Kjaradeila Samtök atvinnulífsins hafa efnt til atkvæðagreiðslu um allsherjarverkbann á félagsmenn Eflingar.
Kjaradeila Samtök atvinnulífsins hafa efnt til atkvæðagreiðslu um allsherjarverkbann á félagsmenn Eflingar. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Stefánsson steinthors@mbl.is Formenn þriggja verkalýðsfélaga segja reglugerðir félaganna gera ráð fyrir því að vinnudeilusjóðir taki hvort tveggja til verkfalls og verkbanns. „Verkfall og verkbann er einn og sami hluturinn,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.

Steinþór Stefánsson

steinthors@mbl.is

Formenn þriggja verkalýðsfélaga segja reglugerðir félaganna gera ráð fyrir því að vinnudeilusjóðir taki hvort tveggja til verkfalls og verkbanns. „Verkfall og verkbann er einn og sami hluturinn,“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness.

„Eins og kjaradeilur eru þá þurfa verkalýðsfélögin yfirleitt að sækja á fyrir bætt kjör og hafa til þess verkfallsheimildir. Atvinnurekendur hafa verkbannsheimild sem hefur aðallega hingað til verið hugsuð sem varnarviðbragð,“ segir Magnús M. Norðdahl, sérfræðingur á sviði alþjóða- og vinnumarkaðsmála hjá ASÍ, um vinnudeilu Eflingar og Samtaka atvinnulífsins (SA), en SA hefur efnt til allsherjaratkvæðagreiðslu um verkbann á félagsmenn í Eflingu.

Að sögn Magnúsar hefur verkbanni yfirleitt verið beitt með þeim hætti að ef hluti starfsmanna fyrirtækis fer í verkfall og aðrir starfsmenn sem það nær ekki til geta ekkert gert, þá er hægt að setja á verkbann.

„Það má nefna bát sem fer út á sjó og hluti áhafnarinnar fer í verkfall. Þá ferð þú ekkert út á sjó ef þú ert ekki með lögskipaða áhöfn. Þá er beitt verkbanni. En verkbann til að þrýsta á kröfur líkt og virðist vera núna, ég kannast ekki við það,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið.

Aðspurður segir hann að reglugerðir um vinnudeilusjóði aðildarfélaga ASÍ og hvernig verja skuli fé þeirra séu ekki samræmdar samkvæmt lögum ASÍ.

„Sumir birta reglugerðir sínar á vefnum og það á t.d. við um VR. Þar kemur skýrt fram að vinnudeilusjóðnum sé ætlað að greiða bætur til félagsmanna bæði í verkföllum og verkbönnum því að hvort tveggja eru vinnudeilur. Vinnudeilusjóður Eflingar er sérsjóður þess félags og starfar samkvæmt reglugerð sem er samþykkt á aðalfundi félagsins. Ég hef hana ekki undir höndum og hún er ekki á vefnum.“

Ætlað pólitískt hlutverk

Magnús segir stöðuna í vinnudeilu Eflingar og SA vera flókna. „Hvort henni er ætlað eitthvert pólitískt hlutverk, það grunar mann nú,“ segir hann.

„Utan frá séð lítur þetta þannig út að verið sé að reyna að búa til þær aðstæður að stjórnvöld hafi meiri ástæðu til að bregðast við en þau hafa ef umfangið er minna.“

Aðspurður segir hann að ekki sé hægt að beita lögum á slíkar deilur á grundvelli efnahagslegra forsendna. Hagsmunir þurfi að vera í húfi sem ógna heilbrigði og lífi borgaranna. Þó eru til dæmi um slíkt.

„Þetta hefur því miður íslenska ríkið gert nokkrum sinnum. Síðast var þetta gert á deilu sjómanna og rök íslenska ríkisins voru efnahagsleg, fyrst og fremst.

Þetta var kært til Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem snupraði íslensk stjórnvöld fyrir að brjóta á grundvallarréttindum verkalýðshreyfinga með lagasetningu sem var fyrst og fremst rökstudd og byggð á efnahagslegum hagsmunum en ekki vegna þess að um hafi verið að ræða ógn við líf og öryggi borgaranna. Þannig að heimildir Alþingis í þessu efni eru mjög þröngar,“ segir hann og bætir við að í fyrirliggjandi deilu virðist ekki vera uppi þær aðstæður sem gætu réttlætt afskipti ríkisins.

„Mér sýnist þó hið pólitíska markmið vera það að búa til einhvers konar ástand.“

Verkfall og verkbann einn og sami hluturinn

Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness og formaður Starfsgreinasambands Íslands, segir að í reglugerð félagsins um vinnudeilusjóð komi fram að „tilgangur sjóðsins er að styrkja fullgilda félagsmenn er standa í verkfalli sem félagið á aðild að, eða verkbönnum boðuðum af atvinnurekendum á félagssvæðinu og hljóta af því launatap.“

Hann segir í samtali við Morgunblaðið að hann telji að framangreint ákvæði sé að finna hjá flestum verkalýðsfélögum. „Verkfall og verkbann er einn og sami hluturinn. Við gerum engan greinarmun á því.“ Spurður hvort það sé sérkennilegt að gera greinarmun á verkfalli og verkbanni segir hann að í lögum um stéttarfélög og vinnudeilur komi fram réttur launþega til að fara í verkföll sem og heimild atvinnurekenda til að beita verkbanni. „Okkar félagsmenn verða því að vera tryggðir fyrir því ef til slíks kemur,“ segir hann.

Veita fjárhagsaðstoð

Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, segir að í reglugerð um vinnudeilusjóð félagsins sé skýrt tekið fram að tilgangur sjóðsins sé að veita félagsmönnum VR, sem missa atvinnutekjur vegna vinnustöðvunar eða verkbanns, fjárhagsaðstoð, eftir því sem hagur sjóðsins leyfir hverju sinni.

Spurður hvort það sé ekki slæmt ef félagsmönnum verkalýðsfélags séu ekki veitt framangreind réttindi ef um verkbann sé að ræða segir hann ómögulegt að svara því. „Ef við værum í þeirri stöðu sjálf, þá gefur auðvitað auga leið að ef greitt er úr vinnudeilusjóði í allsherjarverkföllum þá dugar hann skammt. Þess vegna hafa félögin farið í tilteknar aðgerðir sem ná til stærri hópa sem hafa þá meiri áhrif og þá minni áhrif á stöðu verkfallssjóða. Ef VR myndi greiða öllum félagsmönnum sem telja hátt í 40 þúsund, þá myndi sjóðurinn okkar duga skammt. Það væru ekki nema nokkrir dagar,“ segir hann í samtali við Morgunblaðið.

Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar, segir reglugerð félagsins gera ráð fyrir verkföllum og verkbanni. „Ég held að þetta sé mjög víða.“