Málfríður Eggertsdóttir fæddist 10. október 1943 á bænum Hraungerði í Álftaveri. Hún lést 15. febrúar 2023.
Foreldrar hennar voru Matthías Eggert Oddsson bóndi, f. 21. maí 1905, d. 27. júní 1981, og Pálína Pálsdóttir húsfreyja, f. 1. nóvember 1919, d. 2.maí 2003. Málfríður var elst í 10 systkina hópi. Systkinin eru í aldursröð Málfríður, Svanhildur, f. 1945, Halldór og Þórarinn, f. 1946, Þórhalla, f. 1948, d. 2005, Oddur, f. 1949, d. 1994, Páll, f. 1951, Hafdís, f. 1953, Gottsveinn, f. 1955, og Jón f. 1956. Málfríður er sú þriðja úr hópnum sem kveðjur.
Málfríður ólst upp við sveitastörf og gekk í barnaskóla í sinni heimasveit. Fimmtán ára gömul fór hún að heiman og gekk í húsmæðraskólann á Varmalandi í Borgarfirði.
Hún giftist Högna Klemenssyni hinn 25. desember 1961 og áttu þau farsælt hjónaband allt fram á hans síðasta dag, en Högni lést 14. febrúar 2006. Börn þeirra Málfríðar og Högna eru Páll Heiðar, f. 22. september 1961, og Ragnheiður, f. 7. júní 1963.
Páll Heiðar er giftur Ásu Birgisdóttur, f. 1967. Dætur hans eru Hjördís Inga, f. 1981, og Sandra Dís, f. 1993, og sonur þeirra hjóna er Sveinn Andri, f. 1998. Barnabörn Páls eru sex.
Ragnheiður er gift Eiríki Tryggva Ástþórssyni, f. 1970. Börn Ragnheiðar af fyrra hjónabandi eru Áslaug, f. 1982, Guðni Páll, f. 1987, og Fríða Brá, f. 1989. Sonur Ragnheiðar og Tryggva er Ástþór Jón, f. 1998. Barnabörn Ragnheiðar eru sex.
Málfríður og Högni bjuggu alla sína búskapartíð í Vík, lengst af á Sunnubraut 9. Málfríður vann ýmis verkamannastörf, svo sem á prjónastofunni Kötlu, á trésmiðjunni 3K í Vík og á dvalarheimilinu Hjallatúni auk þess sem hún rak verslunina Matarbúrið um nokkurra ára skeið. Hún hafði brennandi áhuga á að bæta samfélag sitt og átti meðal annars sæti á framboðslistum í sveitarstjórnarkosningum og alþingiskosningum fyrir Framsóknarflokkinn. Auk þess var hún alla tíð virk í ýmsum félagsstörfum, starfaði fyrir Rauða krossinn, Kvenfélag Hvammshrepps og Verkalýðsfélagið Víking svo eitthvað sé nefnt.
Útförin fer fram frá Víkurkirkju í dag, 25. febrúar 2023, klukkan 14. Athöfninni verður útvarpað á tíðni FM 104.
Margar minningar koma upp í hugann þegar við hugsum um ömmu. Hún var hlý, góð, umhyggjusöm, natin, fróð og hélt fast í hefðir.
Það var æðislegt að vera hjá ömmu á sumrin. Það voru bara tvær reglur sem átti að fylgja: mæta tímanlega í mat og þvo sér um hendur og í andlitinu fyrir svefn. Annars fengum við að leika lausum hala um Víkurþorp með vinum okkar. Amma skammaði mann aldrei þótt maður kæmi heim í grútskítugum fötum. Það var passað upp á að maður fengi nóg að borða. Heitur matur tvisvar á dag, kaffitímar og kvöldkaffi.
Í endurminningum Fríðu stendur upp úr að amma var alltaf að baka. Og þá fékk litla nafna að sitja á borðinu og „hjálpa“. Við baksturinn var amma með dáleiðandi bleikrósótta svuntu og marglitu kökustamparnir í búrinu voru heillandi og oftast eitthvað gott þar að finna.
Þau afi fóru oft með okkur að leggja net í Heiðarvatn eða veiða fýl á aurunum. Amma lét Guðna hlaupa eftir fýl sem þau sáu og honum leiddist það sko ekki. Það kom þó fyrir að hann ryki af stað án þess að sjá fuglinn sjálfur, svo hann vissi ekki hvert hann átti að stefna. Þá þurfti hann að hlaupa aftur í bílinn að fá betri leiðbeiningar.
Aflann þurfti auðvitað að verka og það var gert í bílskúrnum. Ef það veiddist fallegur sjóbirtingur í vatninu var hann oft heilgrillaður í ofni sama dag. Þetta þótti okkur mjög góður matur og mikið sport að borða fisk sem maður hafði sjálfur tekið þátt í að landa og verka. Við fengum alltaf sporðinn því þar var minnst af beinum. Afi tók hins vegar alltaf hausinn og borðaði allt af honum. Afi flysjaði líka alltaf allar kartöflurnar um leið og þær komu á borðið.
Amma hafði einstaklega græna fingur og oft fékk hún okkur með sér í moldarvinnu, eins og hún kallaði það. Það var skemmtilegt að fara í kartöflugarðinn enda uppskeran oft gríðarleg. Stundum hljóp mikið kapp í mann þegar maður sá stórar og fallegar kartöflur í sendinni moldinni. Þá voru gulrótarbeðin og jarðarberjakassinn bak við bílskúr spennandi og oft stolist í eitt ber og stungið beint í munninn.
Amma kenndi Ásu að lesa fjögurra ára, enda var amma bókelsk með eindæmum og notaði litríkt og fallegt tungumál sem bar þess vitni hve mikið hún las sér til fróðleiks og gamans. Fljótlega voru þær farnar að lesa saman og varð ævintýrið um Láka mikið uppáhald. Ef hamagangurinn var orðinn mikill átti amma það til að segja okkur að Láki kæmi að taka okkur, en hann bjó víst á háaloftinu. Mörgum árum seinna fékk fyrsti bíllinn hennar Ásu nafnið Láki.
Amma kenndi okkur að prjóna. Það gekk ágætlega, en stundum vorum við send að þvo okkur með sápu til að mýkja handverkið. Líklega var það bara til að fá smá pásu frá okkur svo hún gæti lagað ósköpin. Meðan við sátum og prjónuðum sagði hún sögur eins og Búkolla, Fóa feykirófa eða Lítill, Trítill og fuglarnir.
Það er ómöguleg tilhugsun að þú sért farin amma. Þú hefur mótað okkur öll á einn eða annan hátt og við systkinin erum heppin að eiga hafsjó minninga um þig sem hefur verið klettur í lífi okkar. Takk fyrir allt, amma.
Áslaug, Guðni og Fríða.