Vigdís Häsler
Stjórn og starfsfólk Bændasamtaka Íslands hafa á liðnu ári svo sannarlega ekki setið auðum höndum þrátt fyrir að starfið í skipulagðri hagsmunabaráttu fari oft fram með þeim hætti að umfang og vinnuframlag komi iðulega ekki fyrir sjónir nærri 80% af tímanum. Sumir telja að hagsmunabaráttan sé best rekin í andsvörum og gildishlöðnum setningum í fjölmiðlum eða í athugasemdum samfélagsmiðla. Það er því oft vandrataður vegur á milli þess að viðhalda meðbyrnum og fá svo lægðina í fangið í appelsínugulu norðanbáli.
Á nýliðnu ári hefur Bændasamtökunum tekist að fjölga félagsmönnum um 25% frá því árinu á undan, auk þess að fjölga talsmönnum atvinnugreinarinnar, fá inn í umræðuna samtal um neyðarbirgðahald, skipulag ræktarlands, eflingu grænmetisframleiðslu og kornræktar, jarðræktarrannsóknir, lífræna framleiðslu og aukið fæðuöryggi þjóðar. Það verður að teljast mikið afrek að skapa slíkan meðbyr með atvinnugreininni og þeim sem við hana starfa, sem og að upplýsa almenning um afleiðingar þess ef aðgangur aðfanga og dreifileiðir rofna til landsins og einnig ef dreifileiðir innanlands skerðast.
Kjánalegt sport?
Einn okkar helsti rithöfundur og skáld á 20. öldinni, Halldór Laxness, ritaði eitt sinn greinarstúf um landbúnaðarmál og afurðasölu í Þjóðviljann árið 1942. Þar komst hann að þeirri niðurstöðu að verðlagið á kjöti hér á landi væri algjört „bannverð“, því það hreinlega seldist ekki á því verði sem fólk þyrfti að greiða fyrir það úti í búð og á meðan væru bændur látnir „lepja dauðann úr krákuskel með ölmusu uppbót“. Líklega hefur skáldið okkar hér verið að vísa til stuðningsgreiðslna til landbúnaðarins á þeim tíma, en jafnframt lagði skáldið til að fyrst svona væri ástatt um greinina, „þar sem verkamenn gætu ekki keypt ódýrt kjöt, ætti hreinlega að leggja landbúnað hér á landi niður og hætta með öllu við þetta kjánalega sport“. Þetta er umræða sem við erum alltof kunn. Að mínu áliti munu afdrif atvinnugreinarinnar til framtíðar ráðast af vilja stjórnvalda til þess að einfalda regluverk svo hægt sé að framleiða meira og vilja sveitarfélaga til þess að gera upp við sig hvar framleiða eigi matinn – ekki með því að fella niður tollvernd af innfluttum búvörum fyrst til þess að stuðla áfram að ósanngjarnri samkeppni.
En af Halldóri Kiljan, þá var honum að sjálfsögðu svarað af bréfritara Reykjavíkurbréfs í Morgunblaðinu á þá leið: „Manni sýnist það óþarfi fyrir Halldór Kiljan að reka það „sport“ að skrifa eins og kjáni.“ Svo mörg voru þau orð.
Búskussar velta ekki 70 milljörðum
Það er ekki ætlun mín að hljóma eins og Bjartur í Sumarhúsum í verra horninu. Landbúnaður er undirstöðuatvinnugrein á Íslandi og grundvöllur byggðar um landið, ásamt því að gegna því mikilvæga hlutverki að tryggja fæðu- og matvælaöryggi íslensku þjóðarinnar. Hátt í 3.000 bændur um allt land standa vörð um þessar stoðir íslensks samfélags þrátt fyrir að þurfa að mæta skilningsleysi og ábyrgðarlausum ákvörðunum stjórnmálamanna sem eru til þess fallnar að draga þróttinn úr okkar besta fólki. Hér eru engir búskussar á ferð heldur fólk sem hefur skuldbundið sig til þess að vera vörslumenn lands á sama tíma og þeim er ætlað að styrkja áfallaþol þjóðarinnar ef í harðbakkann slær. Bændur, líkt og aðrir í sínum störfum, eru hluti af hjólum efnahagslífsins, og eru auk þess margir atvinnurekendur en ekki launafólk í hefðbundnum skilningi og finna því vel til ábyrgðar. Atvinnugreinin veltir um 70 milljörðum króna á ári og getur vel aukið framleiðslu sína um allt að helming skapist tækifæri til. Slíkt væri ekki á færi búskussa.
Tækifærin í landbúnaði eru spennandi og svo sannarlega fyrir hendi. Atvinnugreinin og fólkið sem innan hennar starfar verðskulda svo ívið meira en ódýrt dægurþras og tyrfna umræðu sem enginn virðist hafa fyrir því að einfalda. Landbúnaðurinn og framtíð hans er líftaug í tilveru íslensku þjóðarinnar.
Höfundur er framkvæmdastjóri Bændasamtaka Íslands.