Björn Gíslason
Björn Gíslason
Örfáum vikum eftir að skrifað var undir sáttmálann fór þessi framkvæmd úr 2,2 milljörðum í stokkaframkvæmd upp á 17,7 milljarða.

Björn Gíslason

Nú hefur kostnaður Samgöngusáttmálans verið uppfærður af ríkisfyrirtækinu Betri samgöngum ohf. Við það hækkaði kostnaðurinn úr 120 milljörðum í 170 milljarða á þremur og hálfu ári eða um samtals 50 milljarða króna. Þetta er engin smá upphæð og því hljóta íbúar á höfuðborgarsvæðinu að spyrja sig hvernig standi eiginlega á því að hækkunin sé svona mikil, enda ekki hægt að tengja hana við verðlagsþróun eða vísitölu eina og sér.

Þegar betur er að gáð kemur í ljós að mest munar þar um framkvæmdir við Sæbraut þar sem upphaflega var gert ráð fyrir kostnaði í sáttmálanum upp á 2,2 milljarða. Örfáum vikum eftir að skrifað var undir sáttmálann fór þessi framkvæmd úr 2,2 milljörðum í stokkaframkvæmd upp á 17,7 milljarða. Mér skilst að borgarstjórinn hafi staðið fyrir þessum breytingum og fékk Alþingi til að fallast á þær ef eitthvað er að marka hans eigin skrif.

Þrátt fyrir gríðarlega hækkun virðist borgarstjórinn hins vegar ekki hafa séð ástæðu til að greina borgarfulltrúum sérstaklega frá þessum breytingum, og jafnframt skilst mér að bæjarstjórar höfuðborgarsvæðisins, sem þó eru aðilar að sáttmálanum, hafi hreinlega ekki haft vitneskju eða hugmynd um þessa gríðarlegu hækkun. Þessu til stuðnings er nærtækt að glugga í Morgunblaðsviðtal við Þór Sigurgeirsson, bæjarstjóra á Seltjarnarnesi, frá föstudeginum 10. febrúar sl. en þar kvaðst Þór ekki hafa haft hugmynd um þessa breytingu.

Hækkar um 65% án þess að framkvæmdir séu hafnar

Sú staðreynd að borgarstjórinn geti tekið ákvarðanir sem þessar upp á sitt eindæmi, án þess að upplýsa samningsaðila, er með hreinum ólíkindum. Hún er ekki bara óheiðarleg að mínu mati, heldur andlýðræðisleg. Hér er ekki verið að gagnrýna þessa tilteknu skipulagshugmynd, svo fremi sem hún þrengir ekki að fyrirhugaðri Sundabraut. En svona vinna heiðarlegir stjórnmálamenn ekki, enda 15,5 milljarða kostnaðarhækkun fyrir skattgreiðendur á höfuðborgarsvæðinu.

Í hækkun á kostnaðaráætlun samgöngusáttmálans munar næstmest um hækkun á kostnaði við fyrsta áfanga borgarlínu. Fram kemur að hann hafi hækkað um 65% á þremur og hálfu ári án þess að tekin hafi verið fyrsta skóflustungan að honum.

Annar og þriðji áfangi borgarlínu hafa enn ekki hækkað nema um 24%, enda er töluvert lengra í þær framkvæmdir. Þetta eru óhugnanlegar staðreyndir. Hafi kostnaður við fyrsta áfangann aukist um 65% án þess að framkvæmdir séu svo mikið sem hafnar má vel gera ráð fyrir að heildarkostnaður áfangans eigi eftir að tvöfaldast frá fyrstu áætlun. Sömu sögu verður svo hægt að segja um hina fimm áfangana og þar með alla borgarlínuna.

Svona fjárhagsáætlun um tröllauknar opinberar framkvæmdir er ekki boðleg skattgreiðendum og þarfnast því gagngerrar endurskoðunar. Brýnt er að vinda ofan af vitleysunni sem allra fyrst, skattgreiðendum til heilla.

Höfundur er borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Höf.: Björn Gíslason