Sílamáfur sem merktur var í Reykjavík fannst á árinu 2021 veikur og var hjúkrað á Tenerife. Hafði hann þá flogið 4.018 kílómetra frá merkingarstað. Einnig fannst jaðrakan í Fnjóskadal á sama ári sem merkt hafði verið á Spáni á árinu 2007 í 3.071 km fjarlægð.
Þetta kemur fram í nýútkominni skýrslu um fuglamerkingar og endurheimt merktra fugla á Íslandi árið 2021 sem Náttúrufræðistofnun Íslands gefur út. Í ljós kom að óvenjufáar langferðir voru meðal endurheimta ársins. Á árinu fannst urtönd á hreiðri við Víkingavatn en hún var merkt í Portúgal á árinu 2018, 3.069 km frá hreiðri sínu. „Þetta er fyrsta urtöndin sem vitað er um sem gerir sér ferð á milli þessara landa,“ segir í umfjöllun um niðurstöðurnar.
Talsvert var um merkta fugla sem voru í heimsókn á nýjum slóðum. Grágæs sem merkt var í Reykjavík sást þrisvar sinnum í Danmörku og var það í fyrsta skipti sem íslensku grágæsarinnar varð vart þar í landi. Maríuerla merkt í Einarslundi í Reykjavík í júlí 2021 var endurheimt í Helgolandi í Þýskalandi aðeins sex vikum eftir merkingu hennar og tilkynnt var á árinu um fyrstu íslensku maríuerluna sem heimsótt hefur Belgíu svo vitað sé. Eitt aldursmet fannst í merkingargögnunum en það var auðnutittlingur sem merktur var á Akureyri 2015 en orðinn a.m.k. sjö ára gamall 2021. omfr@mbl.is