„Við Íslendingar erum rosalega öflug í að búa til frábærar vörur og ná árangri innanlands en mörg fyrirtæki lenda á vegg þegar þau ætla sér að vaxa erlendis,“ segir Ómar spurður um rekstrarumhverfið.
„Við Íslendingar erum rosalega öflug í að búa til frábærar vörur og ná árangri innanlands en mörg fyrirtæki lenda á vegg þegar þau ætla sér að vaxa erlendis,“ segir Ómar spurður um rekstrarumhverfið. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Eftir átta ánægjuleg ár hjá Meniga hefur Ómar Örn gengið til liðs við gagnadrifnu markaðsstofuna Digido. Þar gegnir hann hlutverki framkvæmdastjóra vaxtar en starfið felur í sér að hjálpa fyrirtækjum að auka tekjur og hagræða í rekstri með öllum mögulegum leiðum

Eftir átta ánægjuleg ár hjá Meniga hefur Ómar Örn gengið til liðs við gagnadrifnu markaðsstofuna Digido. Þar gegnir hann hlutverki framkvæmdastjóra vaxtar en starfið felur í sér að hjálpa fyrirtækjum að auka tekjur og hagræða í rekstri með öllum mögulegum leiðum.

Hverjar eru helstu áskoranirnar í rekstrinum þessi misserin?

Stundum er sagt að þegar samdráttur verður í efnahagslífinu þá séu markaðsstofur og auglýsingastofur með þeim fyrstu sem líða fyrir, þegar fyrirtæki draga saman í markaðsmálum. Við höfum hins vegar blessunarlega ekki fundið fyrir því og í raun höfum við aldrei fundið fyrir meiri eftirspurn eftir okkar þjónustu. Við eigum í nánu samstarfi við viðskiptavini okkar og það sem við leggjum gríðarlega mikið upp úr er að sýna árangur af markaðsstarfi með gögnum. Það breytir öllu þegar fyrirtæki eru að íhuga að draga saman seglin í markaðsstarfi að taka upplýstar ákvarðanir og oftar en ekki geta verið gríðarleg tækifæri í mjög vel útfærðum herferðum á meðan samkeppnin setur allt á ís.

Hvaða hugsuður hefur haft mest áhrif á hvernig þú starfar?

Í mínum geira er náungi sem heitir Chris Walker. Hann hefur ekki gefið út neina bók svo ég viti en hann stýrir einni farsælustu markaðsstofu í heiminum og heldur úti hlaðvarpi sem ég missi ekki af. Hann hefur tekið mikið af gömlum hugmyndum um markaðsfræði, afneitað þeim í nútímaheimi og komið með sínar eigin kenningar sem ég hef verið mjög hrifinn af, ekki síst hvað varðar að nota gögn til að mæla árangur og taka ákvarðanir. Eitt af því áhugaverðasta sem hann hefur kennt mér er mikilvægi þess að vera með sterka skoðun eða sjónarhorn (e. point of view) á því sem þú ert að gera, ekki síst sem fyrirtæki. Ef fyrirtæki er með sterkt sjónarhorn sem það trúir á, þá smitast það inn á við til starfsfólksins og út á við til þeirra viðskiptavina sem deila þeirri skoðun.

Hvernig heldurðu þekkingu þinni við?

Ég hef komist að því að það hentar mér mjög vel að taka á móti efni í gegnum eyrun. Þannig að ég hlusta á hlaðvarp á hverjum degi, horfi á myndskeið eða heimildarmyndir og svo auðvitað les ég líka einhverjar bækur og sæki viðburði.

Hugsarðu vel um líkamann?

Ég reyni yfirleitt að ganga eitthvað eða hjóla á hverjum degi. Ég fer svo iðulega á kvöldin í annaðhvort sjósund eða bara venjulegt sund og syndi ágætlega áður en ég planta mér í pottinn. Það kemur svo fyrir að ég hoppa með vinnunni í hóptíma í Afreki þar sem maður er keyrður út í klukkutíma. Svo reynir maður auðvitað að borða hollt. Ég hef verið að vinna með það að fasta og reynt ýmsar tímalengdir. Það hefur yfirleitt verið gert til að losna við þreytu og hámarka einbeitingu, sérstaklega á vinnutíma. Ég reyni því alltaf að borða létt eða fasta yfir vinnutíma og á það svo til að hakka í mig stóra máltíð í kvöldmat. Þetta hefur bara virkað þrusuvel fyrir mig hvað varar orku, einbeitingu og svefn.

Hvaða kosti og galla
sérðu við rekstrarumhverfið?

Kostirnir við rekstrarumhverfið á Íslandi eru margir. Gríðarlega mikið er af öflugu og vel menntuðu fólki og við erum tæknivædd þjóð sem hefur áhuga á nýjungum, auk þess að boðleiðir geta verið stuttar. Þar af leiðandi getur verið mjög gagnlegt fyrir fyrirtæki að nota Ísland sem prufumarkað fyrir t.d. vöru og þjónustu áður en hún er send út í heim. Það er svo ótrúlega mikið af spennandi
fyrirtækjum og hugviti að krauma á Íslandi í dag með góð tækifæri til að vaxa út fyrir landsteinana. Við Íslendingar erum rosalega öflug í að búa til frábærar vörur og ná árangri innanlands en mörg fyrirtæki lenda á vegg þegar þau ætla sér að vaxa erlendis.

Gallarnir við rekstrarumhverfið eru t.d. að það getur verið erfitt að manna ákveðnar sérfræðistöður og svo auðvitað er Ísland takmarkað að stærð rekstrarlega og þegar markaðurinn er mettur sölulega séð fyrir fyrirtæki og þegar fyrirtæki ætla að vaxa út fyrir landsteinana getur það verið mjög flókið að ná inn á markaði erlendis af ýmsum ástæðum, svo sem út af annars konar vinnumenningu, regluverki og svo bara kostar peninga að læra, gera mistök og ná árangri í sölu- og markaðsstarfi á nýjum mörkuðum. Það eru mörg fyrirtæki sem hafa gert vel eins og t.d. CCP, Meniga, Men & Mice, Nox Medical og Grid. Góðu fréttirnar eru þær að við erum að sjá sjóði fjárfesta meira og meira í íslensku hugviti og nýsköpunarstarfsemi.

Ævi og störf:

Nám: Stúdentspróf frá Verzlunarskóla Íslands 2005 með skiptinámi við Waterton High School í Wisconsin 2001 til 2002; BSc í fjármálaverkfræði frá Háskólanum í Reykjavík 2008; próf í verðbréfaviðskiptum frá sama skóla 2010; stjórnunargráða á sviði stafrænnar markaðssetningar frá Columbia Business School 2020.

Störf: Sérfræðingur hjá Fjármálaeftirlitinu 2008 til 2013; viðskiptastjóri hjá Creditinfo 2013; ráðgjafi á fyrirtækjasviði Deloitte í Zürich 2013 til 2014; markaðsstjóri Meniga 2014 til 2022; framkvæmdastjóri vaxtar hjá Digido frá 2023.

Áhugamál: Ég elska bíómyndir og legg mig fram við að fara í bíó reglulega með vinum mínum og lifa mig almennilega inn í þær. Erum nýbúnir að sjá Villibráð og hlæja á okkur gat og svo sáum við The Whale þar sem við sátum eftir með tárvot augun. Ég er einnig mikill áhugamaður um sjósund. Ég bý í Skerjafirðinum og rölti ósjaldan eftir vinnu niður í fjöru eða út í Nauthólsvík og tek góða dýfu. Á þessum árstíma er hann sérstaklega kaldur og góður.