Margt bendir til þess að Marx sjálfur sé genginn aftur og geri nú usla í íslensku samfélagi.
Margt bendir til þess að Marx sjálfur sé genginn aftur og geri nú usla í íslensku samfélagi. — Ljósmynd/ John Jabez Edwin Mayal
Það má ýmislegt segja um baráttu Eflingar þessa dagana. Hún virðist þó ekki nema að litlu leyti snúast um það að bæta kjör þeirra rúmlega 20 þúsund launþega sem eiga aðild að félaginu með raunverulegum og ábyrgum hætti

Það má ýmislegt segja um baráttu Eflingar þessa dagana. Hún virðist þó ekki nema að litlu leyti snúast um það að bæta kjör þeirra rúmlega 20 þúsund launþega sem eiga aðild að félaginu með raunverulegum og ábyrgum hætti. Önnur stærri stéttarfélög, sem taka til um 90% launþega á almennum vinnumarkaði, luku fyrr í vetur við gerð kjarasamninga við Samtök atvinnulífsins. Þeir samningar eru til þess fallnir að verja kaupmátt með þeim hætti sem hægt er í ljósi þeirrar stöðu sem nú ríkir í efnahagslífinu. Samningarnir voru ekki ódýrir, þvert á móti, en talið er að þeir auki launakostnað fyrirtækja heilt yfir um rúm 10%. Það er mikil hækkun og mun koma einhvers staðar niður í hagkerfinu.

Efling á þó í annars konar baráttu – og hún er fyrst og fremst hugmyndafræðileg. Þá aðila sem stýra félaginu, beint og óbeint, dreymir um breytta þjóðfélagsskipan með sósíalískri byltingu. Það er ekkert launungarmál enda hafa þau í ræðu og riti boðað þessa hugmyndafræði sem leitt hefur af sér hörmungar fyrir fólk víða um heim. Félagsmenn í Eflingu hafa nú þegar greitt fyrir þessa pólitísku baráttu úr eigin heimilisbókhaldi og munu að öllu óbreyttu þurfa að halda því áfram því það er nokkuð ljóst að forystumenn Eflingar hafa engan áhuga á því að ljúka gerð kjarasamninga.

Hvað sem því líður, þá má í þessu samhengi velta því upp hvar áherslur atvinnulífsins liggja. Atvinnulífið eins og það leggur sig hefur hag af því að tala fyrir og styðja hið frjálsa markaðshagkerfi – kapítalismann – sem fært hefur okkur þá mestu hagsæld sem mannkynið hefur kynnst. Svo virðist þó sem stjórnendur í atvinnulífinu séu í dag uppteknari af því að fylla út samfélagsskýrslur þar sem fram kemur að þeir og fyrirtæki þeirra tikki í öll réttu boxin þannig að hægt sé að skreyta sig með réttu fjöðrunum. Það er vissulega eðlilegt að stjórnendur fyrirtækja hugi að umhverfis-, jafnréttis- og góðgerðarmálum í jafnvægi við annað og lítið út á það að setja, en það verður lítið eftir til að sinna af þeim málaflokkum ef kapítalisminn hrynur.

Einn kosturinn er að eftirláta stjórnmálamönnum að sinna hugmyndabaráttunni. Það er þó ekki sjálfgefið því það er búið að ríkisvæða stjórnmálaflokkana. Þeir stjórnmálaflokkar sem helst gefa sig út fyrir að styðja hið frjálsa markaðshagkerfi hafa þó engan sérstakan hag af því að tala máli þess þar sem ríkissjóður er í dag þeirra helsta tekjulind.

Þá er eðlilegt að spyrja: hver ætlar að tala máli kapítalismans og hver ætlar að greiða fyrir það? Á meðan við hugsum svarið getum við þó haft í huga að íslenskir sósíalistar sitja á milljörðum til að fjármagna baráttu sína gegn kapítalismanum – og það fjármagn er ekki að fara að renna til launþega innan verkalýðshreyfinga nema að litlu leyti.