Birgir Bjarnason fæddist í Reykjavík 18. febrúar 1953. Hann lést á líknardeild Landspítalans 7. febrúar 2023.

Foreldrar hans voru Kristjana Brynjólfsdóttir, f. 1923, d. 2000, og Bjarni Björnsson f. 1920, d. 2001. Bræður Birgis eru Björn, f. 1944, maki Kristín Helgadóttir; Brynjólfur, f. 1946, maki Þorbjörg K. Jónsdóttir; og Bjarni, f. 1948, d. 2022, maki Emilía Ólafsdóttir.

Birgir útskrifaðist sem framleiðslutæknifræðingur frá University of Manchester Institute of Science and Technology árið 1976 og með MBA-gráðu frá University of Bath árið 2000.

Birgir kvæntist Guðbjörgu Sigmundsdóttur, f. 1953, hinn 7. júlí 1979. Guðbjörg er dóttir Sigmundar Eyvindssonar, f. 1914, d. 1979, og Aðalheiðar Olgu Guðgeirsdóttur, f. 1913, d. 1995.

Dóttir þeirra er Íris Björg, f. 1980, gift Gunnþóri Steinari Jónssyni, f. 1978. Þau eiga synina Birgi Braga, f. 2004, og Bjarka Steinar, f. 2007. Sonur Guðbjargar og stjúpsonur Birgis er Gísli Heiðar Bjarnason, f. 1975, maki Anna Elín Kjartansdóttir, f. 1975. Þau eiga börnin Kjartan Gauta, f. 2001, Evu Rakel, f. 2006, og Gísla Marel, f. 2010.

Fyrir átti Birgir dótturina Ágústu, f. 1973, barnsmóðir Arndís Jósefsdóttir. Maki Ágústu er Guðni Þórarinsson, f. 1971. Saman eiga þau Hlyn Snæ, f. 1998, og Karen Ösp, f. 2000. Fyrir átti Guðbjörg soninn Elías Halldór Bjarnson, f. 1972, maki Helga Arnalds, f. 1967. Saman eiga þau Úlf, f. 2002, og Hallveigu, f. 2008.

Birgir fæddist á Miklubraut og frá æskuárum hans úr Hlíðunum hefur ávallt fylgt honum góður vinahópur. Að námi loknu í Bretlandi '76 starfaði Birgir sem framleiðslustjóri hjá Dúk hf. sem faðir hans stofnaði og rak. Síðar starfaði hann sem framkvæmdastjóri hjá Formax og Landssmiðjunni en lengst af sem framkvæmdastjóri HK – Handknattleiksfélags Kópavogs. Birgir var virkur félagsmaður í Roundtable, Oddfellow og Rótarýklúbbi Reykjavíkur. Birgir var mikill golfáhugamaður en sú íþrótt og allur félagsskapur sem því fylgdi gaf honum mikla orku, gleði og yndi.

Útför Birgis fer fram frá Lindakirkju í dag, 22. febrúar 2023, og hefst athöfnin klukkan 13.

Útförinni verður streymt á https://lindakirkja.is/utfarir

Það er skammt stórra högga á milli í röðum okkar bræðra, Bjarni kveður í janúar á síðasta ári og nú Birgir rúmu ári síðar, en þetta er það sem allir eiga í vændum og enginn fær um ráðið.

Birgir var yngstur okkar bræðra, kátur strákur sem fór mikið fyrir þegar svo bar undir, en hófsamur og rólegur þegar þurfti. Hann var lítið í íþróttum sem strákur, var meira fyrir almenna leiki með krökkunum, og þegar hann varð eldri þá var það rokkið og Bítlarnir sem hann hafði meiri áhuga, á ólíkt okkur bræðrum, sem hlustuðum á en höfðum ekki mikinn áhuga.

Árin liðu eins og gengur, við bræður höfðum ekki mikil afskipti hver af öðrum, ef ekki hefði verið fyrir móður okkar sem sá til þess að við hittumst með fjölskyldum okkar svona einu sinni í mánuði heima í föðurhúsum. Þar var mikið fjör, börn okkar nutu þess að hittast og mynduðust sterk tengsl okkar á milli.

Þótt við hefðum ekki mikil afskipti hver af öðrum var og er bræðraþelið sterkt og eftir því sem árin liðu sameinaði golfið okkur, fyrst okkur bræður og síðar með eiginkonum okkar.

Birgir var hvað áhugasamastur af okkur hvað golfinu viðkemur, hann kunni marga keppnisleiki og sá til þess að við spiluðum þá, leiðrétti ef rangt var farið í leik.

Það er sárt að horfa á eftir bróður, enda væntumþykja mikil, hann yngstur og einhvern veginn myndast sterk taug á milli, enda var það mitt hlutverk að passa hann á yngri árum ef foreldrar brugðu sér af bæ.

Elsku Guðbjörg og fjölskylda, megið þið finna styrk í minningum ykkar um ástkæran og góðan dreng.

Hvíl í friði minn kæri bróðir og vinur.

Kristín og Björn Bjarnason.

Við kynntumst Birgi hvar annars staðar en á golfvellinum og varð strax frá fyrsta hring vel til vina. Birgir var trúr og tryggur með einstaklega góða nærveru. Ferðalög okkar með þeim hjónum Guðbjörgu og Birgi á uppáhaldsgolfstaði erlendis voru uppbyggjandi, fræðandi og skemmtileg. Birgir háði hetjulega baráttu við krabbamein og í ferð okkar í haust þurfti hann að stytta sína síðustu golfferð vegna veikinda. Takk fyrir allar þær góðu stundir sem við áttum saman.

Birgis verður sárt saknað.

Á vori hverju vex eitt blóm

í vilja Drottins grær og dafnar.

Það vermir sól og veit sinn dóm

er vetur því að lokum hafnar.

(got)

Elsku Guðbjörg og fjölskylda, við vottum ykkur innilega samúð.

Minning um góðan mann lifir.

Kristbjörg og Walter.

Enn og aftur hefur óboðinn gestur unnið illvirki – krabbameinið kom, settist að og vann sig inn og lagði að lokum Birgi bróður minn að velli. Eftir skamma en harða baráttu við þennan óboðna gest varð Biggi að játa sig sigraðan og fékk sína hvíld.

Vegir lífsins eru óþekktir og það er skrítin tilfinning að sitja hér eldri bróðir og horfa á eftir tveim yngri bræðrum falla frá með árs millibili. Við jörðuðum Bjarna bróður okkar 11. febrúar í fyrra, og nú stöndum við Björn eldri bræðurnir einir eftir.

Það voru forréttindi að fá að alast upp í öruggu skjóli í foreldrahúsum einn fjögurra bræðra. Það hefur eflaust verið galsi í fjörmiklum drengjahópnum, en einhvern veginn er minningin mest af okkar kæru móður hlæjandi að öllum okkar uppátækjum. Nanný móðir mín var einstaklega glaðvær og hláturmild og fannst flest sem við gerðum sniðugt. Ekki síst voru það uppátæki litla bróðurins Bigga sem kitluðu hláturtaugar hennar. Já Bigga sem í raun átti að vera stelpa eins og móðir mín sagði oft. Móðir mín og kær æskuvinkona hennar Soffa Wathne voru samferða í sínum barneignum, móðir mín með synina þrjá og Soffa með sínar þrjár dætur. Og þegar móðir mín varð barnshafandi að fjórða barninu, sem Soffa sagði að gamni að væri hreinlega frekja í því jafnvægi í barneignum sem með þeim var, þá langaði móður mína óskaplega mikið í dóttur. En svo birtist Biggi og það er vægt til orða tekið að glens hans hafi oft verið ástæða glymjandi hláturs þeirra vinkvenna í Hlyngerðinu hjá foreldrum mínum þegar Soffa var í heimsókn. Gleði Bigga, stríðni og gáskafull framkoman í æsku er það sem í minningunni einkenndi hann. Maður áttar sig á að sú glaðværð sem var í móður minni erfðist ekki síst til Bigga. Við hinir bræðurnir vorum kannski líkari pabba, alvarlegri, þó uppátækin væru ýmis.

En eftir lifir einnig minning um ljúfan dreng, umhyggjusaman við nærfjölskyldu sína sem hann var óskaplega stoltur af. Þolinmæði hans og glaðværðar í bland við umhyggjusemina nutum við einnig í stórfjölskyldunni, hann var einstaklega bóngóður og aðstoð hans við Dídí mína og Helenu í golfinu var t.d. ómetanleg, en golfið var líf og yndi hans og Guðbjargar konu hans hin síðari ár.

Það er enginn sáttur við að tapa baráttunni við þennan óboðna gest, en í þeirri stöðu sem komin var þökkum við fyrir hvíldina sem Biggi fékk. Eftir sitja mikilvægar og góðar minningar frá æskuheimilinu, stórum fjölskylduhátíðum í sumarbústað foreldranna á Kjalanesi og öðrum reglulegum samkomum í stórri fjölskyldu. Það er huggun harmi gegn að vita af Bigga á betri stað með Bjarna bróður, mömmu Nanný og pabba Bjarna. Ég efa ekki að þar ríkir glaumur og gleði og mér finnst sem ég heyri dillandi hlátur mömmu að uppátækjum þeirra bræðra þegar Biggi hefur náð aftur krafti.

Guðbjörgu þökkum við ómetanlega samfylgd með Bigga, þökkum umhyggju hennar og aðstoð í baráttunni og við sendum okkar hlýjustu samúðarkveðjur á alla fjölskylduna.

Góða ferð elsku bróðir og takk fyrir samfylgdina.

Brynjólfur Bjarnason.

Það var árið 2005 sem Birgir Bjarnason hóf störf sem framkvæmdastjóri Handknattleiksfélags Kópavogs, HK. Það var mikil gæfa fyrir félagið að fá að njóta starfskrafta hans gegnum mikið breytingaskeið hjá félaginu næstu 15 árin. Það er ekki auðvelt að vera framkvæmdastjóri í stóru íþróttafélagi þar sem margir sjálfboðaliðar starfa og þar naut hann sín vel. Það má fullyrða að hans sýn hafi verið að ef fjármálin væru ekki í lagi þá væri ekkert í lagi. Þeirri skoðun deildum við fullkomlega að það væri betra að sníða sér stakk eftir vexti en fara fram úr sér í útgjöldum. Honum tókst einstaklega vel að halda mörgum boltum á lofti á sama tíma, í stækkandi félagi þar sem meiri aga við stjórnun var krafist, nokkuð sem tók tíma að innleiða án þess að hefta störf sjálfboðaliða. Á öllum þessum árum áttum við frábært samstarf, okkur varð nánast aldrei sundurorða þótt við værum báðir þverir og ákveðnir. Gagnkvæm virðing og vinskapur ríkti alltaf okkar á milli. Við deildum sameiginlegu áhugamáli í gólfinu sem þau hjónin stunduðu af miklu kappi. Við spiluðum alltaf nokkra hringi saman á hverju sumri og það varð alltaf að vera eitthvað til að keppa um, þetta var grafalvarlegur leikur, en alltaf líka eitthvert sprell og grín í gangi. Enda var Birgir mikill húmoristi af guðs náð með svo jákvæða og rétta sýn á þau verkefni sem við vorum að fást við. Ég mun sakna dýrmætrar vináttu einstaks ljúflings.

Elsku Guðbjörg og fjölskylda, við í HK biðjum góðan Guð að gefa ykkur styrk á þessum erfiðu tímum.

Sigurjón Sigurðsson,
fv. formaður HK.