Frá doktorsvörninni Frá vinstri: Sigurður Gylfi Magnússon, Sverrir Jakobsson, Ágústa Edwald Maxwell, Anna Heiða Baldursdóttir, Christina Folke Ax, Ólöf Garðarsdóttir, Anna Lísa Rúnarsdóttir og Sigurjón B. Hafsteinsson.
Frá doktorsvörninni Frá vinstri: Sigurður Gylfi Magnússon, Sverrir Jakobsson, Ágústa Edwald Maxwell, Anna Heiða Baldursdóttir, Christina Folke Ax, Ólöf Garðarsdóttir, Anna Lísa Rúnarsdóttir og Sigurjón B. Hafsteinsson. — Ljósmynd/Gunnar Sverrisson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Steinþór Guðbjartsson steinthor@mbl.is Fyrr í mánuðinum var Borgfirðingurinn Anna Heiða Baldursdóttir, sérfræðingur á Landbúnaðarsafni Íslands á Hvanneyri, valin í kvennalandsliðið í brids í fyrsta sinn og skömmu síðar varði hún doktorsritgerð í sagnfræði. „Þessi áhugamál fara vel saman,“ segir hún.

Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Fyrr í mánuðinum var Borgfirðingurinn Anna Heiða Baldursdóttir, sérfræðingur á Landbúnaðarsafni Íslands á Hvanneyri, valin í kvennalandsliðið í brids í fyrsta sinn og skömmu síðar varði hún doktorsritgerð í sagnfræði. „Þessi áhugamál fara vel saman,“ segir hún.

Í barnaskóla heillaðist Anna Heiða af sagnfræði og því sem henni tengist. „Ég fékk strax áhuga á sögu í grunnskóla og í fjölbrautaskóla valdi ég alla söguáfangana en þaðan lá leiðin beint í sagnfræði í Háskóla Íslands.“

Doktorsritgerð Önnu Heiðu nefnist Hlutir úr fortíð: Eigur fólks og safngripir frá 19. öld. Leiðbeinandi hennar var Sigurður Gylfi Magnússon, prófessor við deild heimspeki, sagnfræði og fornleifafræði. Ritgerðin fjallar um hversdagslíf alþýðunnar á 19. öld út frá rannsókn á efnismenningu dánarbúsuppskrifta og safnkosts Þjóðminjasafnsins frá sama tíma. Aðferðin er nýstárleg og Anna Heiða leggur áherslu á mikilvægi þess að greina hluti út frá mörgum sjónarhornum. „Mikilvægt er að nota ólíkar heimildir til þess að skoða fortíðina,“ segir hún.

Rúman áratug í bridsi

Baldur Björnsson, faðir Önnu Heiðu, hefur lengi spilað brids og kom dótturinni inn á sömu braut 2012. „Hann hringdi í mig og spurði hvort ég væri upptekin um kvöldið. Ég sagði nei og þá sagði hann mér að fara með bróður mínum á bridsnámskeið í Borgarnesi, því það vantaði eitt par. Við gerðum það og féllum strax fyrir bridsinu, sem hefur fylgt okkur síðan.“

Við tók regluleg spilamennska í Logalandi en Anna Heiða segir að covid hafi sett stórt strik í reikninginn. „Þá var ekkert spilað og mér þótti ekki gaman að spila á netinu þótt netspilamennska hafi bjargað því sem bjargað varð á þeim tíma.“ Eftir að hjólin tóku að snúast á ný hafi bridsarar haldið uppteknum hætti í Logalandi auk þess sem hópur fólks í Borgarfirði hafi verið duglegur að fara til Reykjavíkur til að spila.

Í fyrrahaust var nýju átaki í landsliðsmálum ýtt úr vör og æfingahópar karla og kvenna valdir. Anna Heiða segir að í október hafi þær Inda Hrönn Björnsdóttir, sem hafi ekki þekkst áður, byrjað að spila saman, þær verið par á nýafstaðinni Bridshátíð sem og í landakeppni Íslands, Danmerkur og Bandaríkjanna. Í kjölfarið hafi þær síðan verið valdar ásamt öðru pari, Maríu Haraldsdóttur Bender og Hörpu Fold Ingólfsdóttur, til að spila fyrir Íslands hönd á Norðurlandamótinu í Örebro í Svíþjóð í sumar. „Okkur Indu hefur gengið ljómandi vel þrátt fyrir að hafa ekki spilað lengi saman,“ segir Anna Heiða.

„Þetta hefur gengið mjög hratt fyrir sig en við erum mjög metnaðarfullar og skipulagðar.“ Ótrúlega gaman sé að vera í landsliðinu og fá tækifæri til að fá leiðsögn hjá bestu spilurum landsins. „Brids og sagnfræði er áhugaverð sameining og ég er mikið spurð um sagnfræði í bridsinu og brids í sagnfræðinni.“