Bergþór Ólason
Bergþór Ólason
Dönum varð ljóst fyrir nokkrum árum að staðan í málefnum hælisleitenda væri orðin stjórnlaus. Og hvað gerðu Danir? Jú, þeir brugðust við undir forystu krata, sem þá höfðu yfirtekið stefnu Danska þjóðarflokksins í málefnum útlendinga

Dönum varð ljóst fyrir nokkrum árum að staðan í málefnum hælisleitenda væri orðin stjórnlaus. Og hvað gerðu Danir? Jú, þeir brugðust við undir forystu krata, sem þá höfðu yfirtekið stefnu Danska þjóðarflokksins í málefnum útlendinga.

Til upprifjunar var Pia Kjærsgaard um tíma formaður Danska þjóðarflokksins og þótti ýmsum hið versta mál þegar hún var heiðursgestur á Þingvöllum, í boði Alþingis, vegna aldarafmælis fullveldisins. Það er auðvitað svolítil kaldhæðni í því fólgin að danskir kratar hafi tekið upp stefnu Danska þjóðarflokksins, jafn mikið og sú stefna og sá flokkur var fyrirlitinn um stund.

Nú liggja fyrir nýjar tölur á upplýsingavef verndarmála um fjölda umsókna um alþjóðlega vernd á Norðurlöndum fyrir hverja 10 þúsund íbúa (samanburðarhæfar tölur). Þegar bornar eru saman tölur fyrir fyrstu 10 mánuði ársins 2022 kemur ótrúleg þróun í ljós þegar flóttafólk frá Úkraínu er ekki talið með.

Fjöldi umsókna fyrir hverja 10 þúsund íbúa er hæstur á Íslandi, langhæstur. 41 umsókn barst hingað til lands fyrir hverja 10 þúsund íbúa. Sambærileg tala fyrir Danmörku er 2! Munurinn er rúmlega tvítugfaldur! Á milli Íslands og Danmerkur liggja svo hin Norðurlöndin. Svíþjóð með 14 umsóknir, Finnland með átta og Noregur með sex. Ísland í öllu tilliti með hlutfallslega langmesta fjöldann.

Hvers vegna skyldi þróunin vera þessi? Séríslenskir seglar hafa sín áhrif. Og svo eru það auðvitað skilaboðin sem stjórnvöld senda frá sér.

Dönsk stjórnvöld hafa einsett sér að enginn komi til Danmerkur til að sækja um alþjóðlega vernd, heldur sæki fólk í neyð um danska vernd á nærsvæðum sínum og dönsk stjórnvöld velji úr þann hóp sem þau telja sig ráða við að taka á móti. Í því felst engin mannvonska, heldur þvert á móti felst í því mildi að hlífa fólki við löngu og erfiðu ferðalagi, upp á von og óvon. Oft undir handarjaðri glæpagengja sem hafa gert sér neyð þess að féþúfu.

Annað sem nauðsynlegt er að ræða er að þeir fjármunir sem varið er til málaflokksins hér á Íslandi gætu gert mun meira gagn fyrir fleiri á nærsvæðum þess fólks sem finnur sig á flótta, mun meira gagn en hér heima, í einu dýrasta landi í heimi.

Fjöldi þeirra sem hingað sækja alþjóðlega vernd og eru með ríkisfang í Venesúela er síðan kapítuli út af fyrir sig. Sé horft til síðustu þriggja mánaða sóttu fleiri frá Venesúela um vernd á Íslandi en hingað leituðu frá Úkraínu. Í öðru landinu er stríð, þar sem hús og híbýli eru sprengd í loft upp, í hinu landinu er vinstristjórn. Blasir ekki við að einhvers staðar höfum við misstigið okkur? Litla-útlendingamálið leysir í öllu falli ekki þann vanda sem við blasir. Regluverk útlendingamála þarfnast heildarendurskoðunar. Sú vinna þarf að hefjast strax.

Höfundur er þingflokksformaður Miðflokksins. bergthorola@althingi.is

Höf.: Bergþór Ólason