Agnar Már Másson
agnarmar@mbl.is
Elliðaey er ein af úteyjum Vestmannaeyja og þar stendur veiðihús lundaveiðimanna. Eyjan og umrætt hús hafa fengið mikla athygli og umtal í erlendum miðlum og á samfélagsmiðlum og margar furðusögur komist á flug. Er húsið til dæmis sagt vera „einmanalegasta hús í heiminum“. Sumir halda því fram að fjölskylda hafi búið í húsinu en yfirgefið það á fjórða áratugnum, aðrir telja að reimt sé í húsinu, enn aðrir halda því fram að milljarðamæringur hafi reist það og ætlað að flytja þangað í einangrun til að búa sig undir heimsendi af völdum uppvakninga. Langalgengasti misskilningurinn er þó sá að söngkonan Björk Guðmundsdóttir búi þar. Sé leitað á netinu að „the world’s loneliest house“ eða „Björks house“ birtist fjöldi mynda af húsinu.
Ívar Atlason, formaður Veiðifélags Elliðaeyjar, segir að enn virðist margir trúa sögusögnum um húsið. Í desember sl. birti breska blaðið The Sun fréttagrein um eyna og í seinustu viku fjallaði breski fréttavefurinn Mirror um hana. Ýmsir erlendir fréttamiðlar hafa áður skrifað um eyjuna og gjarnan kallað hana „dularfulla“ eða „hrollvekjandi“.
Bandaríski YouTube-áhrifavaldurinn Ryan Trahan, sem er með tæpar tólf milljónir áskrifenda á YouTube, gerði sér einnig ferð til Elliðaeyjar fyrir um einu og hálfu ári og tók upp myndband þar. Í myndbandinu dvelur hann í húsinu og hefur verið horft á það um 26 milljón sinnum. Má vera að það myndband hafi einnig aukið forvitni og áhuga um eyjuna.
Ívar segir að Veiðifélag Elliðaeyjar og Vestmannaeyabær fái enn fyrirspurnir frá ferðamönnum sem vilja heimsækja veiðihúsið fræga vegna þessara frétta. Hann segir, að starfsmaður Vestmannaeyjabæjar hafi birt færslu á fésbókarsíðunni Heimakletti þar sem hann tjáði óánægju sína vegna þess fjölda fyrirspurna um heimsóknir í Elliðaey sem bæjarfélagið hafi fengið frá ferðamönnum.
Björk býr ekki í húsinu
Lífseigasta flökkusagan er að Björk Guðmundsdóttir búi í húsinu. Er sá misskilningur væntanlega kominn til af því, að í febrúar árið 2000 veittu íslensk stjórnvöld heimild til þess að selja Elliðaey í Breiðafirði og var heimildin var veitt á þeim grundvelli að Björk hefði áhuga á að kaupa eyjuna. Davíð Oddsson, þáverandi forsætisráðherra og núverandi ritstjóri Morgunblaðsins, sagði meðal annars á Alþingi á þeim tíma, að hann gæti vel hugsað sér að Björk fengi að reisa sér hús á Elliðaey á Breiðafirði og búa þar leigulaust í þakklætisskyni fyrir störf hennar í þágu lands og þjóðar en söngkonunni hefði verið gerð grein fyrir því að ef til þess kæmi að eyjan yrði seld yrði hún auglýst, þannig að aðrir gætu komið að málinu.
En ekki kom til þess að Björk fengi eyjuna. Hún íhugaði að vísu um skamma hríð að kaupa eyju við strendur Skotlands en af því varð heldur ekki. Árið 2004 sagði Björk í viðtali við írska fjölmiðilinn Irish Examiner: „Ef maður fengi eyju þá myndu þeir senda ferðamannabáta þangað svo ferðamenn gætu bent á mann.“
Aldagömul saga
Saga veiðihússins er vissulega áhugaverð en þó kannski ekki jafnspennandi og sögur af draugagangi og uppvakningum. Ívar Atlason hefur tekið saman sögu hússins og í þeirri samantekt kemur fram að samkvæmt heimildum sé talið að fyrsta veiðihúsið sem byggt var í Elliðaey hafi verið reist um 1883. Á árunum 1951-1953 reisti Veiðifélag Elliðaeyjar nýtt viðleguból við rætur Hábarðs, hæsta tinds eyjunnar. Var staðsetningin valin m.t.t. þess að sæist til bæja. Árið 1985 var byrjað að byggja nýtt hús, austan við húsið sem byggt var á árunum 1951-1953, samfast. Var smíði þess lokið árið 1987. Árið 1994 kom í ljós að húsið frá 1953 var ónýtt. Var það því rifið og nýtt hús reist á sama stað.
Elliðaey
Þriðja stærsta eyjan
Elliðaey er þriðja stærsta eyja Vestmannaeyja, um 0,45 km2 að flatarmáli. Í samantekt Ívars Atlasonar kemur fram að Elliðaey sé á náttúruminjaskrá því þar eru miklar og sérstæðar sjófuglabyggðir. Í gegnum aldirnar hefur veiði á sjófuglum og eggjataka verið snar þáttur í fæðu Eyjamanna.
Lundaveiðar voru stundaðar af kappi í Elliðaey eins og í öðrum úteyjum Vestmannaeyja en breytingar í hafinu hafa leitt til fæðuskorts fyrir sjófugla sem hefur haft mikil áhrif á úteyjarlífið, lundaveiði og eggjatöku undanfarin ár og nú er nær enginn sjófugl veiddur eða egg tínd.