Varsjá Um 30.000 manns komu saman við forsetahöllina í Varsjá til að hlýða á ávarp Bidens og var ræðu hans vel fagnað af áheyrendum.
Varsjá Um 30.000 manns komu saman við forsetahöllina í Varsjá til að hlýða á ávarp Bidens og var ræðu hans vel fagnað af áheyrendum. — AFP/Wojtek Radwanski
Stefán Gunnar Sveinsson sgs@mbl.is Joe Biden Bandaríkjaforseti hét því í gær að Rússar myndu aldrei fara með sigur af hólmi í Úkraínustyrjöldinni og að vesturveldin myndu ekki þreytast á stuðningi sínum við Úkraínumenn.

Stefán Gunnar Sveinsson

sgs@mbl.is

Joe Biden Bandaríkjaforseti hét því í gær að Rússar myndu aldrei fara með sigur af hólmi í Úkraínustyrjöldinni og að vesturveldin myndu ekki þreytast á stuðningi sínum við Úkraínumenn.

Ummæli Bidens féllu í ávarpi sem hann flutti við forsetahöllina í Varsjá, einungis nokkrum klukkustundum eftir að Vladimír Pútín Rússlandsforseti tilkynnti í stefnuræðu sinni að hann ætlaði að hætta þátttöku Rússlands í New START-afvopnunarsamkomulaginu við Bandaríkin.

Biden sagði í ræðu sinni að fyrir einu ári hefði heimsbyggðin verið að búa sig undir að Kænugarður félli í hendur Rússa. „Ég er nýkominn frá Kænugarði og ég get sagt að Kænugarður stendur sterkur. Kænugarður stendur stoltur, hann stendur hnarreistur, og það sem mestu máli skiptir, hann stendur frjáls,“ sagði Biden.

Biden nefndi Pútín tíu sinnum á nafn í ræðunni og sagði að valdaþorsta hans yrði aldrei svalað. Sagði Biden að Pútín hefði orðið á alvarleg mistök með því að fara í styrjöld við Volodimír Selenskí Úkraínuforseta, þar sem hugrekki Selenskís hefði verið mótað „í eldi og stáli“.

Þá sagði Biden að einræðisherrar skildu einungis eitt orð, nei. „Nei, þú munt ekki taka land mitt. Nei, þú munt ekki fá frelsi mitt. Nei, þú munt ekki fá framtíð mína,“ sagði Biden. „Úkraína verður aldrei sigur fyrir Rússland, aldrei,“ sagði Biden og uppskar mikið lófatak þeirra 30.000 áhorfenda sem hlýddu á ræðu hans.

Rússar ekki óvinurinn

Bandarískir embættismenn höfðu sagt fyrir ræðu Bidens að tímasetning hennar hefði ekki verið hugsuð sem svar við stefnuræðu Pútíns, sem flutt var fyrr um morguninn. Biden vék hins vegar einu sinni að ræðu Pútíns, sem hélt fram í henni að vesturveldin stefndu að því að leggja Rússland í eyði. Biden hafnaði þeirri staðhæfingu og sagði hana algjöran uppspuna.

„Vesturveldin eru ekki að leggja á launráð um að ráðast á Rússland, líkt og Pútín sagði í dag. Milljónir rússneskra borgara, sem vilja bara lifa í friði við nágranna sína, eru ekki óvinurinn,“ sagði Biden í ræðu sinni.

Þá hét Biden því líkt og fyrr sagði að vesturveldin myndu aldrei hvika frá stuðningi sínum við Úkraínu. Sagði Biden að Atlantshafsbandalagið NATO hefði aldrei staðið sterkara en nú. „Enginn ætti að vera í vafa: Stuðningur okkar við Úkraínu mun ekki bresta, NATO mun ekki klofna og við munum ekki þreytast.“

Biden sagði undir lok ræðu sinnar að næstu fimm ár yrðu ögurstund í sögu mannkynsins, þar sem þær ákvarðanir sem þá yrðu teknar myndu móta framtíðina um langan aldur. Sagði Biden valið vera skýrt. „Það er val á milli ringulreiðar og stöðugleika. Milli þess að byggja upp eða að eyðileggja. Á milli vonar og ótta. Á milli lýðræðisins sem lyftir upp mannsandanum og hinni grimmu hönd einræðisherrans sem kremur hann,“ sagði Biden meðal annars.

Kenndi vesturveldunum um

Pútín sakaði hins vegar vesturveldin um að hafa ögrað og knúið Rússa til þess að hefja „sérstöku hernaðaraðgerðina,“ um leið og hann endurtók fyrri ásakanir sínar um að stjórnvöld í Kænugarði væru höll undir nasisma. Sagði Pútín að Rússar ættu ekki í stríði við Úkraínumenn, heldur einungis Kænugarðsstjórnina, sem sæti í skjóli vesturveldanna.

Pútín lýsti því svo yfir í ræðu sinni að Rússar myndu ekki lengur framfylgja ákvæðum New START-afvopnunarsáttmálans, sem Bandaríkin og Rússland undirrituðu árið 2010. Samkomulagið kveður á um að ríkin tvö takmarki þann fjölda kjarnaodda sem þau búa yfir, sem og að fjöldi þeirra kjarnorkuodda sem eru tilbúnir til notkunar á hverjum tíma fari ekki yfir 1.550.

Sagði Pútín að Bandaríkjastjórn bæri alla ábyrgð á þessari stöðu og að ef Bandaríkin ætluðu að gera tilraunir með kjarnorkuvopn yrðu Rússar að gera það líka til að halda valdajafnvæginu í heiminum.

Rússneska utanríkisráðuneytið sagði í yfirlýsingu síðar um daginn að rússnesk stjórnvöld myndu áfram fylgja „skynsamlegri nálgun,“ sem fæli meðal annars í sér að Rússar myndu áfram hlíta þeim takmörkunum á fjölda kjarnorkuodda sem New START kveður á um, að minnsta kosti fram til febrúar 2026, þegar það á að renna úr gildi.

Ákvörðun Pútíns í gær hefur því aðallega áhrif á þau ákvæði samkomulagsins sem heimila ríkjunum að senda skoðunarteymi til hins ríkisins til að fullvissa sig um að því sé fylgt. Í því mun þó ekki felast mikil breyting, þar sem þrjú ár eru liðin frá því að Rússland heimilaði síðast slíka skoðun.