Fjarðabyggð Óánægja virðist vera með meirihlutann í bæjarstjórn.
Fjarðabyggð Óánægja virðist vera með meirihlutann í bæjarstjórn. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Íbúar í Fjarðabyggð bera flestir lítið traust til meirihluta Framsóknar og Fjarðalistans í bæjarstjórn, samkvæmt könnun sem Maskína gerði nýverið fyrir Sjálfstæðisflokkinn, sem er í minnihluta bæjarstjórnar

Íbúar í Fjarðabyggð bera flestir lítið traust til meirihluta Framsóknar og Fjarðalistans í bæjarstjórn, samkvæmt könnun sem Maskína gerði nýverið fyrir Sjálfstæðisflokkinn, sem er í minnihluta bæjarstjórnar.

Alls sögðust um 23% aðspurðra bera mikið traust til meirihlutans, en um 38% sögðust bera lítið eða ekkert traust til samstarfs Framsóknar og Fjarðalistans. Um 39% sögðu traust sitt vera í meðallagi.

Könnunin fór fram dagana 13. til 17. febrúar sl. meðal íbúa Fjarðabyggðar 18 ára og eldri. Úrtakið var 450 manns og þar af svöruðu 412 íbúar spurningunni um traustið.

Í könnuninni var einnig spurt út í fylgi flokkanna í bæjarstjórn og er niðurstaðan svipuð og í síðustu kosningum, í fyrravor. Fjarðalistinn fengi um 25% atkvæða, Framsókn tæp 28% og Sjálfstæðisflokkur tæp 40%. Vinstri grænir fengju 3,4%. Í kosningunum í fyrra fengu Sjálfstæðisflokkur 40,6%, Framsókn 30%, Fjarðalistinn 23,3% og Vinstri grænir 6,1%. Meirihluti Framsóknar og Fjarðalistans hélt velli, er samanlagt með fimm fulltrúa en sjálfstæðismenn í minnihluta bættu við sig tveimur. Aðrir flokkar komust ekki að. Í könnun Maskínu voru margir óákveðnir í afstöðu til flokkanna, ætluðu að skila auðu eða ekki kjósa, eða um 22% svarenda.

Fjarðabyggð komst í fréttirnar í byrjun vikunnar er Jón Björn Hákonarson bæjarstjóri sagði upp störfum sem slíkur, en hann hefur verið oddviti Framsóknar í bæjarstjórn.

Ragnar Sigurðsson, oddviti Sjálfstæðisflokksins, segist telja að viðhorf íbúa til meirihlutans endurspeglist í þeirri ákvörðun Jóns Björns að hætta störfum, þó að könnunin hafi verið gerð áður en hans ákvörðun lá fyrir. Könnunin sýni vel óánægju íbúa og vantraust þeirra í garð meirihlutans.

Ragnar segir Sjálfstæðisflokkinn hafa náð metárangri í síðustu kosningum, fengið fjóra fulltrúa. Ákveðið hafi verið að gera könnun á fylginu og hún staðfesti að niðurstaða kosninga var ekki einhver óvænt mæling á fylgi flokksins. Bendir Ragnar á að nú þurfi að ráða þriðja bæjarstjórann í Fjarðabyggð á fimm árum. bjb@mbl.is