Rut hyggst stofna samtök fólks með offitu en hún hefur mikla reynslu og starfar í offituteymi.
Rut hyggst stofna samtök fólks með offitu en hún hefur mikla reynslu og starfar í offituteymi. — Morgunblaðið/Ásdís
Ég var búin að prófa ítrekað megrunarkúra og svelti mig stundum heilu dagana og lifði þá á gulrótum og súputeningum, en tók svo átköst.

Allt frá barnæsku hefur Rut Eiríksdóttir glímt við offitusjúkdóm og var strax komin í megrun átta ára. Aðeins þrettán ára gömul þróaði Rut með sér átröskun og upp úr tvítugu fann hún að hún hafði enga stjórn. Eftir að hafa barist áfram í áraraðir og prófað alla megrunakúra í bókinni leitaði Rut sér hjálpar hjá efnaskipta- og offituteyminu á Reykjalundi og á í dag heilbrigt samband við mat. Rut, sem er hjúkrunarfræðingur hjá offituteymi Klíníkurinnar, hyggst nú stofna ásamt fleira fólki SFO, samtök fólks með offitu, hinn 4. mars, á alþjóðlega offitudeginum. Rut settist niður með blaðamanni í Dagmálamyndveri Árvakurs og sagði sína sögu.

Taldi kaloríur átta ára

„Ég hef verið þung frá fjögurra, fimm ára aldri,“ segir Rut og segist fljótlega hafa farið að fá skilaboð frá umhverfinu um að hún væri of þung.

„Í skólanum var ég reglulega tekin til skólahjúkrunarfræðings þar sem mér var sagt að ég yrði að létta mig; það væri betra að vera léttari. Ég átti að fá fallegt strokleður í verðlaun ef ég léttist en það kom nú aldrei til,“ segir hún og segir að eftir eitt sumarfríið hafi hún reyndar lést eftir útileiki allt sumarið.

„Ég var átta ára þarna, en fékk samt ekki strokleðrið af því ég hafði ekki létt mig af ásetningi. Það var mjög sárt,“ segir Rut og segist strax sem barn hafa fundið fyrir skömm vegna þyngdarinnar.

„Ég æfði mikið sund og fannst það skemmtilegast í heimi. Eitt sinn sagði sundkennarinn við mig að það væri synd hvað ég væri feit því ég myndi eiga góða möguleika ef ég væri grönn.“

Móðir Rutar var eins og margar konur alltaf í megrun og ólst því Rut upp við að það væri normið.

„Ég man eftir að hafa verið að telja kaloríur átta, níu ára gömul. Þetta voru skilaboðin sem mamma fékk og hún var að reyna að gera það besta fyrir okkur,“ segir hún og segir að skilaboðin í þjóðfélaginu séu þau að fólk eigi að breyta sér.

„En megrunarkúrar eru fitandi og verða að vítahring.“

Svelti mig heilu dagana

Á unglingsárum Rutar fór sjúkdómurinn að ágerast.

„Eina sem komst að var að léttast, annað skipti ekki máli. Þegar ég var þrettán ára las ég grein um konu sem var með búlimíu og hafði grennst mikið. Ég var búin að prófa ítrekað megrunarkúra og svelti mig stundum heilu dagana og lifði þá á gulrótum og súputeningum, en tók svo átköst,“ segir hún og segist þá hafa fengið þá hugmynd að nú gæti hún tekið átköst en kastað svo upp.

„Ég grenntist helling og fékk mikla athygli og hrós frá umhverfinu,“ segir hún og segir engan hafa vitað að hún væri búin að þróa með sér átröskun.

Þegar Rut var rúmlega tvítug leið henni afar illa andlega og leitaði sér hjálpar á göngudeild geðdeildar. Rut fór þá í meðferð og var sett á lyf til að minnka átköstin.

„Ég var ekki grönn og fékk þau skilaboð frá samfélaginu að ég gæti ekki verið með átröskun þar sem ég væri ekki grönn,“ segir hún og segir meðferðina hafa gengið ágætlega; hún hafi hætt að kasta upp. En þá fór þyngdin aftur upp og við tóku á ný allir megrunarkúrar undir sólinni.

„Ég léttist á danska kúrnum um þrjátíu kíló en svo kemur bara þessi rosalega matarlöngun aftur og aftur þyngist ég.“

Haltu fyrir nefið og kyngdu

Rut prófaði að ganga í samtök matarfíkla og segir það öfgafyllstu megrun sem hún hafi farið í á lífsleiðinni.

„Þetta hentaði mér alls ekki. Það var allt vigtað og margt sérstakt við þetta. Ég ákvað að hætta þegar ég var að kúgast yfir öllu grænmetinu sem ég átti að innbyrða og ráðgjafinn sagði mér að halda fyrir nefið og kyngja,“ segir Rut og ákvað í kjölfarið að skrifa BA-ritgerð sína sem ber nafnið Skaðleg áhrif megrunar.

Eftir ótal tilraunir sem allar mistókust ákvað Rut að leita sér hjálpar á Reykjalundi. Þar fór hún í meðferð í eitt ár og endaði í efnaskiptaaðgerð; svokallaðri ermi.

„Ég upplifði það eftir aðgerð að ég hefði verið núllstillt. Löngunin í mat er ekki alltaf til staðar og ég missti fimmtíu kíló,“ segir Rut og segir að sér hafi liðið betur líkamlega og ekki síst andlega.

„Þetta er engin töfralausn og offita er langvinnur sjúkdómur. Í minni fjölskyldu eru margir of þungir þannig að þetta er genetískt, en það er ekki endilega þannig að allir sem eru of þungir séu með offitu,“ segir hún og segir að skoða verði hvaða áhrif offitan hefur á fólk, líkamlega og andlega.

Ákvað að vakna ekki aftur

Bróðir Rutar barðist við offitu alla ævi og var saga hans lík sögu Rutar.

„Fyrir tveimur og hálfu ári ræddi hann við mig og sagðist ekki skilja af hverju hann léttist ekki, þrátt fyrir langa göngutúra og ræktina. Ég útskýrði fyrir honum að þetta snerist ekki um viljastyrkinn; þetta væri ekki leti. Það er ekki hægt að segja: borðaðu minna og hreyfðu þig meira. Hann var mjög svekktur og ég ráðlagði honum að skoða prógrammið á Reykjalundi og aðgerð. Hann tók vel í það og sótti um en fékk því miður höfnun. Hálfu ári síðar gafst hann upp og ákvað að vakna ekki aftur. Það gerir mig mjög reiða,“ segir Rut og segist telja að offitan hafi verið ein ástæða þess að hann svipti sig lífi.

„Hann var ekki með sykursýki eða háþrýsting,“ segir hún og segir það ef til vill hafa spilað inn í að hann fékk höfnun, en segir hann klárlega hafa verið í mikilli yfirþyngd og þurft á meðferð að halda.

„Ég myndi vilja að það væri hægt að bjóða upp á meðferð fyrir alla með aðgang að sálfræðingum og þverfaglegu teymi. Það er verið að stofna núna samtök fólks með offitu og stofnfundur verður 4. mars, á degi offitunnar,“ segir Rut að lokum, en horfa má á viðtalið í heild í Dagmálum á mbl.is.

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir