Fjölskylda Olenu stillti sér upp á mynd, Foreldrar hennar, Mykola og Liubov eru lengst til vinstri, svo Anastasiia og dóttir hennar Zlata, Olena sem heldur á Emiliiu og Maryna er lengst til hægri. Á myndina vantar soninn sem var vant við látinn.
Fjölskylda Olenu stillti sér upp á mynd, Foreldrar hennar, Mykola og Liubov eru lengst til vinstri, svo Anastasiia og dóttir hennar Zlata, Olena sem heldur á Emiliiu og Maryna er lengst til hægri. Á myndina vantar soninn sem var vant við látinn. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Ég óttast að allt verði breytt og að lífið verði allt öðruvísi en áður. Lífið sem við áttum kemur ekki aftur. Svo margir hafa misst svo mikið; börn sín og foreldra og ástvini. Þjóð okkar þarf að lifa með því um ókomna tíð.

Stór kaka beið blaðamanns á heimili Olenu Koval í miðbænum þar sem hún býr ásamt foreldrum sínum og tveimur börnum. Móðir Olenu, Liubov, hafði bakað úkraínska köku með sítrónukremi sem bragðaðist dásamlega með morgunkaffinu. Emiliia litla, rúmlega eins árs krútt, skottaðist um stofuna en var fljót að hlaupa í fangið á mömmu sinni þegar hún sá ókunnuga gestinn. Hún horfði á blaðamann efasemdaraugum og um það bil þegar skeifa fór að myndast á litla munninn, tók amman hana í fangið og fór með hana inn í svefnherbergi að leika á meðan viðtalið fór fram. Við Olena settumst niður og með sorg í hjarta rakti hún sögu sína. Það tók á að rifja upp þessa martröð sem hún upplifði fyrir ári síðan og ekki sér fyrir endann á. Oftar en einu sinni vöknaði okkur báðum um augu.

Stríðið er alls staðar

Olena er kennari, eiginkona, dóttir og móðir sem neyddist til að taka þá afdrifaríku ákvörðun að flýja heimalandið til að koma börnum sínum í öruggt skjól. Eiginmaðurinn Oleksandr varð eftir, en vinnandi karlmenn fá ekki að yfirgefa landið og geta átt von á að vera kallaðir til herþjónustu. Á meðan Oleksandr fylgist með lífi eiginkonu sinnar og barna í gegnum myndsímtöl, tekst Olena á við lífið á Íslandi. Hún er heimavinnandi, þar til Emiliia kemst á leikskóla, og notar tímann til að læra íslensku. Hún er farin að geta tjáð sig ágætlega og segir:

„Ég heiti Olena; ég er 39 ára gömul. Dóttir mín heitir Emiliia og er eins árs og sonur minn heitir Vladyslav og er ellefu ára gamall,“ segir Olena á fínni íslensku.

Olena skiptir yfir í ensku og segir blaðamanni frá lífi sínu í Úkraínu, en fjölskylda hennar hefur búið í Kænugarði síðan 2016 sem kom ekki til af góðu. Þau bjuggu áður í Lúhansk, en Rússar hernámu þar ákveðin svæði árið 2014. Í miðjum átökunum flúðu hjónin, þá með son sinn ungan, og urðu að skilja allt sitt eftir. Með tvær hendur tómar hófu þau að byggja upp líf sitt að nýju í Kænugarði.

„Þetta var ekki yfirlýst stríð en þarna var verið að berjast og Rússar búnir að hernema hluta landsvæðis þarna í austri. Þarna var heimilið okkar en þegar sonur minn var þriggja ára þurftum við að flýja. Við vorum á flakki á milli borga en enduðum á að setjast að í Kænugarði árið 2016,“ segir Olena.

„Eiginmaður minn er núna þar en hann hefur ekki verið kallaður í herinn þar sem hann á við heilsufarsvandamál að stríða. Ég veit ekki hvort hann verði kallaður í herinn, en hann má ekki yfirgefa landið,“ segir hún.

„Við áttum gott líf í Úkraínu með syni okkar og svo varð ég ólétt af dóttur okkar sem hafði ekki verið planað en kom skemmtilega á óvart. Við áttum okkur framtíðardrauma en svo hófst stríðið sem var algjört áfall. Við höfðum einu sinni þurft að byggja upp líf okkar alveg frá grunni og nú var búið að skemma allt aftur, sem var alveg ótrúlegt. En í þetta skipti er það enn erfiðara því stríðið er alls staðar.“

Gat ekki hætt að gráta

Dóttirin Emiliia fæddist í desember 2021 og var því aðeins tveggja mánaða þegar stríðið skall á þann 24. febrúar 2022. Olena segir landsmenn ekki hafa búist við stríði, þrátt fyrir að það hafi vofað yfir í nokkurn tíma.

„Það var bara of ótrúlegt að það yrði stríð. Við lifum á 21. öldinni og búum í Evrópu. Það er erfitt að útskýra það en við vildum trúa því að það yrði ekki stríð. Ég fylltist skelfingu þegar það hófst,“ segir Olena og lýsir þeim örlagaríka morgni þegar sprengjum tók að rigna yfir Kænugarð.

„Það var klukkan fimm um nótt. Ég heyrði sprengjur falla. Við vöknuðum, hlustuðum eftir sprengjunum og kveiktum á sjónvarpinu en þar var ekkert að sjá eða heyra. En stuttu síðar sáum við tilkynnt að stríð væri hafið og það greip um sig ofsahræðsla og fólk fór að yfirgefa borgina,“ segir Olena og tekur hlé á máli sínu.

„Ég fæ bara gæsahúð því ég hef ekki rifjað þetta upp í langan tíma,“ segir hún.

„Við vissum ekkert hvert við ættum að fara. Það var tíu mínútna gangur í næsta neðanjarðarbyrgi. Þrátt fyrir að hafa efast um að það yrði stríð, höfðu yfirvöld varað við því og við vorum með litlar ferðatöskur tilbúnar með nauðsynjum. En það átti bara að vera til vonar og vara og í hjarta mínu trúði ég að allt yrði í lagi. En sem móðir varð ég að vera tilbúin,“ segir Olena og segir þau hafa haldið kyrru fyrir í íbúðinni fyrsta daginn, en eiginmaðurinn hafi þó þurft að mæta til vinnu. Olena var heima með börnin.

„Ég var mjög hrædd og allan daginn hlustaði ég á fréttir en ákvað svo að hætta því. Það var of erfitt andlega og ég fór að hafa svo miklar áhyggjur og ég gat ekki hætt að gráta. Ég átti lítið barn og son og þurfti að reyna að halda geðheilsunni fyrir þau.“

Pakkaði fyrir allar árstíðir

Næstu tvo dagana sat Olena stundum með börnum sínum inni á baðherbergi þar sem hún taldi það herbergi öruggasta stað íbúðarinnar.

„Ég var lömuð af ótta. Ég gat eiginlega ekki gert neitt. Ég var í áfalli og vissi ekki hvað ég ætti að gera eða hvert ég ætti að fara,“ segir hún.

„Ég gat ekki verið lengur í Kænugarði og sagði við eiginmanninn minn að við yrðum að fara eitthvert út úr borginni, til vesturs,“ segir hún og segir þau hafa lagt af stað í morgunsárið á þriðja degi frá innrásinni.

„Við keyrðum til vina okkar sem búa í Vestur-Úkraínu og það var virkilega ógnvekjandi að keyra úr borginni þar sem verið var að berjast víða í kringum hana. Margar leiðir voru lokaðar og bara ein leið var út úr borginni,“ segir hún og segir götur þennan morgun hafa verið auðar þar sem margir höfðu flúið dagana á undan.

„Ég hafði haft tvo daga til að hugsa um hvað ég ætti að taka með og þar sem við höfðum áður þurft að flýja árið 2014, vissi ég að það væri möguleiki að ég kæmi ekki heim í bráð. Ég pakkaði því fyrir allar árstíðir. Árið 2014 fór ég að heiman aðeins með sumarföt,“ segir hún og brosir.

Hætturnar voru alls staðar

Fjölskyldan dvaldi í tæpa viku hjá vinunum í vestri og þaðan fóru þau til ættingja í bæ rétt fyrir utan Lviv. Á þessum tíma bjuggu foreldrar Olenu í Bútsja sem Rússar höfðu náð á vald sitt og þar sem síðar áttu sér stað óhugsandi stríðsglæpir.

„Mamma og pabbi voru föst í Bútsja og voru þar í rúma viku án rafmagns, hita og matar,“ segir hún og segir hún móður sína hafa verið í áfalli.

„Þegar foreldrar mínir komust loks út úr Bútsja komu þau til okkar og þá fórum við að hugsa um að fara úr landi. Hætturnar voru alls staðar,“ segir Olena.

„Ég vildi alls ekki fara því ég vildi vera hjá eiginmanninum,“ segir hún og nefnir að meðal þeirra fjölskyldumeðlima sem ákváðu að flýja voru foreldrar hennar en einnig eiginkona bróður hennar og eiginkona frænda hennar, auk barna.

„Pabbi mátti koma með af því hann var kominn á eftirlaun í Úkraínu,“ segir hún og segir hann nú vinna í prjónaverksmiðjunni Varma.

„Erfiðast var að skilja eftir eiginmanninn, bróður minn og frændur.“

Þann 15. mars 2022 keyrði eiginmaður Olenu fjölskylduna að landamærunum við Pólland þar sem þau gengu síðan yfir. Hún hefur ekki séð hann síðan.

„Við stóðum sem betur fer ekki nema þrjá tíma í röð og fyrir guðs mildi þá svaf Emiliia allan tímann,“ segir Olena og segir þau hafa átt flug daginn eftir með Wizz Air til Íslands. Olena lenti í vandræðum á flugvellinum vegna þess að vegabréfin voru af eldri gerðinni og ekki tekin gild. Úr málinu leystist þó sólarhring síðar, en það olli þó Olenu miklum kvíða og áhyggjum.

Faðmar og kyssir símann

Olena segist hafa íhugað vandlega hvert þau ættu að fara. Hún segist hafa skoðað alla möguleika og las sér til um Ísland; um velferðarkerfið hér sem myndi bjóða upp á góða læknisþjónustu ef eitthvað kæmi upp á. Auk þess vissi hún að hingað lægi ekki jafnstríður straumur flóttamanna og til landa í nágrenni við Úkraínu.

„Erfiðast fannst mér að hugsa um hvar ég gæti fundið minn stað. Ég var eitt sinn nýtur þjóðfélagsþegn sem var útivinnandi. Hver er ég hér? Þessar tilfinningar kviknuðu innra með mér og ég vil ekki vera byrði á neinum,“ segir Olena og segir afar erfitt hafi verið að yfirgefa fósturlandið.

„Ég trúi varla enn að ég hafi farið,“ segir Olena og tilfinningarnar bera hana ofurliði.

„Fyrirgefðu mér,“ segir hún tárvot.

„Allt er farið; allt sem ég hafði skipulagt fyrir framtíðina,“ segir hún og segist nú ekki hafa annað val en að halda áfram í nýju landi.

Á hverjum degi hringja þau heim til Oleksandrs.

„Við tölum við Oleksandr í gegnum myndsímtal daglega og Emiliia þekkir hann á mynd og er alltaf svo glöð þegar hún sér hann. Hún tekur gjarnan símann og kyssir og faðmar.“

Langar að hrópa takk fyrir

Við komuna til landsins fór fjölskyldan fyrst í viðtal hjá lögreglu og var síðan komið fyrir á hóteli í Hafnarfirði. Útlendingastofnun sameinaði svo fjölskylduna, en frændfólk hennar hafði komið degi fyrr og var á öðru hóteli.

„Hér voru allir svo vinalegir og hjálpsamir. Við fengum allt gefins; það kom svo margt fólk að gefa okkur alls kyns hluti. Ég hef aldrei upplifað aðra eins góðvild og gestrisni. Hér hefur fólk tekið á móti okkur opnum örmum og jafnvel faðmað okkur og huggað. Þið eruð svo hlý þjóð og við dáumst sífellt að þessari góðmennsku. Ég var svo hrædd að yfirgefa land mitt og koma hingað en þegar ég kom fannst mér ég ná aftur andanum,“ segir hún og segir þeim alls staðar hafa verið vel tekið. Olena nefnir að þau hafi ekki einungis fengið hjálp frá Íslendingum, heldur einnig frá öðrum Úkraínumönnum, Pólverjum og Lettum.

Olena segist hafa fyrir fram haft alls kyns áhyggjur; sérstaklega af velferð barnanna.

„Ég hefði aldrei geta ímyndað mér að ég fengi alla þessa hjálp því hingað til hef ég aðeins getað reitt mig á sjálfa mig og eiginmanninn,“ segir Olena og segir þau hafa búið um hríð á hóteli en fengið síðan tímabundna íbúð á vegum félagsþjónustunnar. Í maí flutti fjölskyldan í leiguíbúð, en í sömu blokk býr hluti frændfólksins sem kom með þeim til Íslands og er það þeim mikil huggun að vera svona nálægt hvert öðru.

Olena er enn heimavinnandi þar sem Emiliia litla er ekki komin inn á leikskóla, en hyggst fara út á vinnumarkaðinn þegar það gerist. Hún er því mikið heima við en segist ánægð með íslenskt samfélag, þó veðrið sé oft erfitt. Olena segist afar ánægð að Ísland hafi orðið fyrir valinu þegar ljóst var að hún þyrfti að flýja land sitt.

„Ég þekki nokkra Íslendinga sem ég hitti við komuna og þau hafa hjálpað svo mikið og við erum svo þakklát; þú getur ekki ímyndað þér hvað við erum þakklát öllum hér. Frá innstu hjartarótum finn ég til þakklætis. Mig langar að fara út á götu og hrópa: TAKK FYRIR!“

Óttast að allt verði breytt

Aldrei grunaði Olenu að hún myndi enn búa hér, tæpu ári eftir að hún flúði land sitt.

„Ég hélt ég yrði komin heim fyrir sumarið,“ segir hún og segir marga vini sína einnig hafa flúið og þeir dveljist nú tvist og bast um Evrópu.

„Aðrir urðu eftir í Úkraínu og hafa vanist því að búa við sírenuhljóðin. Fólk fer til vinnu og hugsar um börnin sín. Mig langar mjög mikið að fara til baka en ég hef áhyggjur af börnunum mínum því enginn veit hvar næsta sprengja lendir. Ég get ekki verið svo eigingjörn að fara með þau til baka, þó það sé tilfinningalega mjög erfitt fyrir mig að vera aðskilin frá manninum mínum, ástinni minni,“ segir Olena og bætir við:

„Ég hef sem betur fer ekki misst neinn í stríðinu, guði sé lof.“

Hvernig sérðu fyrir þér framtíðina?

„Ég hef hugsað mikið um hana en get það eiginlega ekki. Ég hafði svo margoft haft áform sem stríð hafa eyðilagt. En mig langar auðvitað heim. Mig dreymir um að vera aftur í íbúðinni minni, að sofa í mínu eigin rúmi og horfa út um gluggann á börn leika sér á róló. En enginn veit hversu lengi stríðið varir og ég hugsa líka um hvernig allt verður þegar ég fer til baka. Ég óttast að allt verði breytt og að lífið verði allt öðruvísi en áður. Lífið sem við áttum kemur ekki aftur. Svo margir hafa misst svo mikið; börn sín og foreldra og ástvini. Þjóð okkar þarf að lifa með því um ókomna tíð. Það er ómögulegt að vita hve margir hermenn láta lífið og hve margar mæður missa börnin sín,“ segir Olena og tárin renna niður kinnar hennar.

„Ég skil ekki þetta stríð; þetta er svo ósanngjarnt. Af hverju vill ekki fólk byggja eitthvað upp; skapa eitthvað gott í staðinn fyrir að brjóta niður og eyðileggja allt með stríðum? Fólk getur búið til svo ótrúlega fallega hluti en eyðir orku sinni í þetta skelfilega stríð.“

Höf.: Ásdís Ásgeirsdóttir