Dóra Ósk Halldórsdóttir
doraosk@mbl.is
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson formaður Miðflokksins segir að deilumál Eflingar og Samtaka atvinnulífsins sé komið á þann stað að það sé óhjákvæmilegt að það lendi hjá þinginu og ríkisstjórninni.
„Nú heyrist manni á fulltrúum beggja aðila að þeir geri ekki ráð fyrir að geta náð samningum við samningaborðið. Formaður Eflingar sagði bara hreint út í Ríkisútvarpinu í fyrradag að deilan myndi ekki leysast með samningum. Það myndi leysast annars staðar. Og hvað getur hún átt við með því? Það er varla annað en að hún sé farin að gera ráð fyrir að það þurfi inngrip stjórnvalda til að höggva á þennan hnút,“ segir hann.
„Í ljósi allrar sögu þessa máls og stöðunnar núna, sem fer bara versnandi með yfirvofandi verkbanni og gríðarlegum áhrifum á samfélagið til langs tíma, þá geta stjórnvöld ekki litið framhjá ábyrgð sinni í málinu. Það er á þeirra ábyrgð að halda þjóðfélaginu gangandi.“
Sigmundur Davíð segist skilja að stjórnvöld forðist í lengstu lög að grípa inn í vinnudeilur. „En báðir aðilar tala með þeim hætti að það sé enginn samningsgrundvöllur og að engin ástæða sé að leggja fram nýjar miðlunartillögur, þá er bara verið að gera ráð fyrir áframhaldandi verkföllum og svo nýju verkbanni. Þá geta stjórnvöld ekki setið hjá. Þess vegna hef ég verið að nefna það að ríkisstjórnin þurfi í það minnsta að vera viðbúin og skoða ólíkar sviðsmyndir og búa sig undir þær. Núna eftir helgi, þegar þingið kemur saman, finnst mér eðlilegt að við heyrum frá ríkisstjórninni hvernig hún hyggst bregðast við stöðunni. Nú vitum við ekki hversu mikil undirbúningsvinna hefur farið fram hjá ríkisstjórninni, en þegar maður hefur spurt ráðherra hafa þeir gefið lítið út á að slík vinna sé í gangi.“
Þarf niðurstöðu Hæstaréttar
Það væri hægt að koma því á með lögum að það sé að minnsta kosti svigrúm eða tækifæri til að afgreiða miðlunartillöguna sem var lögð fram á sínum tíma og er enn til umfjöllunar hjá Félagsdómi. „Þingið þarf í sjálfu sér ekki í fyrsta skrefi að setja lög um hver niðurstaðan eigi að vera, en ríkisstjórnin verður að höggva á þennan hnút. Því lengur sem beðið er með það, því meiri verður skaðinn núna og einnig til langs tíma,“ segir hann og bætir við að það sé mjög slæmt að vera á upphafspunkti þegar ríði á að taka ákvarðanir því það sé ekkert á vísan að róa hversu langan tíma málið tæki í umræðu á þingi.
„Það er alveg ljóst að það eru komin mikil illindi í þessa deilu og þau virðast ekki fara minnkandi. Yfirlýsingar formanns Eflingar, ekki bara í garð viðsemjenda sinna heldur líka í garð eigin varaformanns og ritara eigin félags fyrir að vilja leita niðurstöðu, gefur til kynna að nýjar tillögur séu ekki líklegar til árangurs.“
Áhrif á framtíðardeilur
Hann bætir við að honum finnist æskilegt að málinu um miðlunartillögu ríkissáttasemjara verði vísað til Hæstaréttar. „Það þarf að fá úr því skorið hvort löggjöfin er gölluð í þeim skilningi að það sé hægt að leggja fram gilda miðlunartillögu en að ekki sé hægt að greiða atkvæði um hana.“
Sigmundur Davíð segist vilja kveða það fast að orði að framtíð vinnumarkaðarins liggi undir í þessari deilu og hvernig hún verði leyst.
„Ef staðan er sú að ríkissáttasemjari geti ekki lagt fram miðlunartillögu og fengið hana afgreidda, þá leiðir það til mjög verulegra vandræða við að leysa framtíðarvinnudeilur. Svo má ekki gleyma því að þetta eru bara skammtímasamningar sem gerðir voru núna síðast og Starfsgreinasambandið náði þar verulegum árangri miðað við skammtímasamninga.
Ef niðurstaðan verður sú að ríkissáttasemjari hafi engin ráð til að bregðast við og leiða mál til lykta, þá mun það skapa veruleg vandamál eftir ár og í framtíðarkjaraviðræðum. Allt skaðar þetta landsmenn og ekki síst verkafólk, því þeir sem búnir eru að semja núna hafa náð talsverðum kjarabótum til skamms tíma.“