Kristján Þórður Snæbjarnarson.
Kristján Þórður Snæbjarnarson.
Kjaradeilur Rafiðnaðarsambands Íslands (RSÍ) og Félags vélstjóra og málmtæknimanna (VM) við annars vegar Landsvirkjun og hins vegar Orkuveitu Reykjavíkur sem vísað var til embættis ríkissáttasemjara í mánuðinum verða teknar til umræðu í dag að sögn…

Kjaradeilur Rafiðnaðarsambands Íslands (RSÍ) og Félags vélstjóra og málmtæknimanna (VM) við annars vegar Landsvirkjun og hins vegar Orkuveitu Reykjavíkur sem vísað var til embættis ríkissáttasemjara í mánuðinum verða teknar til umræðu í dag að sögn Kristjáns Þórðar Snæbjarnarsonar, formanns Rafiðnaðarsambands Íslands.

„Við erum búin að gera fjölda annarra kjarasamninga en við höfum ekki náð að klára kjarasamning í orkugeiranum,“ segir Kristján Þórður Snæbjarnarson, formaður RSÍ.

Að sögn Kristjáns Þórðar hefur gengið illa að fá Landsvirkjun og Orkuveitu Reykjavíkur til fundar til að leysa úr kjaradeilum þeirra og VM og RSÍ.

„Ástæða er til að knýja á um að reyna að ná kjarasamningi við þessi fyrirtæki. Það er búið að halda einn fund hjá embættinu og það verður fundur númer tvö í báðum deilum á morgun. Staðan er bara þessi, þannig að maður sér á morgun hvernig hljóðið er,“ sagði hann í samtali í gær.

Kjaradeila VM og RSÍ snýr að tveim atriðum. Annars vegar hvert innihald samningsins eigi að vera og hins vegar að fá Landsvirkjun og OR til að mæta á fund.

„Það er auðvitað verið að ræða þau efnisatriði, hvernig kjarasamningurinn gæti litið út. Svo er það náttúrulega hitt atriðið að draga samningsaðila að borðinu í samtalið. Það hefur þurft að hafa svolítið fyrir því. Þegar þetta er komið til sáttasemjara þá þurfa allir að mæta.“

Aðspurður segir Kristján að það hafi verið strembið að fá aðila til að funda. „Það hefur oft tekið svolítinn tíma að ná því, að fá fund og svör.“

Stóra málið, að ná aðilum á fund, er því afgreitt og er Kristján Þórður ánægður með að það hafi verið leyst.

„Fundirnir eru á morgun. Annars vegar í fyrramálið og síðan eftir hádegi.“