Verðlaunaður Sjón segist ánægður að fá að tilheyra þeim hópi rithöfunda sem hlotið hafa Norrænu bókmenntaverðlaun Sænsku akademíunnar.
Verðlaunaður Sjón segist ánægður að fá að tilheyra þeim hópi rithöfunda sem hlotið hafa Norrænu bókmenntaverðlaun Sænsku akademíunnar. — Morgunblaðið/Einar Falur
„Þetta eru verðlaun sem eru veitt fyrir heildarverk höfundar og það er óneitanlega ánægjulegt að einhver hafi haft fyrir því að plægja í gegnum það sem maður hefur gert á löngum tíma, bæði í útgefnu máli og í kvikmyndum, söngtextum,…

Ragnheiður Birgisdóttir

ragnheidurb@mbl.is

„Þetta eru verðlaun sem eru veitt fyrir heildarverk höfundar og það er óneitanlega ánægjulegt að einhver hafi haft fyrir því að plægja í gegnum það sem maður hefur gert á löngum tíma, bæði í útgefnu máli og í kvikmyndum, söngtextum, óperutextum og öðru og fundist ástæða til þess að verðlauna mann fyrir það,“ segir Sjón. Eins og greint var frá í blaðinu í gær var á mánudag tilkynnt að Sjón hlýtur Norrænu bókmenntaverðlaun Sænsku akademíunnar 2023.

„Það er náttúrlega það sem gerir þessi verðlaun sérstök á Norðurlöndum að þetta eru einu samnorrænu verðlaunin sem líta til heildarverks höfunda og það er ekkert ónýtt að vera kominn í hóp þessa fína fólks sem þar hefur verið verðlaunað áður. Það verður auðvitað til einhver prófíll af norrænum bókmenntum þegar maður skoðar listann og ég er bara dálítið ánægður með að verða hluti af þeim prófíl.“

Verðlaunaféð nemur um 5,6 milljónum íslenskra króna og spurður hvernig það muni nýtast, segir Sjón: „Ég ætla aðeins að sjá til. En það getur verið að ég muni nýta eitthvað af verðlaunafénu til þess að sinna húsinu okkar á Eyrarbakka. Við eigum lítið hús þar sem ég nota til þess að skrifa í. Þar hef ég skrifað allar mínar bækur, meira og minna öll mín verk, síðustu 23 árin. Þannig að það er við hæfi að verðlauna húsið á þessum tímamótum.“

Spurður hvort hann geti jafnvel lagt pennann á hilluna, nú þegar þessum áfanga sé náð, segir Sjón: „Hættan er að maður bregðist þannig við þegar maður fær svona verðlaun sem segja: „Þú ert búinn að standa þig nokkuð vel“. Þetta er svipað og með heildarsafnið. Það verður freistandi að segja: „Já er þetta ekki bara gott“ og þá getur maður snúið sér að öðru. En sennilega er maður enn skrifandi því maður kemst ekki hjá því. Einhver verkefni voru nú komin af stað þegar þessir fréttir bárust og þeim verður að ljúka svo maður skrifar áfram. Og vonandi tekst það nógu vel til þess að þetta verði ekki ómarktækt.“

Vinnur að skáldsögu

Þessa dagana vinnur Sjón m.a. að kvikmyndahandritum og þótti honum vænt um að sjá minnst á kvikmyndahandritin í fréttatilkynningunni frá akademíunni. „Það segir mér að ég geti haldið því áfram. Ég er að vinna að kvikmyndaaðlögun á Hamlet með Ali Abbasi, leikstjóra Holy Spider og Border, og sænsku leikkonunni Noomi Rapace. Svo er ég að vinna að skáldsögu sem ég vonast til að geta gefið út á næstu tveimur, þremur árum.“

Verðlaunin verða afhent 12. apríl í hátíðarsal Börshuset, þar sem höfuðstöðvar Sænsku akademíunnar eru til húsa. „Það verður ógurlega gaman að koma þangað. Þarna eru gamlir glæstir salir. Maður þekkir þetta húsnæði helst af því að þaðan er árlega sjónvarpsútsending út um allan heim þegar þau afhenda Nóbelsverðlaunin og núna fæ ég að vera þarna í eigin persónu. Það verður líka gaman að hitta fólkið í akademíunni sem tók þessa ákvörðun eftir að hafa lesið bækurnar og horft á myndirnar,“ segir Sjón.

„Þetta eru stærstu verðlaun akademíunnar eftir Nóbelsverðlaunin og ég heyrði það á aðalritara akademíunnar, Mats Malm, þegar hann hringdi í mig að þetta eru verðlaun sem skipta þau miklu máli að veita, af því þau líta á það sem mikla skyldu sína að sinna norrænum bókmenntum og bókmenntaarfi. Það vill til að Malm sjálfur er miðaldafræðingur og hefur þýtt Snorra-Eddu yfir á sænsku og það var hálfdraumkennt að okkar samtal skyldi fara fram á íslensku. Það sýnir á hversu háu plani akademían er að þar er fólk sem getur átt samtöl á íslensku.“