Fögnuður Arnór Snær Óskarsson og Agnar Smári Jónsson höfðu ríka ástæðu til að fagna í gærkvöldi.
Fögnuður Arnór Snær Óskarsson og Agnar Smári Jónsson höfðu ríka ástæðu til að fagna í gærkvöldi. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Valsmenn gerðu sér lítið fyrir og unnu níu marka sigur á sterku liði Aix er liðin mættust á Hlíðarenda í níundu og næstsíðustu umferð B-riðils Evrópudeildar karla í handbolta í gærkvöldi. Aix hefur síðustu ár verið á meðal bestu liða Frakklands, en…

Á Hlíðarenda

Jóhann Ingi Hafþórsson

johanningi@mbl.is

Valsmenn gerðu sér lítið fyrir og unnu níu marka sigur á sterku liði Aix er liðin mættust á Hlíðarenda í níundu og næstsíðustu umferð B-riðils Evrópudeildar karla í handbolta í gærkvöldi. Aix hefur síðustu ár verið á meðal bestu liða Frakklands, en Valsmenn léku á als oddi og fögnuðu sannfærandi 40:31-sigri.

Með sigrinum tryggði Valur sér sæti í 16-liða úrslitum, þótt ein umferð sé eftir, sem er stórkostlegt afrek í sterkum B-riðli.

Fögnuðu að dragast með Val

Þegar dregið var í riðla í október fögnuðu forráðamenn hinna liðanna sennilega þegar þau drógust með litla liðinu frá Íslandi. Hér á Íslandi fögnuðu stuðningsmenn Vals því að fara í skemmtilega útileiki í Suður-Frakklandi, Benidorm og auðvitað Flensburg, sem er eitt stærsta lið Þýskalands.

Fáir ræddu hins vegar möguleikann á að fara áfram og hvað þá að tryggja sætið þegar ein umferð væri enn eftir. Róbert Aron Hostert, leikmaður Vals, sagði t.a.m. í samtali við Morgunblaðið eftir dráttinn að Valsmenn ætluðu sér ekki að vera neitt fallbyssufóður í riðlinum, en fór annars sparlega í yfirlýsingar. Valsmenn gátu lítið annað en stokkið í djúpu laugina og er óhætt að segja að þeir hafi haldið sér á floti og vel rúmlega það.

Frammistaðan í gær, þegar allt var undir, var stórbrotin. Hvergi var veikan blett að finna hjá Valsmönnum. Fremstir á meðal jafningja voru Björgvin Páll Gústavsson, sem átti einn af sínum bestu leikjum í langan tíma, þótt hann hafi átt ansi marga góða leiki í Valstreyjunni, og Stiven Tobar Valencia. Þeir léku einstaklega vel saman í gær og er ljóst að Stiven á heima í íslenska landsliðinu, því hann er orðinn ofboðslega góður og búinn að standa sig gríðarlega vel í Evrópudeildinni.

Þá hélt hann landsliðsmanninum Kristjáni Erni Kristjánssyni algjörlega í skefjum með hörðum en sanngjörnum varnarleik. Kristján væri frekar til í að hafa hann sem samherja með sér í landsliðinu en að spila mikið oftar við hann.

Spennustig Valsmanna var fullkomið og þeir báru enga virðingu fyrir atvinnumönnunum fyrir framan sig, með magnaða stuðningsmenn á bakinu. Þá spilaði Valsliðið gríðarlega hraðan, skemmtilegan og ekki síst árangursríkan sóknarleik og réðu þungir leikmenn gestanna ekkert við þá. Stundum hefur Valur hægt á sóknarleiknum í riðlinum og þeir leikir farið illa. Þegar hann gengur vel eru einfaldlega fá lið sem geta stöðvað Valslestina. Þá léku Valsmenn mjög góða vörn, stigu vel í sterka og þunga leikmenn Aix og létu þá finna fyrir sér, án þess þó að vera grófir. Aix-menn hörfuðu og Valur gekk á lagið.

Geta náð öðru sæti

Lokaleikur Vals í riðlinum er gegn sænska liðinu Ystad á útivelli næstkomandi þriðjudag. Vinni Valsmenn með minnst fjögurra marka mun, taka þeir annað sæti riðilsins, sem væri ótrúlegur árangur. Það skiptir máli í hvaða sæti Valsmenn lenda í, því þeir mæta andstæðingi úr A-riðli. Endi Valsmenn í öðru sæti mæta þeir Óðni Þór Ríkarðssyni og félögum í svissneska liðinu Kadetten, en Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfar liðið. Fari svo að Valur endi í þriðja sæti mætir liðið væntanlega Göppingen frá Þýskalandi, en verði fjórða sætið niðurstaðan bíður Valsmanna væntanlega franska stórliðið Montpellier.

Þótt Kadetten sé sterkt lið á Valur meiri möguleika þar en á móti liði í efstu deild Þýskalands, eða stórliði frá Frakklandi. Það getur því verið dýrmætt að enda í öðru sæti. Valur sýndi þó í gær að liðið getur unnið flest lið á sínum besta degi og þarf engan að óttast í útsláttarkeppninni.

Höf.: Jóhann Ingi Hafþórsson