Kolbrún Guðríður Haraldsdóttir fæddist 29. október 1983 í Reykjavík. Hún lést 26. janúar 2023.

Foreldrar hennar eru Haraldur Guðbjartsson, f. 1949, og Jónína María Sveinbjarnardóttir, f. 1952. Systkini Kolbrúnar eru Guðbjartur, f. 1972, maki: Megan Bryden, börn: Finn Markus, Ari Thomas og Eric Scott. Róbert Þór, f. 1975, maki: Jade Miller, börn: Sóldís Lóa og Kolfinna Eyrós. Birnir Kjartan, f. 1975, Örvar Snær, f. 1976, maki: Díana Dröfn Heiðarsdóttir, barn: Guðrún Birna. Sveinbjörn Kári, f. 1980, maki: Lísa Rún Guðlaugsdóttir, börn: Sara Eygló, Davíð Þór og Alexíus Bjartur. Sigurborg Ósk, f. 1984, maki: Björn Hákon Sveinsson, börn: Sveinn Jörundur, Freyr Völundur og Jöklar Blær.

Kolbrún giftist Jens Obendorfer, f. 9. september 1976, þann 10. október 2009. Barn þeirra er Hákon, f. 11. júlí 2011.

Kolbrún ólst upp á Kjalarnesi og gekk í Klébergsskóla. Þaðan lá leiðin í Kvennaskólann í Reykjavík með viðkomu sem skiptinemi í Þýskalandi veturinn 2000-2001. Kolbrún lauk stúdentsprófi vorið 2004 og hóf nám í Kennaraháskóla Íslands sama ár. Að námi loknu starfaði Kolbrún sem kennari í Víkurskóla. Árið 2008 hóf Kolbrún störf sem deildarstjóri í leikskólanum Fífuborg í Grafarvogi fram til ársins 2021, að hún færði sig yfir á leikskólann Kór í Kópavogi, þar sem hún starfaði sem aðstoðarleikskólastjóri. Umhverfisvernd og velferð allra barna voru Kolbrúnu mikið hjartans mál. Hún hafði ætíð hagsmuni barna að leiðarljósi í leik og starfi. Einnig sat hún í stjórn fyrir Plastlausan september á árunum 2019-2022.

Útför Kolbrúnar fer fram frá Grafarvogskirkju í dag, 22. febrúar 2023, klukkan 15.

Elsku Kolla. Ég trúi ekki að ég sé að skrifa minningargrein um þig. Tilfinningin er svo óraunveruleg. Það er eins og heimurinn sé allur á hvolfi. Mér líður eins og þú sért ennþá lifandi, það sé bara heimurinn sem er í rugli og heldur því fram að þú sért dáin. En svo þyrmir yfir mig og ég finn það með hverri frumu í líkamanum að þú ert ekki lengur hér. Á augnablikinu þegar Björn Hákon leit í augun á mér og sagði mér að þú værir dáin voru mín viðbrögð að afneita því. Nei, nei og aftur nei. Systir mín er ekki dáin. Það má ekki. Ég var viss um að því hærra sem ég öskraði því meiri líkur væru á að ég gæti breytt því, að ég gæti snúið tímanum til baka og bjargað lífi þínu. Ef þú hefðir spurt hefði ég tekið allan þinn sársauka elsku systir. Ég hefði gert allt fyrir þig.

Stundum líður mér eins og ég sé stödd á flæðiskeri í óendanlegu myrkri með ekkert nema nístandi sektarkennd. En stundum líður mér betur og það brjótast fram stórkostlegar minningar um systur sem var alltaf til staðar. Systur sem ég fékk ráð hjá varðandi líðan barnanna minna og systur sem studdi mig eins og klettur.

Ég gleymi aldrei þegar þú stóðst ein aftan við Klébergsskóla og öskraðir „áfram Sigurborg“ í gríð og erg. Ég var að taka þátt í víðavangshlaupi og þegar ég sá þig og heyrði í þér fékk ég einhvern óútskýrðan aukakraft þannig að ég tók fram úr nánast öllum og endaði á að fá silfurverðlaun. Þetta var í fyrsta og eina skiptið sem ég hef unnið eitthvað íþróttatengt. Þökk sé þér.

Þú varst líka best í að segja sögur og hlæja að sjálfri þér. Líkt og þegar þú varst að versla í brjáluðum vindi í Spönginni í Grafarvogi. Kjóllinn þinn fauk upp, hárið fauk í andlitið og svo þegar þú settist inn í bílinn hafðir þú skellt hurðinni á hárið á sjálfri þér, varst með kjólinn uppi á maga og veskið einhvers staðar úti á götu. Það var svo gott að hlæja með þér.

En elsku Kolla. Ég veit ekki hvernig ég á að halda áfram með lífið án þín. Ég veit ekki hvað ég á að gera þegar tárin hætta ekki að renna. Ég veit ekki hvernig ég á að halda áfram án þess að hafa þig til að gæta mín og leiðbeina mér.

Ég veit að þú ert núna skær stjarna á himni minninganna og kannski geturðu leiðbeint mér þaðan. Kannski get ég látið allar þær dásamlegu minningar sem ég á um þig hjálpa mér áfram. Elsku systir, ég vona að þú vitir hvað mér þótti vænt um þig, hvað þú varst mér mikil fyrirmynd og hvað þú fylltir líf mitt af mikilli gleði. Ég hef ekki hlegið jafn mikið og innilega með neinni manneskju eins og ég hló með þér.

Ég elska þig til stjarnanna.

Þín litla siss,

Sigurborg Ósk.

Kolla var einlægur málsvari náttúrunnar og ein meginstoð Plastlauss september. Í fimm ár starfaði hún af einstakri ósérhlífni með samtökunum, eða frá 2018 fram á síðasta dag. Allan þann tíma var Kolla virk í framkvæmdahópnum, og sat einnig í stjórn og sem formaður átaksins hluta tímans. Hún tileinkaði sér plastlausan og umhverfisvænan lífsstíl og varði ómældum tíma og vinnu í að vekja athygli á því sem betur má fara í samfélagi okkar í þeim efnum.

Kolla trúði á það góða í manneskjunni og að við gætum lært að breyta til hins betra. Hún nálgaðist allt sem hún tók sér fyrir hendur af kærleik, samhygð og mikilli vinnusemi. Það er vægt til orða tekið að segja að Kollu verði sárt saknað. Kolla með sitt hlýja viðmót, sterku siðferðiskennd og kraftmiklu framgöngu var hryggjarstykkið í okkar starfi og án hennar verður erfitt að taka næstu skref.

Við verðum ævinlega þakklát fyrir stundirnar sem við deildum með Kollu að vinna að betri framtíð barnanna okkar. Við sendum syni hennar Hákoni, eiginmanni hennar Jens og fjölskyldu hennar okkar hlýjustu kærleikskveðjur og lofum að vinna í þágu umhverfisins um ókomna tíð.

Fyrir hönd framkvæmdahóps Plastlauss september,

Ásdís, Auður, Charlotte, Elín, Helga, Hildur, Natalie, Salbjörg, Steffi og Þórdís.

Leiðir okkar Kollu lágu saman haustið 2001 í Kvennaskólanum, fljótlega urðum við góðar vinkonur. Það er sárt að hugsa til þess að fá ekki að deila áföngum og áskorunum með Kollu restina af lífinu. Ég man eftir því að skrifa í árbókina hennar, eftir síðasta árið okkar í Kvennó, að ég vildi enda á elliheimili með henni því þá yrði aldrei leiðinlegt. Allavega gæti ég verið í hláturskasti alla daga í góðum félagsskap, það var svo gaman að hlæja með henni enda hafði Kolla einstakan hlátur. Kolla hafði skemmtilega frásagnargáfu og átti auðvelt með að sjá spaugilegu hliðarnar í lífinu. Það var einstaklega gott að leita ráða hjá Kollu því hún var þeim hæfileika gædd að vita alltaf hvað ætti að segja. Kolla var hrein og bein og sagði hlutina alveg umbúðalaust. Ef henni leið illa eða eitthvað gekk ekki upp þá var hún aldrei í neinum feluleik með það. Einnig var hún dugleg að spyrja okkur vinkonurnar úr Kvennó hvað væri að frétta í hvert skipti sem við hittumst í saumaklúbbi. Kolla reyndi alltaf að fylgjast með hvað var gerast hjá hverri okkar hverju sinni og í næsta hittingi spurði hún oft hvernig fór með einhvern hlut sem maður hafði nefnt í síðasta hittingi.

Eftir eitt partíið fyrir um áratug bað Kolla mig um far heim, í lok bílferðar þegar heim var komið þá tek ég eftir því að Kolla hafði skilið eftir pening í bílnum fyrir skutlinu. Þetta var lýsandi fyrir hana, hún vissi að ég myndi ekki taka við peningnum. Síðasta haust hittumst við á veitingastað og Kolla vildi fá að bjóða mér upp á matinn og kallaði hún þetta snemmbúna afmælisgjöf til mín. Svona hlutir voru einkennandi fyrir Kollu, svo ótrúlega örlát. Við Kolla deildum sama áhugamálinu; umhverfismálum. Haustið 2018 sendi Kolla á mig línu hvort ég vildi ekki koma á fund hjá félagssamtökunum um Plastlausan september. Þar sem við gætum mátað okkur við þá hugmynd hvort við gætum lagt hönd á plóg að vekja fólk til umhugsunar um neyslu og huga að umhverfinu. Svo varð úr að árið eftir vorum við báðar komnar í stjórn. Það var einstaklega gott að vinna með Kollu og ég hefði aldrei getað sinnt formennskuhlutverkinu án hennar. Hún var „makkerinn“ minn. Þegar ég lít til baka þá var dýrmætt að fá að deila tíma með Kollu í vinnu að mikilvægu málefni, þar sem við lærðum mikið hvor af annarri. Hún var meðvituð um mikilvægi þess að benda á það sem vel er gert í staðinn fyrir að leggja áherslu á neikvæðu fréttirnar í umhverfismálum. Kolla var mikil fyrirmynd, drífandi, kraftmikil og sjálfstæð. Á þessari stundu er ég minnist Kollu er mér þakklæti efst í huga sem og forréttindin að hafa átt svona trygga og góða vinkonu. Þeim Jens, Hákoni og fjölskyldu vil ég votta samúð mína og þakka Kollu fyrir samfylgdina og ómetanlega vináttu.

Heiður Magný.

Kollabeib.

Haus og hjarta Maríunnar þinnar eru á síbylju að reyna að meðtaka að þú sért farin. Og þyrla upp minningum í kúst og fæjó pæjó-stíl. Bensíntittir Esjuskálans, sundpíur, bókaormar4life, Kvennóskvísur, Rollu roadtrip, gellumix og gæðastundir.

Þú varst stjórstjarna og munt lifa áfram þannig í minningu allra þeirra sem þig þekktu. Hæfileikarík, hugulsöm og þitt hlýja hjartalag átti sér engan samanburð. Sinntir öllu sem þú tókst þér fyrir hendur af alúð og rúllaðir út rauðum dregli fyrir hvern sem bar að garði. Umhverfisvænum að sjálfsögðu. Þitt heimili var litríkur og skemmtilegur samkomustaður. Veislur af ýmsum tilefnum með skemmtileg þemu. Töfrandi hlaðborð sem fengu laxaveislu Stellu í orlofi til að blikna. Nostraðir við skreytingar af þinni einstöku snilld, sem settu punktinn yfir i-ið. Feitletrað, undirstrikað og pasco-penna regnbogalitað i.

Gleði og maður er manns gaman voru þín einkennismerki. Það kristallaðist í áðurnefndum veislum en líka í leikjum, spilum, þakklætisvottum, gjöfum, jólakortum, upplifunarstundum, yndislestri eða sjónvarpssófaleti. Kálbögglafélagið verður aldrei samt án þín, eða júróvisjonpartí.

Þú varst fyrirmyndarfljóð og gafst þig alla fyrir fjölskylduna, vini og þína köllun í starfi og umhverfismálum. Táknmynd fósturlandsins freyju/fóstru með grænfána í hönd. Þér var umhugað um að æskan fengi alla þá næringu sem hún þyrfti til að blómstra.

Að betrumbæta þennan heim, að fræða en ekki hræða. Þér tókst það. Skapandi, hugmyndarík og já bara alltumlykjandi fræðandi sólskinsgeisli. Þú gerðir lífið að listaverki fyrir okkur öll. Þessi týpa sem breytir niðurníddum garði í paradís eða grámygluhversdagsstund í töfrandi augnablik. Með sem minnstri óþarfa neyslu eða sóun.

Árið 2023 átti að vera árið okkar, með fleiri ljúf hádegisdeit. Tvær úr bataleyfistungunum, til í hvað sem er. Hlátur og grátur bland í poka. Æ þinn ógleymanlegi hlátur. Klingdi í öllum krókum og kimum, hvílík dásemd. Hefði fyrir löngu átt að vera skrásett vörumerki. Engin hló jafn dátt að endasleppri orðaleikjafyndni minni. Eða þegar ég setti ólífusteina upp í mig. Nema kannski systir þín (mínar tvær bestustu). Og jú rest af Skríplafjölskyldunni.

Ég veit að þú ert á dásamlegum stað núna, þínum eigin Leynigarði. Syngjandi af öllu hjarta, skælbrosandi og dansandi verkjalaus. Vakir yfir, leiðarstjarna okkar á vegferð áfram veginn. Ég er ekki jafn sleip í útreikningi og elsku gormurinn ykkar hann Hákon. En ég myndi segja að þrír áratugir af vinskap þínum verði ekki metnir til fjár. Hvílík gæfa að eiga þig að, svona lengi en samt svo stutt. Frá ári 10 að 40, við vorum rétt svo dottnar í þriðja gír á Rollunni og lífinu.

Okkar plastlausa prinsessa. Lafði lokkaprúð. Skríplalímið. Kolla stjarnan mín skær. Þú varst óviðjafnanlegur engill í lifanda lífi. Við munum læra að lifa með söknuðinum einn góðan veðurdag. Góðar minningar eru farnar að lýsa upp himininn eins og norðurljós. Kærleiksknús, Jens, Hákon og elsku Skríplastórfjölskylda.

Ykkar heimalningur,

María Theodórsdóttir.

Elsku besta Kollan mín.

Ég veit að þú ert farin, en ég trúi því nú samt ekki alveg. Þetta er allt saman svo óraunverulegt. En þetta er víst raunveruleikinn. Kolla er farin. Kolla sem kölluð er hin káta. Kolla sem skírir húsið mitt Fmilljón því hver getur munað svona hátt húsnúmer. Kolla sem blastaði Ríó tríói og Pöpunum í Rauðu Corollunni. Kolla sem elskaði íslenska tungu og tónlist og börn og náttúruna. Kollan mín sem var alltaf til í smá ævintýri. Öll bílavandræðin okkar því auðvitað er ósköp eðlilegt að keyra torfæra fjallvegi á venjulegri Corollu. Risaeðluhlaupið sem við gæddum okkur á við flest tækifæri. Öll böllin sem við fórum á. Hinn merki kálbögglahittingur og ekki gleyma ferskjum og rjóma. Öll löngu löngu samtölin okkar þar sem allur heimsins vandi var veginn og metinn. Þú mundir allt og ég man aldrei neitt. Þú sást stóru myndina og heiminn eins og þú vildir að hann væri og nostraðir við allt og alla til að reyna að búa til betri heim. Allar myndirnar og gellumixin og gjafirnar sem þú lagðir svo mikið í. Tími var nokkuð sem þú gafst af heilum hug.

Kjarninn í vináttu okkar var að við tókum hvor annarri bara nákvæmlega eins og við erum. Þú svo jarðbundin og ég alltaf með hugann í skýjunum. Vináttan okkar er vinátta sem varir að eilífu. Því þótt þú sért farin ætla ég að halda áfram að hugsa um allar góðu stundirnar okkar, öll ævintýrin, allan hláturinn. Það var svo mikið hlegið. Spila uppáhaldslögin þín. Borða uppáhaldsnammið okkar. Mest af öllu ætla ég að hlúa að þeim sem þú elskaðir mest. Takk fyrir allt, kæra Kollan mín.

Þó að kali heitur hver,

hylji dali jökull ber,

steinar tali og allt, hvað er,

aldrei skal ég gleyma þér.

(Rósa Guðmundsdóttir)

Sigríður Magnúsdóttir.

Það voru þung sporin heim úr vinnu eftir að okkur höfðu borist þær sorglegu fréttir að hún Kolla okkar væri látin. Við ákváðum að koma saman um kvöldið til að hugga hvert annað, gráta, minnast og gleðjast yfir því hve heppin við værum að hafa fengið að kynnast Kollu. Hún á sinn stað um ókomna tíð í hjörtum okkar. Hvert og eitt okkar á sínar minningar um Kollu. Þegar maður kynntist henni þá var strax eins og maður væri að spjalla við gamlan vin. Hún hlustaði af áhuga og strax var það augljóst að hún bjó yfir mikilli hlýju. Hún var falleg, réttsýn sál og fagmanneskja fram í fingurgóma. Bjarta brosið hennar Kollu náði til augnanna og brosti hún óspart.

Hún var hrókur alls fagnaðar í óvissuferðum og var ósjaldan með þeim síðustu heim hvort sem rólyndisspjall var í gangi eða taumlaust danspartí. Það var alltaf gaman í kringum Kollu. Hún kom fram við alla sem jafningja, hvort sem um börn eða fullorðna var að ræða. Hún var nösk á að sjá hvað hver einstaklingur hafði sem styrkleika, vökvaði þá styrkleika og fékk þá til að blómstra. Hún átti óþrjótandi kvóta af þolinmæði og jafnaðargeði. Maður gat alltaf leitað til hennar til að fá góð ráð eða hreinlega til að fá viðurkenningu frá henni að maður væri á réttri leið með eitthvað. Þegar Kolla talaði þá hlustaði maður. Það var ekki annað hægt en að fyllast aðdáun þegar hún talaði um Hákon sinn, þeirra samband var einstakt og missir hans og allra aðstandenda er mikill og er hugur okkar hjá fjölskyldu Kollu. Kolla snerti okkar hjartastrengi og erum við ótrúlega þakklát fyrir samfylgd hennar í Fífuborg. Hún á stóran þátt í 30 ára sögu Fífuborgar en þar vann hún í 13 ár.

Við kveðjum með þessu ljóði sem minnir okkur á Kollu því hún söng það svo gjarnan með börnunum í Fífuborg.

Gulli og perlum að safna sér

sumir endalaust reyna

vita ekki að vináttan er

verðmætust eðalsteina.

Gull á ég ekki að gefa þér

og gimsteina ekki neina

en viltu muna að vináttan er

verðmætust eðalsteina.

(Hjálmar Freysteinsson)

Fyrir hönd starfsmanna leikskólans Fífuborgar,

Helga Sigurðardóttir leikskólastjóri.

Þau eru mörg lýsingarorðin sem koma upp í hugann þegar við minnumst Kollu. Umhyggjusöm, eldklár, hlý, skilningsrík með fallega útgeislun og bjartasta brosið er meðal þess sem lýsir henni best.

Kolla starfaði sem aðstoðarskólastjóri í Heilsuleikskólanum Kór í um það bil eitt ár áður en heilsa hennar kom í veg fyrir að hún hefði fulla starfsgetu. Á því ári voru það ótal verkefni sem hún tókst á við af miklum metnaði og drifkrafti og fagþekking hennar á leikskólastarfi var framúrskarandi. Hún brann fyrir málefni leikskólans og var með mjög skýra og rétta sýn á hvernig ætti að hlúa sem best að börnum á fyrsta æviskeiði þeirra. Undirrituð kynntist Kollu á þeim vettvangi og sú tenging varð m.a. til þess að hún réð sig til starfa í Kór og við fengum að njóta þeirra forréttinda að starfa með henni.

Sem leikskólakennari og stjórnandi var afar gott að leita til Kollu, hún tók á móti öllum með hlýju og virðingu og nærvera hennar var einstaklega falleg. Hún lagði áherslu á að heilsa öllum með nafni og hún hafði þann eiginleika að fólki fannst það vera mikilvægast hverju sinni. Kolla var einstaklega þolinmóð, hvetjandi í starfi og dugleg að hrósa öðrum. Eiginleikar sem allir geta tekið sér til fyrirmyndar.

Umhverfismál voru henni hugleikin og gegndi hún m.a. formennsku hjá Plastlausum september á tímabili. Hún gerði samstarfsfólk meðvitaðra um þessi mál í leikskólanum og getum við miðlað þeirri visku áfram til foreldra og barna.

Þrátt fyrir að starfstími Kollu yrði ekki langur í Kór setti hún mark sitt á leikskólann og snerti við öllum þeim sem komust í kynni við hana, börnum, starfsfólki og foreldrum. Hún var með einstaklega fallegt hjarta og við lærðum margt af henni. Það er óendanlega sárt að sjá á eftir konu á besta aldri sem skilur eftir sig marga ástvini.

Elsku Jens, Hákon, foreldrar og systkini Kollu, við sendum okkar innilegustu samúðarkveðjur og megi guð styrkja ykkur á þessum erfiða tíma. Kolla verður alltaf í huga okkar.

F.h. starfsmanna í Heilsuleikskólanum Kór,

Berglind Robertson Grétarsdóttir.

Elsku yndislega Kolla okkar.

Það er með sorg í hjarta sem við skrif um þessi kveðjuorð til þín. Við hugsum með hlýju til tíma okkar saman í Kennó og góðu minninganna þaðan.

Það að við skyldum halda sambandi að námi loknu er okkur mjög dýrmætt. Þótt það liði stundum langt á milli var alltaf eins og við hefðum hist í gær, mikið hlegið og spjallað. Þú talaðir ávallt hlýlega um fólkið þitt og varst svo stolt af fjölskyldu þinni.

Takk fyrir allt, elsku vinkona, þú munt alltaf eiga stað í hjarta okkar.

Elsku Jens, Hákon og aðrir ástvinir. Hugur okkar er hjá ykkur. Megi allar góðar vættir vaka yfir ykkur og styrkja í sorginni.

Helena og Brynhildur (Binna).

Það var árið 2001 sem við kynntumst Kollu þegar hún kom í FÞ-bekkinn í Kvennaskólanum í Reykjavík. Ekki fór á milli mála að þarna var á ferðinni eldklár og skemmtileg stelpa. Það leið ekki á löngu áður en með okkur tókust kynni þegar við lentum saman í hópaverkefni, því fyrsta af mörgum sem á eftir komu. Verkefnavinna með Kollu var kostuleg, mikið hlegið og alltaf fjör en á sama tíma sá Kolla til þess að verkefnin væru vönduð og vel unnin.

Þessi samvinna gerði það að verkum að áhugi okkar á námi jókst og metnaðurinn á sama tíma. Ógleymanleg eru til að mynda verkefnin um Brennu-Njáls sögu þar sem tímafrek myndbandagerð átti sér stað í heimkynnum Kollu á Kjalarnesi og einnig verkefnið um Mývatn sem var sérstaklega unnið á Hávallagötunni þar sem nýmóðins ADSL-tenging var í boði og Kjartan bróðir Kollu kom við sögu. Þessar stundir dýpkuðu vinskap okkar við Kollu sem síðan þá hefur haldist og alltaf verið okkur kær.

Ógleymanlegar eru skemmtilegar minningar með Kollu og Kvennóvinkonunum, öll böllin, fyrirpartíin, bílrúntarnir blastandi „gellumixinu“ hennar Kollu og partíin í kjölfarið eftir útskrift. Kolla var síðan sú fyrsta í vinkonuhópnum til að gifta sig en brúðkaup hennar og Jens árið 2009 var einstaklega falleg og gleðileg stund.

Sumarið 2011 vildi svo skemmtilega til að við áttum allar þrjár von á barni og hittumst við mikið með krílin okkar í fæðingarorlofinu. Þá færðust umræðurnar vissulega yfir í barnatengdari hluti frá því sem áður var. En Hákon var ljósið í lífi Kollu og gaf hún sig alla í móðurhlutverkið. Hún bjó yfir óþrjótandi hugmyndum um það sem eykur gleði og þroska barna. Við lítum mjög upp til hennar í þessum efnum og munum ætíð gera.

Það fyrsta sem kemur upp í hugann þegar við hugsum um Kollu er hlátur og fallega brosið hennar. En fáir bjuggu yfir jafn dillandi og smitandi hlátri, hún hafði mikinn húmor og sá spaugilegar hliðar í flestum aðstæðum. Kolla var sannur vinur vina sinna, traust og umhugað um fólkið í kringum sig. Hún sýndi því áhuga sem við vinkonurnar tókum okkur fyrir hendur og ekki síst hvað börnin okkar varðar.

Við Kvennógellur, eins og Kolla orðaði það, höfum hist mánaðarlega að jafnaði eftir útskrift. Síðast hittumst við heima hjá Kollu tveimur dögum áður en hún lést og þykir okkur sérstaklega vænt um það kvöld. Þá rifjuðum við upp gamla og góða tíma úr Kvennó, skoðuðum árbókina okkar og myndaalbúmin sem Kolla hefur gert af mikilli vandvirkni og natni í gegnum árin.

Stórt skarð er höggvið í vinkonuhópinn við fráfall Kollu. Góðar minningar munu lifa í hjörtum okkar um dýrmæta vinkonu. Við erum þakklátar fyrir öll viskukornin, hlátursköstin og vináttuna í gegnum tíðina.

Við vottum fjölskyldu Kollu og þeim sem standa henni nærri okkar innilegustu samúð. Missir þeirra er mikill en við vonum að góðar minningar um ástríka mömmu, eiginkonu, dóttur, systur og vinkonu sé styrkur í sorginni.

Guðrún Lilja Tryggvadóttir og Salvör Gyða Lúðvíksdóttir, vinkonur úr Kvennaskólanum.