Fjármálafyrirtækjum hefur verið gert að greiða sektir vegna duldra kaupaukagreiðslna.
Fjármálafyrirtækjum hefur verið gert að greiða sektir vegna duldra kaupaukagreiðslna. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Íslenskum fjármálafyrirtækjum er sniðinn töluvert þrengri stakkur en sambærilegum fyrirtækjum í Evrópu þegar kemur að árangurstengdum greiðslum, eða með öðrum orðum kaupaukum til starfsmanna sinna. Samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki mega…

Íslenskum fjármálafyrirtækjum er sniðinn töluvert þrengri stakkur en sambærilegum fyrirtækjum í Evrópu þegar kemur að árangurstengdum greiðslum, eða með öðrum orðum kaupaukum til starfsmanna sinna. Samkvæmt lögum um fjármálafyrirtæki mega kaupaukagreiðslur til starfsmanna ekki vera meiri en sem nemur 25% af föstum starfskjörum á ársgrundvelli. Í Evrópu er almennt leyfilegt hámark 100% af föstum starfskjörum, og hafa fyrirtæki heimildir til að hækka það hlutfall upp í allt að 200%, en þær reglur ná aðeins til lykilstjórnenda. „Takmarkanir á kaupaukum ættu einungis að ná til þeirra sem hafa marktæk áhrif á áhættustefnu fjármálafyrirtækja,“ segir Páll Edwald, yfirlögfræðingur Reir Verk, í samtali við ViðskiptaMoggann, en í meistararitgerð sinni fjallaði hann um kaupaukareglur á íslenskum fjármálamarkaði.

Breytt staða eftir hrun

Engar takmarkanir á kaupaukagreiðslum var að finna í íslensku regluverki fram til ársins 2010, þegar núgildandi takmarkanir voru settar. Í rannsóknarskýrslu Alþingis í kjölfar bankahrunsins kom fram að kaupaukakerfi íslensku bankanna hefði skapað óeðlilega hvata sem ýttu undir áhættuhegðun í rekstri. „Síðasta sumar var lagt fram frumvarp til breytinga á regluverki fjármálafyrirtækja, þar lagði starfshópur sem vann að gerð frumvarpsins til að reglurnar myndu aðeins ná til lykilmanna. En sú tillaga komst ekki að í meðförum þingsins,“ bætir Páll við og segir að hinar ströngu séríslensku reglur séu til þess fallnar að draga úr samkeppni um hæft starfsfólk við útlönd. „Fjármálafyrirtækin geta ekki með góðu móti keppt við starfskjör verðbréfamiðlara í nágrannalöndunum og fjármálafyrirtæki geta að litlu leyti leyft starfsfólki sínu að njóta góðs af því þegar vel gengur. Þannig hyglir regluverkið sjálfkrafa hluthöfum á kostnað starfsmanna.“

Arion einn með kaupaukakerfi

Hvorki Íslandsbanki né Landsbankinn eru með kaupaukakerfi fyrir starfsmenn sína í dag og krefjast breytingar á því kerfi samþykkis hluthafafundar. Arion banki er því einn viðskiptabankanna þriggja sem greiðir starfsmönnum sínum árangurstengd laun, samkvæmt síðasta ársreikningi námu kaupaukagreiðslur rúmum 1,2 milljörðum króna, sem eru 8% af heildarlaunakostnaði bankans á árinu.

Samkvæmt núgildandi starfskjarastefnu bankans er kaupaukakerfinu skipt í tvo hluta. Starfsmenn geta fengið allt að 10% af föstum launum sem kaupaukagreiðslu í peningum. Afmarkaður hópur getur fengið allt að 25% af föstum launum í formi hlutabréfa í bankanum. Lykilviðmið við ákvörðun um kaupauka miðast við hvort arðsemi eigin fjár sé hærri en vegin arðsemi helstu keppinauta bankans.

Duldir kaupaukar

Fjármálaeftirlitið (FME) hefur í nokkrum málum sektað fjármálafyrirtæki fyrir duldar kaupaukagreiðslur, sem hafa bæði verið í formi arðgreiðslna og viðbótargreiðslna. FME sektaði Arctica Finance um 72 m.kr árið 2017, en sektin lækkaði fyrir dómstólum niður í 24 milljónir króna. Fossar markaðir voru sektaðir árið 2020 um 10,5 milljónir vegna brota gegn reglunum. Sektarákvörðun FME var staðfest af Landsrétti í síðustu viku og herma heimildir ViðskiptaMoggans að Fossar muni una þeim dómi. Kvika greiddi 37,5 milljóna króna sekt á grundvelli sáttar við FME árið 2017, vegna arðgreiðslna sem töldust vera dulbúnir kaupaukar. Sama ár gerði Borgun sátt við FME og féllst á að greiða 11,5 milljónir í sekt vegna brota á reglum um kaupauka. Þá hafði fyrirtækið greitt öllum starfsmönnum 900.000 króna viðbótargreiðslu, þar á meðal starfsmönnum innra eftirlits.