Þróun Tungumál taka miklum breytingum í aldanna rás.
Þróun Tungumál taka miklum breytingum í aldanna rás. — Mynd/Unsplash, Gioele Fazzeri
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Skel siðfágunarinnar er þunn og við erum lánsöm í okkar heimshluta að hún skuli ekki hafa brostið á því langa friðarskeiði sem við höfum flest lifað. Það er þolinmæðisverk að fægja þessa skel með ástundun – og alls ekki sjálfsagt að hún haldi andspænis innri og ytri eyðingaröflum

Tungutak

Gísli Sigurðsson

gislisi@hi.is

Skel siðfágunarinnar er þunn og við erum lánsöm í okkar heimshluta að hún skuli ekki hafa brostið á því langa friðarskeiði sem við höfum flest lifað. Það er þolinmæðisverk að fægja þessa skel með ástundun – og alls ekki sjálfsagt að hún haldi andspænis innri og ytri eyðingaröflum. Það má jafnvel kalla það kraftaverk að hafa í fornöld hér á landi náð jafn langt í fágun orðlistarinnar og raun ber vitni – og vegna samfellunnar í tungumálinu getum við enn notið þess árangurs líkt og um samtímabókmenntir sé að ræða.

Skelina þunnu verður stöðugt að endurnýja með menntun og nýsköpun á sem flestum sviðum sem til menningarauka horfa. Mér dettur oft í hug atriði í Heimskringlu þegar Haraldur gilli kemur til Noregs eftir að hafa alist upp hjá móður sinni á Írlandi og gerir tilkall til viðurkenningar sem sonur Magnúss konungs berfætts (sem hafði fallið á Írlandi). Haraldur sannar faðerni sitt fyrir Sigurði konungi Jórsalafara bróður sínum, sem átti írska konu, en eins og títt er um nýbúa var Haraldur ólíkur þeim Norðmönnum sem fyrir voru. Honum var stirt um norrænt mál þannig að heimalningarnir höfðu málfar hans að spotti auk þess sem hann klæddist á írskan máta, hafði stutt klæði og var létt klæddur – sem þótti skrýtið í Noregi.

Haraldi verður á að segja Norðmönnum við hirðina frá íþróttum Íra, meðal annars að þeir séu svo fóthvatir að enginn hestur taki þá á skeiði. Þetta þykir með ólíkindum og prinsinn Magnús skorar á Harald að sýna slíkt kapphlaup og veðjar við hann einum gullhring – en krefst þess að Haraldur leggi höfuð sitt á móti. Allt gengur eftir sem Haraldur hefur sagt en þegar Sigurður konungur kemst að því hvað sonur hans og hirðmenn hafa hagað sér kjánalega verður hann reiður og segir við Magnús: „Þér kallið Harald heimskan, en mér þykir þú fól. Ekki kanntu utanlandssiðu manna. Vissir þú það eigi fyrr að utanlandsmenn temja sig við aðrar íþróttir en kýla drykk eða gera sig æran og ófæran og vita þá ekki til manns? Fá Haraldi hring sinn og apa hann aldrei síðan meðan mitt höfuð er fyrir ofan mold.“

Þessi skammarræða á jafn vel við á öllum tímum yfir þeim sem halda að þeirra eigin siðir og venjur séu upphaf og endir alls.

Lærdómurinn af þessu atriði er því sá að ekki dugi að hokra bara að sínu og reyna að höndla veruleikann í fastri fortíðarmynd. Þar liggur hættan í misnotkun þess sem við köllum menningararf; hann deyr ef umhugsun um hann á að snúast um eignarhald, varðveislu og endurtekningu. Sé menningararfurinn nýttur til að halda áfram að iðka menningu á forsendum nýsköpunar er von til að hann lifi áfram.

Dæmið úr Heimskringlu sýnir okkur að fornsögurnar eru „lifandi bókmenntir“ – eins og Einar Ólafur sagði eitt sinn um Njálu við hóp ferðalanga þegar þau höfðu hlýtt á lýsingu bóndans á Hlíðarenda á aðförinni að Gunnari Hámundarsyni.