Ísland þykir hafa komið nokkuð vel undan „kórónuvetrinum“ og velta í viðskiptahagkerfinu er orðin meiri en hún var fyrir faraldurinn ægilega. Þó hefur stríðsrekstur Rússa í Úkraínu í upphafi síðasta árs með tilheyrandi frosti á mörkuðum…

Sviðsljós

Dóra Ósk Halldórsdóttir

doraosk@mbl.is

Ísland þykir hafa komið nokkuð vel undan „kórónuvetrinum“ og velta í viðskiptahagkerfinu er orðin meiri en hún var fyrir faraldurinn ægilega. Þó hefur stríðsrekstur Rússa í Úkraínu í upphafi síðasta árs með tilheyrandi frosti á mörkuðum og erfiðum aðfangakeðjum haft áhrif á bæði verðbólgu og verðlag í landinu. Ríkissjóður er orðinn talsvert magur eftir gífurlegar viðbragðsaðgerðir með tilheyrandi fjárútlátum til samfélagsins, enda veit hvert mannsbarn að ekkert er ókeypis í þessari veröld.

450 milljarðar

Í skýrslu sem fjármála- og efnahagsráðuneytið birti í gær er farið yfir aðgerðir stjórnvalda þegar ljóst var hvert stefndi. Enginn vissi hversu lengi þetta ástand myndi vara og hvort þjóðfélagið færi hreinlega á hliðina með hrinu gjaldþrota og atvinnumissis. Stjórnvöld fóru svipaða leið og nágrannaríkin og ákváðu að dæla peningum inn í hagkerfið til að reyna að stuðla að því að fyrirtæki gætu haldið uppi framleiðni í þjóðfélaginu og haft fólk áfram í vinnu. Það kostaði sitt, því 450 milljarðar króna voru nýttir í mótvægisaðgerðirnar á árunum 2020-2022, eða 4,5% af landsframleiðslu þessara ára. Það sem gerði þetta mögulegt var góð staða ríkissjóðs þegar áfallið dundi á, en ekki er hægt að neita hallanum á ríkissjóði sem fylgdi í kjölfarið og er sá annar mesti í sögu lýðveldisins.

Heilbrigði og uppbygging

Stærsta fjárframlagið fór í fjárfestingar- og uppbyggingarátak þar sem fjárfest var í rannsóknum og nýsköpun, uppbyggingu stafrænna innviða, orkuskiptum og umhverfismálum auk fleiri aðgerða eins og byggingaframkvæmda og mannvirkjagerðar. Markmiðið var að auka eftirspurn eftir vinnuafli, auka framleiðni og þannig hagvaxtargetu samfélagsins til lengri tíma. Alls hafa farið 75 milljarðar til átaksins, sem mun standa yfir til 2025. Næst kemur heilbrigðiskerfið sem fékk aukafjármagn upp á 60,3 milljarða á árunum 2020-2022 sem að mestu fór í aukinn rekstrarkostnað vegna þungans í kerfinu vegna álagsins, en einnig í umfangsmikið skimunarstarf, bólusetningar og kaup á bóluefni.

Ýmsar aðgerðir voru notaðar í þeim tilgangi að styrkja bæði fyrirtæki og almenning í faraldrinum, svo sem beinir styrkir, ríkistryggð lán, hlutabætur, ráðningarstyrkir og frestun skattgreiðslna. Reynt var að mæta launakostnaði með hlutabótaleiðinni, þar sem starfsmenn fengu frá ríkinu atvinnuleysisbætur til að fylla upp í fullt starfshlutfall sem lækkaði launakostnað fyrirtækjanna. Nær helmingur hlutabótaleiðarinnar fór til starfsmanna ferðaþjónustunnar, en alls voru greiddir 28 milljarðar til u.þ.b. 36.500 einstaklinga hjá 4.550 fyrirtækjum.

Faraldurinn lagðist misþungt á atvinnugreinar og beinir styrkir voru mestir til greina eins og ferðaþjónustunnar og veitingageirans. Samkomutakmarkanir komu sérstaklega mikið niður á þessum greinum og þrátt fyrir að mikil uppsveifla hafi verið á síðasta ári eiga báðar greinarnar enn talsvert í land að ná fyrri styrk. Sérstaklega hafa veitingamenn talað um að erfitt hafi verið að ráða starfsfólk til að mæta auknum ferðamannafjölda síðasta árs.

Í skýrslunni er talið að uppgangur í íslensku þjóðfélagi sem strax hófst á árinu 2021 sé þessum aðgerðum stjórnvalda að þakka og Ísland kemur vissulega vel út í samanburði við nágrannalöndin. Þó er bent á að of snemmt sé að meta jafn víðtækar aðgerðir og stjórnvöld lögðust í fyrr en tíminn hefur gefið nægilega yfirsýn.

EES-samningurinn

Tímabundin undanþága

EES-samningurinn kveður á í 2. kafla 61. gr. um að eigi megi veita ríkisaðstoð til fyrirtækja sem gæti raskað samkeppni á Evrópska efnahagssvæðinu. Vegna faraldursins voru veittar undanþágur frá þessu ákvæði og féllu lög um lokunar-, tekjufalls-, viðspyrnu- og veitingahúsastyrki undir tímabundinn aðstoðarramma ríkisins auk ferðagjafarinnar sem var aukastuðningur til veitingageirans eða ferðaþjónustunnar. Undanþágan var framlengd þrisvar og aukið við hámarksviðmið stuðnings ríkisins í hvert skipti, en hún var felld úr gildi 30. júní 2022. Tekjufallsstyrkjum var ætlað að styðja rekstraraðila sem höfðu orðið fyrir tímabundnu tekjufalli og viðspyrnustyrkurinn var framhald þeirrar aðstoðar. Veitingastyrkur bættist þar ofan á sem úrræði fyrir þá sem höfðu orðið fyrir tekjutapi vegna takmarkana á afgreiðslutíma frá desember 2021 til mars 2022.