Olav Chen spáir því að kínverskir ferðamenn byrji aftur að heimsækja landið í stórum stíl innan skamms.
Olav Chen spáir því að kínverskir ferðamenn byrji aftur að heimsækja landið í stórum stíl innan skamms. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon.
Olav Chen, yfirfjárfestingarstjóri (e. Head of Allocation and Global Fixed Income) eignastýringar norska tryggingafélagsins Storebrand, segir að þær aðgerðir, sem grípa þarf til svo ná megi verðbólgu niður í 2% verðbólgumarkmið, hafi efnahagssamdrátt í för með sér. „Það er stærsta álitaefnið á næstu 12 mánuðum,“ segir Chen í samtali við ViðskiptaMoggann.

Olav Chen, yfirfjárfestingarstjóri (e. Head of Allocation and Global Fixed Income) eignastýringar norska tryggingafélagsins Storebrand, segir að þær aðgerðir, sem grípa þarf til svo ná megi verðbólgu niður í 2% verðbólgumarkmið, hafi efnahagssamdrátt í för með sér. „Það er stærsta álitaefnið á næstu 12 mánuðum,“ segir Chen í samtali við ViðskiptaMoggann.

Chen hélt í síðustu viku erindi á fundi íslensku lífeyrissjóðanna um stöðu og horfur á alþjóðamörkuðum.

Vonast eftir mjúkri lendingu

Seðlabankar víða um heim vonast eftir mjúkri lendingu hagkerfanna að sögn Chen. „En sagan segir að síðustu 12 kreppum í Bandaríkjunum frá lokum seinni heimsstyrjaldar hafi lokið með harðri lendingu. Skilgreining á harðri lendingu er sú að atvinnuleysi eykst um a.m.k. tvö prósentustig,“ útskýrir Chen.

Vandamálið er að sögn Chens að enn bólar ekki á samdrætti. „Síðustu tölur frá Bandaríkjunum sýna að atvinnumarkaðurinn er enn að styrkjast.“

Hann segir að nú tali flestir um „enga lendingu“ hagkerfisins.

Chen bendir á að fyrir hálfu ári hafi margir hagfræðingar verið sannfærðir um að efnahagssamdráttur væri á leiðinni í Evrópu. Orkuverð hafi verið í hæstu hæðum út af stríðinu í Úkraínu en í nóvember hafi birgðastaða farið að vænkast. „Svo hjálpaði til hversu hlýtt hefur verið í Þýskalandi í vetur. Af því hlaust gríðarlegur orkusparnaður.“

Ekki eins svartsýnn

Chen hefur ekki verið eins svartsýnn á stöðu efnahagsmála og margir aðrir en telur að samdráttur verði í Evrópu á næsta ári frekar en á þessu ári. „Ég trúi ekki á mjúkar lendingar. Ég tel frekar að þetta verði löng lending fram að falli hagkerfisins. Þegar það gerist verður hörð lending, eins og dæmi eru um í sögunni. En við erum að ýta þessu inn í 2024.“

Hann segir að hér á landi hafi K-áhrifin svokölluðu birst mjög skýrt. Þau megi merkja í miklum viðsnúningi ferðamennskunnar en minni eftirspurn eftir vörum sem seldust vel í faraldrinum, eins og tölvum og íþróttafötum. „K-áhrifin er það kallað í hagfræðinni þegar sigurvegarar verða taparar og taparar verða sigurvegarar eftir niðursveiflu í efnahagslífinu,“ segir Chen.

Vöxtur ferðamennskunnar núna er einnig dæmi um svokallaða bælda eftirspurn (e. Pent-up Demand), þar sem byggst hefur upp kaupþrýstingur á vörum. „Það sama er að gerast á Íslandi og á öðrum mörkuðum,“ segir Chen.

Hann segir greinilegt að ferðamennskan sé að ná sömu hæðum hér á landi og fyrir faraldur. „Í Noregi erum við komin upp í um 90% af fyrri stöðu. Við eigum enn aðeins í land. En á sama tíma eru Norðmenn nokkuð skuldugir og glíma við verðbólgu og hækkandi stýrivexti. Það er jafnvægislist að ná tökum á þessum ástandi.“

Kínverjar bæld eftirspurn

Chen bendir á að kínverskir ferðamenn séu dæmi um bælda eftirspurn. Þeir fari bráðlega að skila sér til Íslands í miklum mæli, enda búið að opna Kína eftir faraldur og margir landsmanna orðnir ferðaþyrstir. „Það kom öllum á óvart að kínversk yfirvöld skyldu hvika frá núllstefnunni vegna faraldurins. Flestir sem ég talaði við héldu að þeir myndu halda landinu lokuðu enn um sinn. Tilslakanirnar voru óvæntar en jákvæðar. Sumir segja að þetta verði verðbólguhvetjandi.“
Hann segir að verðbólga hafi almennt í för með sér að verkföllum fjölgi, eins og staðan er núna á Íslandi. „Verðbólgan étur upp kaupgetu fólks og þá fer fólk í verkföll. Þetta er að gerast í Frakklandi og í Bretlandi og mun gerast í sumar í Noregi og Svíþjóð.“

Chen segir að í Noregi bendi hver á annan en vegna faraldursins sköpuðust ýmsir flöskuhálsar í kerfinu. „Mikill opinber stuðningur við atvinnulífið í faraldrinum hefur drifið áfram verðbólguna. Seðlabankar og ríki örvuðu hagkerfin of mikið og drógu ekki nógu hratt í land þegar rofa tók til.“

Staðan í dag er sérstök að mati Chens hvað varðar samspil atvinnuleysis og væntingavísitölu. „Hér á Íslandi er atvinnuleysi með minnsta móti, líkt og víða annars staðar. Í Bandaríkjunum hefur atvinnuleysi ekki mælst jafnlítið síðan á sjötta áratugnum. Á evrusvæðinu hefur það ekki verið eins lítið síðan á níunda áratugnum og það sama á við um Noreg. Það að væntingar neytenda séu á niðurleið í þessu ástandi er mjög áhugavert. Ég hef starfað í þessum geira í tuttugu ár og aldrei orðið vitni að slíku áður. Ef atvinnuleysi er lítið eru væntingar yfirleitt miklar.“

Verðbólgan ástæðan

Chen segir að ástæðan sé þó augljós; mikil verðbólga í löndunum. „Ég held að verðbólgan gefi hratt eftir á þessu ári. Í Bandaríkjunum t.d. hefur hún fallið úr 9% í 6% á stuttum tíma. En hausverkur hagfræðinga um þessar mundir er hvernig hægt sé að ná verðbólgu aftur niður í 2% verðbólgumarkmið á sama tíma og allir vilja hærri laun.“

„Ef fyrirtæki þarf að hækka laun um 7% er því fleytt yfir í vöruverð, nema fyrirtækið vilji tapa framlegð og hagnaði. Ef atvinnumarkaðurinn verður áfram jafnsterkur og fólk fær 4,5-7% launahækkun, þá rímar það ekki við 2% verðbólgumarkmið. Það er auðvitað mögulegt að framleiðni taki stökk upp á við, en það á enginn von á því.“

Laun hækkuðu um 7%

Hann segir að laun í Noregi og Svíþjóð hafi hækkað um 4,5-5% á einu ári og í Bandaríkjunum sé hlutfallið 6-7%.

„Ég og þekktur yfirhagfræðingur í Noregi erum með veðmál í gangi sem við gerðum fyrir 12 mánuðum síðan um atvinnuleysi í Bandaríkjunum. Ég sagði að það yrði undir 4,1% í maí nk. en hann segir að það verði yfir þeirri tölu. Talan er 3,4% núna, sem er mér í vil,“ segir Chen og brosir.

Blaðamaður innir Chen eftir áliti á tæknigeiranum sem hefur sagt upp gríðarlegum fjölda starfsfólks síðustu mánuði.

Chen segir að geirinn falli inn í K-skilgreininguna. Hann hafi blómgast í faraldrinum, en nú gefi á bátinn. „Allt þurfti að vera stafrænt í faraldrinum en nú vill fólk hittast á ný.“

Ráðstefnur séu t.d. bæld eftirspurn sem sjáist best á góðri aðsókn eftir að faraldrinum lauk.

Hann telur að tæknigeirinn leiti jafnvægis með uppsögnum. Hins vegar verði vaxtarfyrirtæki, sem stóli á tekjur í framtíðinni, í erfiðleikum. Þegar vaxtastig sé hátt sé meiri þrýstingur á þau fyrirtæki að byrja að afla tekna.

Chen segir að hlutabréfamarkaðir séu enn viðkvæmir fyrir stýrivaxtahækkunum. Norski markaðurinn hafi ekki farið vel af stað á árinu en markaðir á meginlandi Evrópu og í Svíþjóð hafi náð sér á strik.

Stríðið hefur ekki áhrif

Spurður að lokum um áhrif stríðsins í Úkraínu á efnahagsmálin segist Chen álíta að svo lengi sem orkuverð hafi náð jafnvægi og birgðastaðan verði áfram góð verði efnahagsleg áhrif átakanna ekki mikil næstu sex mánuðina.