Loðnuveiðar Loðnuskipið Svanur RE á siglingu. Loðnukvótinn á vertíðinni verður aukinn umtalsvert.
Loðnuveiðar Loðnuskipið Svanur RE á siglingu. Loðnukvótinn á vertíðinni verður aukinn umtalsvert. — Morgunblaðið/Börkur
Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra mun á mánudag undirrita reglugerð þar sem endanlegt útgefið aflamark í loðnu er ákveðið í samræmi við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Stofnunin lagði til í gær, að loðnuafli á yfirstandandi fiskveiðiári yrði ekki meiri en 459.800 tonn, en það er 184.100 tonna aukning frá síðustu ráðgjöf.

Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra mun á mánudag undirrita reglugerð þar sem endanlegt útgefið aflamark í loðnu er ákveðið í samræmi við ráðgjöf Hafrannsóknastofnunar. Stofnunin lagði til í gær, að loðnuafli á yfirstandandi fiskveiðiári yrði ekki meiri en 459.800 tonn, en það er 184.100 tonna aukning frá síðustu ráðgjöf.

Hafrannsóknastofnun segir, að þessi aukning byggist á mælingum úti fyrir Húnaflóa upp úr miðjum febrúar og að loðnan sem þar mældist muni líklegast hrygna á þeim slóðum. Hvetur stofnunin til þess að afli, sem nemi viðbótarráðgjöfinni, verði veiddur sem mest úti fyrir Húnaflóa. Matvælaráðuneytið segir, að komið geti til skyndilokana á ákveðnum svæðum til að koma í veg fyrir skaðlegar veiðar.

Ný ganga

„Við lítum á það þannig að þetta sé aðgreind ganga. Þetta er ný ganga sem ekki hefur verið mæld áður,“ segir Guðmundur J. Óskarsson, sviðsstjóri uppsjávarsviðs Hafrannsóknastofnunar, við Morgunblaðið.

Guðmundur segir þessa nýju göngu ekki tilefni til að fara í frekari rannsóknir að sinni. „Við teljum okkur hafa náð utan um þetta,“ segir hann en viðurkennir að ekki liggi fyrir nein skýring á þessari göngu. „Í raun ekki. Það er alltaf eitthvað nýtt og alltaf eitthvað öðruvísi með loðnuna milli ára.“

Spurður hvort breyta þurfi tilhögun loðnumælinga á komandi árum vegna þessarar nýju göngu svarar Guðmundur neitandi. „Við vorum með sambærilegar mælingar eftir meginmælinguna í fyrra, líka vegna hafíss. Þá voru engar svona göngur sem við sáum. Þetta er alltaf breytilegt milli ára.“

Hluti af viðbótarloðnukvótanum kemur í hlut Grænlendinga og Færeyinga en aukinn hlutur Íslands verður alls 147.280 tonn og aflamark í loðnu samtals 329.460 tonn. Sigurgeir Brynjar Kristgeirsson, framkvæmdastjóri Vinnslustöðvarinnar, segir hins vegar hæpið að það náist að veiða upp í allan þennan viðbótarkvóta en aðeins um 2-3 vikur eru eftir af vertíðinni. Einnig sé ljóst að stór hluti þess afla muni fara í bræðslu. Enn er hins vegar verið að frysta loðnu í Vestmannaeyjum.

Loðnuflotinn er nú að veiðum undan Suðurlandi en Hafrannsóknastofnun hvetur til þess að afli sem nemi viðbótarráðgjöfinni, verði veiddur sem mest úti fyrir Húnaflóa, því ef viðbótaraflinn yrði allur tekinn á hefðbundnum slóðum, fyrir sunnan og vestan land, yrðu allnokkrar líkur á að lítið af loðnu myndi hrygna þar. Með því að ganga ekki of nærri þeirri loðnu sem hrygnir við vestur- og suðurströnd landsins verði lögð lóð á vogarskálar líffræðilegs fjölbreytileika innan stofnsins, líkur á góðri nýliðun aukist og veiðarnar verði sjálfbærari.

Hafrannsóknastofnun leggur því til að 2/3 af þeim 184.100 tonnum, sem bætt er við ráðgjöfina, verði veidd norðan við Ísland, á svæðinu frá Horni að Langanesi.