Sílamáfur Af fuglum sem endurheimtir voru 2021 hafði enginn lagt lengra flug að baki en sílamáfur.
Sílamáfur Af fuglum sem endurheimtir voru 2021 hafði enginn lagt lengra flug að baki en sílamáfur. — Morgunblaðið/Eggert
Sílamáfur sem merktur var í Reykjavík fannst á árinu 2021 veikur og var hjúkrað á Tenerife. Hafði hann þá flogið 4.018 kílómetra frá merkingarstað. Einnig fannst jaðrakan í Fnjóskadal á sama ári sem merkt hafði verið á Spáni á árinu 2007 í 3.071 km fjarlægð

Sílamáfur sem merktur var í Reykjavík fannst á árinu 2021 veikur og var hjúkrað á Tenerife. Hafði hann þá flogið 4.018 kílómetra frá merkingarstað. Einnig fannst jaðrakan í Fnjóskadal á sama ári sem merkt hafði verið á Spáni á árinu 2007 í 3.071 km fjarlægð.

Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu um fuglamerkingar og endurheimt merktra fugla á Íslandi árið 2021 sem Náttúrufræðistofnun Íslands gefur út. Í ljós kom að óvenjufáar langferðir voru meðal endurheimta ársins. Á árinu fannst urtönd á hreiðri við Víkingavatn en hún var merkt í Portúgal á árinu 2018, 3.069 km frá hreiðri sínu. „Þetta er fyrsta urtöndin sem vitað er um sem gerir sér ferð á milli þessara landa,“ segir í umfjöllun um niðurstöðurnar.

Talsvert var um merkta fugla sem voru í heimsókn á nýjum slóðum. Grágæs sem merkt var í Reykjavík sást þrisvar sinnum í Danmörku og var það í fyrsta skipti sem íslensku grágæsarinnar varð vart þar í landi. Maríuerla merkt í Einarslundi í Reykjavík í júlí 2021 var endurheimt í Helgolandi í Þýskalandi aðeins sex vikum eftir merkingu hennar og tilkynnt var á árinu um fyrstu íslensku maríuerluna sem heimsótt hefur Belgíu svo vitað sé. Eitt aldursmet fannst í merkingargögnunum en það var auðnutittlingur sem merktur var á Akureyri 2015 en orðinn a.m.k. sjö ára gamall 2021. omfr@mbl.is