Flókin deila Katrín Jakobsdótti ræðir við fréttamenn í Ráðherrabústaðnum eftir ríkisstjórnarfund í gær.
Flókin deila Katrín Jakobsdótti ræðir við fréttamenn í Ráðherrabústaðnum eftir ríkisstjórnarfund í gær. — Morgunblaðið/Kristinn Magnússon
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
„Við erum að fylgjast með stöðunni. Við gerum okkur fulla grein fyrir ábyrgð okkar sem ríkisstjórnar í landinu en ítrekum það – hér eftir sem hingað til – að enn þá er boltinn hjá samningsaðilum, þeirra hlutverk er að ná saman,“ sagði Katrín…

Hólmfríður María Ragnhildardóttir

Sólrún Lilja Ragnarsdóttir

„Við erum að fylgjast með stöðunni. Við gerum okkur fulla grein fyrir ábyrgð okkar sem ríkisstjórnar í landinu en ítrekum það – hér eftir sem hingað til – að enn þá er boltinn hjá samningsaðilum, þeirra hlutverk er að ná saman,“ sagði Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra að loknum ríkisstjórnarfundi í Ráðherrabústaðnum í gær. Þar var m.a. lagt fram yf­ir­lit yfir und­an­þágur sem veitt­ar hafa verið og rætt um mögu­leg áhrif verk­fallanna og hugs­an­legs verk­banns.

Aðspurð sagði hún ekki hafa komið til tals að ríkisstjórnin gripi inn í kjaradeiluna með nokkrum hætti en „ef áhrifin verða mikil á samfélagið þurfum við auðvitað að taka alla möguleika til skoðunar.“

Katrín var spurð hvort ekki yrði að leiða miðlunartillögu Aðalsteins Leifssonar ríkissáttasemjara til lykta áður en lengra er haldið. „Það er auðvitað þannig að dómur Landsréttar felur í sér að heimilt sé að leggja fram miðlunartillögu en hins vegar séu engin úrræði innan löggjafarinnar til að láta atkvæðagreiðslu fara fram um þá miðlunartillögu. Það hlýtur að vekja spurningar um hvort við þurfum ekki að fara yfir vinnulöggjöfina,“ sagði Katrín. Hún kvaðst ímynda sér að þetta atriði hefðu aðilar vinnumarkaðarins ekki endilega séð fyrir og ljóst að fara þyrfti yfir vinnulöggjöfina með þetta atriði í huga. Þá væri dómsmál nú í rekstri fyrir Félags­dómi og ekki vitað hve langan tíma tæki að fá niðurstöðu úr því. „Ég treysti mér ekki til að spá um hvernig það fer en við skulum átta okkur á að það gæti mögulega haft þær afleiðingar að Félagsdómur kæmist að þeirri niðurstöðu að það ætti að greiða atkvæði um miðlunartillöguna. [...] Þannig að þetta er bara svona, þetta er bara flókið,“ sagði Katrín.

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, sagði aðspurður eftir ríkisstjórnarfundinn, að lagasetning á kjaradeilur ætti að vera allra síðasta úrræðið sem á reyndi og sagan sýndi að Alþingi skipti sér ekki af slíkum deilum nema að það stafaði einhver ógn af stöðunni fyrir einhverja þætti samfélagsins. „En það hversu oft Alþingi hefur sett lög á aðgerðir á vinnumarkaði er til vitnis um það hversu vanþroskað vinnumarkaðsmódelið er á Íslandi og allt þetta sem er að gerast í tengslum við miðlunartillögu sáttasemjara dregur sömuleiðis fram mikla veikleika í íslenska vinnumarkaðsmódelinu sem er sjálfstætt áhyggjuefni og þarf að ræða,“ sagði Bjarni.