Verði ekki samið þarf önnur ráð

Langt er síðan önnur eins harka hefur sést í kjaradeilum á Íslandi og svo mikið ber á milli að ómögulegt má teljast að um semjist. Báðir aðilar hafa einsett sér samningsmarkmið, sem ekki aðeins geta ekki farið saman, þau eru beinlínis andstæð.

Samtök atvinnulífsins (SA) vilja ekki semja á öðrum nótum en þegar hefur verið gert við þorra íslenskra launþega, en Efling hefur að yfirlýstu markmiði að semja á allt annan veg. Fyrir nú utan augljósan áhuga Sólveigar Önnu Jónsdóttur, formanns Eflingar, á að letra nafn sitt í helgisögur róttæklinga.

Engum átti því að koma á óvart að þessum aðilum vinnumarkaðarins gengi ekkert að semja, sín á milli eða fyrir tilstilli ríkissáttasemjara. Séu þeir ófærir um að semja þarf önnur ráð.

Verkföll Eflingar hafa þegar valdið miklum skaða og efni SA til allsherjarverkbanns kemst kjaradeilan á nýtt stig, en líkurnar á að um semjist jafnfjarlægar.

Því virðist óhjákvæmilegt að samfélagið skakki leikinn og þar eru þrjár leiðir helstar. Í fyrsta lagi að deilendur kjósi um fyrirliggjandi og lögmæta miðlunartillögu, sem ella taki gildi eins og lög gera ráð fyrir. Í öðru lagi að settur ríkissáttasemjari áfrýi úrskurði Landsréttar til Hæstaréttar, enda var samningur um annað ólögmætur. Í þriðja lagi getur Alþingi sett lög á vinnustöðvanir og eftirlátið gerðardómi nýjan samning.

Af þessu þrennu er miðlunartillagan enn einfaldasta, eðlilegasta og átakaminnsta leiðin, en jafnframt sú, sem skilar fólki á Eflingarsamningum mestum kjarabótum, og kemur á vinnufriði í landinu á ný. En kjósi menn frekar stríð þegar friður er í boði, þá verða dómstólar að eiga síðasta orðið.