra sveitarfélaga hafa lýst áhyggjum sínum af þessum samgöngusáttmála og þessum vanefndum og vanáætlunum,“ segir Marta Guðjónsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

„Ég tel að málinu sé ekki lokið. Ég tel það nóg að eitt sveitarfélag óski eftir þessari endurskoðun og í ljósi þess að formaður samgöngunefndar Alþingis hefur sýnt vilja til að endurskoða málið og að fjármálaráðherra hefur sagt í ræðu að hann telji ástæðu til að fara yfir þessi mál, þá er auðséð að það þarf að gera.“

Engri þeirra framkvæmda sem átti að flýta hefur verið lokið tæpum fjórum árum eftir undirritun sáttmálans. Framkvæmda- og fjárstreymisáætlun hefur ekki staðist og hvorki hefur rekstraráætlun verið lögð fram né skýrar rekstrarforsendur fyrir borgarlínu. Þá ríkir gríðarleg óvissa um fjármögnun sáttmálans, eins og segir í tillögu sjálfstæðismanna.

Marta segir dapurlegt til þess að vita að borgarstjórnarmeirihlutinn í Reykjavík skuli einangra sig frá öðrum bæjarfélögum á höfuðborgarsvæðinu með þessum hætti. „Sjálfstæðisflokkurinn hafnar auknum gjöldum sem leiða til skattahækkana á íbúa Reykjavíkur,“ segir Marta.