Aldís Rut nýtur sín vel í prestsstarfinu og brennur meðal annars fyrir velferð foreldra ungra barna.
Aldís Rut nýtur sín vel í prestsstarfinu og brennur meðal annars fyrir velferð foreldra ungra barna. — Morgunblaðið/Ásdís
Það lýsir sér eins og hamfarahyggja. Ég bjóst alltaf við að það versta myndi gerast. Ég hafði mikla þörf fyrir að hafa stjórn á öllu og skipulagði allt í þaula. Fyrir manneskju með kvíða er verst að hafa ekki stjórn á hlutunum.

Nýi presturinn í Hafnarfjarðarkirkju, séra Aldís Rut Gísladóttir, er komin af prestum langt aftur í ættir, en faðir hennar og afi voru prestar í Glaumbæ í Skagafirði og langalangafi hennar var prestur í Hvammi í Laxárdal. Aldís er því alin upp við guðstrú og góða siði á prestssetrinu norður í Skagafirði. Hún ætlaði þó aldrei að feta í fótspor forfeðra sinna en er afar sátt við að lífið hafi leitt hana á þá braut og finnur sig vel í því að hjálpa fólki, bæði á gleði- og sorgarstundum.

Það er hollt að efast

Aldís er yngst af fjórum systkinum og segist hafa átt yndislega æsku í sveitinni, en foreldrar hennar og bræður búa enn í Glaumbæ og nágrenni. Faðir hennar, séra Gísli Gunnarsson, er nú vígslubiskup á Hólum í Hjaltadal eftir að hafa verið sóknarprestur í Glaumbæ síðan 1982.

„Það voru forréttindi að alast þarna upp, en kannski smávegis krefjandi í svona litlu samfélagi að vera prestsdóttirin. Ég fann samt ekki mikið fyrir því af því ég var „þæg og góð“ eins og til var ætlast,“ segir Aldís og brosir.

„En auðvitað heyrði maður að það var ætlast til meira af manni, eins og í kristinfræðslunni í skólanum þar sem ég átti að kunna allt. Ég man líka að einu sinni sagði ég óviðeigandi brandara og þá heyrði ég hvíslað: „prestsdóttirin sjálf!“,“ segir hún og hlær.

Aldís segist alltaf hafa verið trúuð sem barn, en viðurkennir að hafa stundum efast um tilvist guðs.

„Ég held að það sé hollt að efast. Við göngum flest í gegnum slík tímabil, en það er svo margt fallegt í kristinni trú sem höfðar til mín,“ segir Aldís og segist muna eftir að fjölskyldan hafi farið með borðbænir og með bænir á kvöldin.

„En það sem mótaði mig mest var að sem yngsta barnið þá fylgdi ég mikið mömmu og pabba. Mamma söng í kirkjukórnum og var prestsfrú af guðs náð. Hún fylgdi pabba oft í athafnir og ég var gjarnan með. Mér fannst nú ekki alltaf gaman að hanga á kirkjubekkjum,“ segir Aldís og brosir.

Trúin var ekki það eina sem Aldís lærði í æsku, því hún lærði sannarlega að vinna með höndunum öll almenn sveitastörf.

„Mamma heitir Þuríður Kristjana Þorbergsdóttir og er sjúkraliði en hennar helsta starf hefur verið að vera sauðfjárbóndi þannig að ég er alin upp við sveitastörfin; að fara í heyskap, réttir og sauðburð. Ég er sveitastelpa og sá snemma hvernig lífið gengur fyrir sig,“ segir hún og segist einnig hafa verið með annan fótinn í byggðasafninu þar sem amma hennar vann.

„Ég fór svo ung að starfa þar á sumrin og var með leiðsögn,“ segir Aldís sem naut þess mjög að miðla til annarra sögu Skagafjarðar, en saga er einmitt eitt áhugamála hennar.

Mannbætandi og eflandi nám

Eins og fyrr segir hafði Aldís aldrei hugsað sér að verða prestur, heldur stefndi hún á læknisfræði. Hún undirbjó sig afar vel fyrir inntökuprófið, en í prófinu sjálfu var hún veik og gekk ekki sem skyldi.

„Ég komst svo að því daginn eftir að ég var ólétt og þá breyttust plönin,“ segir Aldís en rétt rúmlega tvítug eignaðist hún fyrsta barn sitt og ári síðar annað, en börnin eru í dag þrjú; fimm, tólf og þrettán ára.

Þegar eldri drenguinn var eins árs og Aldís ólétt að öðru barni ákvað hún að prófa guðfræðina og skráði sig í námið.

„Það var hin mesta gæfa að hafa farið í þetta nám sem er alveg meiriháttar,“ segir hún og segir margt annað þar kennt en trúarbrögð.

„Námið snertir á svo mörgum flötum; sögu, heimspeki, siðfræði, sálgæslu og tungumálum. Þetta er ótrúlega fjölbreytt og mannbætandi nám sem eflir mann á alla kanta,“ segir Aldís.

„Ég hef mikinn áhuga á andlegri líðan fólks og geðheilbrigði og þarna átti ég vel heima. Svo þekki ég helgihald svo vel þannig að þarna var ég örugg,“ segir Aldís en fleira vakti áhuga hennar.

„Ég lauk jógakennaranámi árið 2017 en ég hef alltaf haft mikinn áhuga á öllum íþróttum. Ég hef verið að glíma við kvíða og fannst þetta hjálpa til við það. Í guðfræðináminu er okkur bent á að vinna í okkur sjálfum svo við séum hæf til að hjálpa öðrum. Við þurfum að þekkja okkar bresti þannig að ég fór að skoða mig betur. Þá fannst mér jóga henta mér vel,“ segir Aldís og segir kvíðinn hafi fylgt sér alla ævi.

„Það lýsir sér eins og hamfarahyggja. Ég bjóst alltaf við að það versta myndi gerast. Ég hafði mikla þörf fyrir að hafa stjórn á öllu og skipulagði allt í þaula. Fyrir manneskju með kvíða er verst að hafa ekki stjórn á hlutunum. Það fylgdi þessu mikil fullkomnunarárátta og það mátti sjá það í náminu, en ég útskrifaðist með hæstu meðaleinkunn í guðfræðináminu. Þetta hefur verið minn akkilesarhæll þótt vissulega vilji maður gera hlutina vel,“ segir hún og segir að í jóga hafi öndun og slökun hjálpað sér að eiga við kvíðann.

„En trúin og æðruleysið hefur líka hjálpað. Að sleppa tökunum,“ segir hún og segist hafa náð góðum tökum á kvíðanum.

Að fá að sjá inn í kvikuna

Aldís tók diplómapróf í sálgæslu og er nú í diplómanámi í foreldrafræðslu og uppeldisráðgjöf, en einnig hefur hún lokið meistaragráðu í guðfræði. Aldís er þessa dagana að búa til nýtt fræðsluefni, ásamt fræðslustjóra hjá Biskusstofu, Elínu Elísabetu Jóhannesdóttur, sem er fjölskyldu- og uppeldisfræðingur, Kristnýju Rós Gústafsdóttur djákna, Magneu Sverrisdóttur djákna og Ásu Laufeyju Sæmundsdóttur presti. Fræðsluefnið mun nýtast vel á foreldramorgnum kirknanna.

„Mér finnst mjög gaman að læra. Ég er kannski eins og margar aðrar ungar konur haldin „imposter syndrome“ og finnst næstum eins og ég sé að „feika“ það nema ég hafi plaggið til staðfestingar á því að ég sé „alvöru“. Ég er samt að læra að ég hafi margt til málanna að leggja,“ segir hún og brosir.

Aldís segir mikið álag á ungum konum í dag, sem eiga allar að standa sig vel í vinnu og í barnauppeldinu en um leið huga að útlitinu og hreyfingu. Hún telur að þriðja vaktin lendi enn mest á konum.

„Við konur verðum að sýna okkur sjálfsmildi; við eigum ekkert að sigra heiminn,“ segir Aldís og segist hafa mikinn áhuga á líðan foreldra.

„Mitt helsta áhugasvið innan prestsskapar snýr að foreldrum með ung börn og ég legg mikla áherslu á að skoða andlega líðan foreldra.“

Spurð hvort henni finnist erfitt að jarða fólk segir Aldís að svo sé ekki.

„Auðvitað finnur maður til með fólki en þetta er ekki mín sorg, heldur þeirra sorg. Ég get ekki gengið inn í þeirra sorg heldur gengið með þeim og styrkt þau. Oft eru þetta dýrmætar og fallegar stundir að fá að taka þátt í með fólki og mikil forréttindi við starfið. Á mestu gleði- og sorgarstundum fáum við prestar að sjá inn í kvikuna á fólki sem ekki allir fá að gera. En því fylgir líka mikil ábyrgð sem ég er mjög meðvituð um,“ segir Aldís og segir svo dýrmætt að fá í gegnum starfið að kynnast ólíku lífi fólks.

„Ég fæ að hlusta á sögur fólks. Ég sé seiglu og þrautseigju og líka sársauka,“ segir Aldís og nefnir að það erfiðasta við starfið sé að horfa upp á andleg veikindi og fíkniefnavanda.

Kartöflusalatið örlagaríka

Í frítíma segist Aldís hreyfa sig mikið en þarf að velja vel hvað hún gerir, því þrátt fyrir að vera aðeins nýkomin á fertugsaldurinn er hún með ónýta mjöðm.

„Ég syndi mjög mikið, fer í sjósund og á gönguskíði,“ segir hún og segir þau hjón samtaka í lífinu, en maður hennar heitir Ívar Björnsson.

„Ég er mjög vel gift,“ segir hún og segir gott jafnvægi á heimilinu hvað varðar barnauppeldi og heimilisstörf. Spurð hvort hún hafi kynnst Ívari í sveitinni segir Aldís það aldeilis ekki raunina.

„Þegar ég var sautján ára flutti ég til Reykjavíkur og einn daginn sá ég ótrúlega sætan strák í stigaganginum. Ég hugsaði strax: Þessum manni ætla ég að giftast! Og við eigum tíu ára brúðkaupsafmæli í sumar,“ segir hún og útskýrir að hann hafi keypt íbúðina fyrir ofan og einn daginn hafi nokkrir íbúar blokkarinnar ákveðið að hittast í grillveislu. Aldís mætti með kartöflusalat sem hún gerði eftir uppskrift móður sinnar.

„Ég mætti með kartöflusalatið og það varð ekki aftur snúið,“ segir Aldís og segist stuttu síðar hafa flutt sig upp um hæð, til hans.

„Hann kvartar stundum í gríni að ég hafi aldrei aftur búið til þetta kartöflusalat,“ segir hún og hlær.

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir