Fjölskyldan Ragna ásamt fjölskyldu sinni, foreldrum sínum og fjölskyldu bróður síns á 70 ára afmæli föður síns.
Fjölskyldan Ragna ásamt fjölskyldu sinni, foreldrum sínum og fjölskyldu bróður síns á 70 ára afmæli föður síns.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ragna Björg Ingólfsdóttir fæddist 22. febrúar 1983 í Reykjavík og ólst upp í Laugardalnum. Hún hóf að æfa badminton 8 ára gömul hjá Tennis- og badmintonfélagi Reykjavíkur og var líka í fimleikum en hætti í þeim þrettán ára

Ragna Björg Ingólfsdóttir fæddist 22. febrúar 1983 í Reykjavík og ólst upp í Laugardalnum.

Hún hóf að æfa badminton 8 ára gömul hjá Tennis- og badmintonfélagi Reykjavíkur og var líka í fimleikum en hætti í þeim þrettán ára. „Þetta voru orðnar svo margar æfingar að ég valdi badmintonið. Ég byrjaði í badminton af því TBR bauð öllum í 4. bekk í Langholtsskóla að æfa frítt í eitt ár. Bróðir minn, sem er þremur árum eldri en ég, var byrjaður að æfa og við bjuggum í Sólheimum svo þetta lá vel við. Við bróðir minn vorum mikið saman í þessu og ég græddi mikið á því.“

Ragna gekk í Langholtsskóla 1988, en hún var einu ári á undan í skóla og varð stúdent frá Menntaskólanum við Sund af tungumálabraut 2002. Hún lauk BA-námi í heimspeki með sálfræði sem aukagrein frá Háskóla Íslands 2009.

Ragna var atvinnumaður í badminton 2002-2012 en varð Íslandsmeistari fyrst árið 2003. „Ég var þá búin að vera í úrslitum þrjú ár í röð, frá því að ég var 16 ára. Ég var búin að vinna öll mót og verið best en átti alltaf í erfiðleikum með Íslandsmótið. Svo ákvað ég að taka andlega þáttinn í gegn, fékk hjálp frá íþróttasálfræðingi og þá gekk þetta upp. Svo nýtti ég mér andlegu æfingarnar allan ferilinn.“ Ragna vann Íslandsmótið í einliðaleik 9 sinnum, oftast kvenna, og á samtals 21 Íslandsmeistaratitil í meistaraflokki.

Frá árinu 2002 ferðaðist Ragna um allan heim og keppti á alþjóðlegum badmintonmótum til þess að koma sér upp heimslistann í badminton. Hún var í 10 ár á meðal fremstu badmintonkvenna í heimi í einliðaleik, á topp 10 í Evrópu og komst hæst í 37. sæti í heiminum og hélt sér á topp 50 mest allan ferilinn. Hún spilaði á fjölmörgum heimsmeistara- og Evrópumótum á ferlinum og náði best í 16 liða úrslit í einliðaleik á Evrópumóti. Hún spilaði í dönsku badmintondeildinni fyrir Horsens Badmintonklub og Aalborg Triton. Hún vann fimm opin alþjóðleg mót á ferlinum. Ragna var kjörin Íþróttamaður Reykjavíkur árið 2007.

Hún vann sér tvisvar sinnum rétt til þátttöku á Ólympíuleikum, 2008 í Beijing og 2012 í London. Hún var fyrsta íslenska badmintonkonan til að vinna leik á Ólympíuleikum, það gerðist á Ólympíuleikunum í London. Hún tapaði síðan fyrir keppanda sem var á topp 5 í heiminum. Þar með var Ragna úr leik og endaði hún í 17.-32. sæti.

„Ég setti mér markmið, 13 ára að komast á Ólympíuleikana, og reyndi að komast á Ólympíuleikana 2004 og það var mikil reynsla og skóli að komast ekki inn á þá. Ég var enn ákveðnari að komast á Ólympíuleikana 2008 og síðan að enda ferilinn á Ólympíuleikunum 2012. Mér fannst ég vera búin að ná öllum markmiðum mínum þá, var að nálgast þrítugt og langaði að stofna fjölskyldu og lifa eðlilegra lífi.“

Þegar Ragna er spurð út í hverjir voru hennar helstu styrkleikar og veikleikar þá segir hún að það að hafa æft með strákum þegar hún var að alast upp hafi gert hana að sterkum sóknarspilara. „Ég var vön hröðu spili þrátt fyrir að vera hávaxin, en svo græddi ég líka mjög mikið á því að vera hávaxin. Andlegi þátturinn var líka styrkleiki, en ég tók hann vel í gegn. Varðandi veikleika þá var ég dálitið óheppin með meiðsli þegar leið á ferilinn og þurfti að vinna í kringum það.“

Ragna starfaði hjá Íþrótta- og Ólympíusambandi Íslands í sjö ár eftir íþróttaferilinn frá 2014-2021 sem verkefnastjóri kynningarmála. Hún hóf svo nám í heilsunuddi við Fjölbrautaskólann í Ármúla í janúar 2022 og lýkur námi í maí 2023. Hún lauk jógakennaranámi árið 2022. Hún starfar núna sem heilsunuddari og jógakennari.

„Ég vinn sjálfstætt sem heilsunuddari og er að klára mína 450 tíma sem þarf til að geta útskrifast og svo vinn á ég ýmsum stöðvum sem jógakennari. Ég nota alltaf annan hvorn dag til að nudda og hinn í jóga og það er fínn taktur fyrir mig. Þetta hentar mér betur en skrifstofustarf, ég vil vera á ferðinni og eiga í mannlegum samskiptum. Ég held ég sé búin að finna ágætis lífsviðurværi í þessu.“

Helstu áhugamál Rögnu tengjast starfinu og að rækta sál og líkama. „Ég elska íþróttir og þá sérstaklega að spila golf í góðra vina hópi. Maðurinn minn er golfkennari svo að ég hef notið góðs af því í minni iðkun. Ég elska göngutúra í náttúrunni, sundlaugaferðir, góðan mat og almenna vellíðan í góðum félagsskap.“

Fjölskylda

Eiginmaður Rögnu er Steinn Baugur Gunnarsson, f. 10.9. 1984, íþróttastjóri Nesklúbbsins og PGA golfkennari. Þau eru búsett á Seltjarnarnesi. Foreldrar Steins: Helga Guðmundsdóttir, f. 3.2. 1957, fjármálastjóri, búsett á Seltjarnarnesi, og Gunnar Albert Hansson, f. 10.8. 1957, d. 8.8. 2004, byggingafræðingur. Núverandi maki Helgu er Árni Vilhjálmsson, f. 4.11. 1962, lögmaður. Þau giftust árið 2013.

Börn Rögnu og Steins eru Máni Gunnar Steinsson, f. 7.6. 2013, og Saga Karitas Steinsdóttir, f. 10.1. 2016.

Bróðir Rögnu er Ingólfur Ragnar Ingólfsson, f. 14.5. 1980, kírópraktor, búsettur í Garðabæ.

Foreldrar Rögnu eru Guðbjörg Kristín Kristinsdóttir, f. 30.12. 1955, bankastarfsmaður, og Ingólfur Ragnar Ingólfsson, f. 6.8. 1949, húsasmíðameistari. Þau hafa verið gift frá 1980 og eru búsett í Reykjavík.